13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 357 í D-deild Alþingistíðinda. (3131)

163. mál, eftirlit með fyrirtækjasamtökum

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Till. þessi er á þá leið, að Alþingi álykti að skora á ríkisstj. að láta athuga, með hverjum hætti hið opinbera geti haft eftirlit með viðleitni fyrirtækja til að hafa með sameiginlegri afstöðu á markaði óæskileg áhrif á verðmyndun í landinu og hvernig bezt megi tryggja, að neytendur fái notið ávaxta aukinna framleiðsluafkasta í meira vöruúrvali og hagstæðara verðlagi.

Till. þessi hefur verið flutt á undanförnum þingum, en ekki orðið útrædd. Hér er um að ræða viðskiptalegt vandamál, sem hefur farið vaxandi um allan heim og fyllsta ástæða er til að gefa gaum einnig hér á landi. Komið hefur fram, m.a. í umsögnum ýmissa aðila á undanförnum þingum, vaxandi áhugi á þessu máli, og virðist vera skilningur á þörf einhverra slíkra ráðstafana, ekki sízt hjá samtökum eins og Verzlunarráði Íslands og hjá ýmsum þeim neytendasamtökum, sem að sjálfsögðu hafa höfuðáhuga á því, að ríkisvaldið verndi þá fyrir óeðlilegum samtökum til þess að halda uppi verðlagi, þar sem aðstaða til slíks er fyrir hendi. Það hefur verið vaxandi áhugi á málinu, og ég vil vænta þess, að hann komi fram í því, að till. fái nú afgreiðslu, enda er hér aðeins um fyrsta skrefið í stórmáli að ræða, athugun, sem væntanlega leiddi þá til till. um lagasetningu, ef ástæða þætti til, sem mjög má telja líklegt.

Herra forseti. Ég legg til, að till. verði vísað til allshn.