13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 361 í D-deild Alþingistíðinda. (3147)

166. mál, hægri handar akstur

Flm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Með sívaxandi samgöngum verða umferðarmálin og einkum slysavarnir í sambandi við umferðina aukið vandamál. En umferðarslys eru með flestum þjóðum að verða í flokki algengustu dánarmeina. Einn mikilvægasti þátturinn í slysavörnum í sambandi við umferð og samgöngur eru samræmdar alþjóðareglur og þá sérstaklega um það, til hvorrar handar skuli víkja. Á sjó er alþjóðareglan að víkja til hægri. í lofti er líka samkomulag um það, að reglurnar skuli vera alþjóðlegar. Á landi er einnig með flestum þjóðum lögboðið að víkja til hægri. í Evrópu eru ekki eftir nema 3 þjóðir, Englendingar, Svíar og íslendingar, sem hafa vinstri handar akstur.

Í Svíþjóð hefur nú verið ákveðið að breyta til hægri handar aksturs 1967, þó að formlega hafi það ekki verið staðfest enn þá, en þm. allra stjórnmálaflokkanna í Svíþjóð hafa samþ. að lögfesta það. í Englandi verða þær raddir sérfræðinga, sem fást við umferðarmál og slysavarnir, æ háværari, er krefjast þess, að þar verði breytt til og tekinn upp hægri handar akstur. Hin öra fjölgun bifreiða og það, að alltaf færist í vöxt, að menn taki bílinn með sér, er þeir fara milli landa, eða leigi sér bifreið þar, sem þeir eru á ferð, rekur mjög á eftir því, að umferðarreglur verði samræmdar. 1961 lentu á annað þús. erlendir bílar í slysum í Svíþjóð, en á þriðja þús. sænskir bílar í slysum erlendis. Þó að vafalaust sé, að öll slysin stafi ekki af því, að ökumenn áttu að víkja öðruvísi en þeir voru vanir, er talið, að mikill hluti slysanna muni hafa stafað af því. Með auknum gistihúsakosti, með vaxandi samgöngum og fyrirgreiðslu við ferðamenn er vafalaust, að erlendum ferðamönnum hér á landi hlýtur að fjölga stórlega á næstu árum. Með aukinni bifreiðaeign landsmanna hlýtur það líka að verða tíðara en nú er, að menn taki bifreið sína með sér, er þeir fara til útlanda. Allt bendir því til þess, að við hljótum að taka upp þá reglu, sem verður alþjóðaregla í þessu efni, en þar er reglan um nægri handar akstur.

Það er líka langt síðan þeir, sem mest hafa um þessi mál fjallað hér hjá okkur, gerðu sér þetta ljóst. í frv. að umferðarlögum, sem lagt var fyrir Alþingi 1940, var gert ráð fyrir að breyta til og taka upp hægri handar akstur. Í meðförum þingsins var þó þessu breytt og vinstri handar akstri haldið. Ég hygg, að sú breyting hafi verið gerð vegna ástæðna, sem ófriðurinn, sem þá geisaði, olli, en alls ekki vegna þess, að þá væri ekki þegar augljóst, að síðar hlyti alþjóðareglan um hægri handar akstur að verða ofan á hér eins og annars staðar.

Það, sem kallar að með að ákveða breytingu, er, að hún verður því dýrari, sem það dregst lengur að koma henni á. Þó tel ég, að verulega megi draga úr kostnaði við breytinguna með því að undirbúa hana nógu vel og með hæfilegum fyrirvara. Það, sem er langdýrast við breytinguna, er að breyta strætisvögnum. í Svíþjóð er t.d. talið, að um 2/3 kostnaðar við breytinguna séu kostnaður við breytingu á strætisvögnum og sporvögnum. Þennan kostnað tel ég þó að megi minnka mjög verulega með því að ákveða breytinguna með 4–5 ára fyrirvara og gæta þess, að allir þeir strætisvagnar, sem keyptir eru nýir á þeim tíma, séu gerðir þannig, að auðvelt sé og ódýrt að breyta þeim. Það gerir breytingar á hinn bóginn auðveldari hér á landi en ætla mætti, að því nær allar fólksbifreiðar á landinu eru gerðar fyrir hægri handar akstur. Annar kostnaðarliður er breyting á umferðarmerkjum og ef til vili einhver aukning á þeim til öryggis í sambandi við breytinguna. En ég hygg, að á þeim lið mætti einnig spara verulega með því, að fyrirvarinn væri nægur.

Eitt atriði er enn, sem kallar á, að þessu máli sé hraðað, að taka ákvörðun um breytinguna, ef hún á að gerast á næstu árum, en það er, að það er farið að stefna að því að gera hér varanlega vegi, og jafnvel er mönnum farið að detta í hug að hafa vegbrýr eða yfirbyggða vegi, þar sem vegir mætast. En ef slíkar brýr eru byggðar, er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir áður, hvernig vikið verður í framtíðinni, því að slíkar byggingar á varanlegum vegum eru mjög dýrar, og það þarf að vera ákveðið, hvernig eigi að víkja eða hvorum megin á vegi aka skal, áður en slík stór mannvirki verða byggð.

Ég vildi leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.