13.03.1963
Sameinað þing: 38. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 363 í D-deild Alþingistíðinda. (3154)

168. mál, endurskoðun raforkulaga

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég flyt hér ásamt hv. 5. þm. Sunnl. till. til þál. um endurskoðun raforkulaga frá 1946. í þessari till. er lagt til, að Alþingi kjósi 5 manna nefnd til þess að endurskoða þessi lög og þá alveg sérstaklega með tilliti til þess, að stefnt sé að því, að verðlag á raforku verði sem jafnast um land allt, og æ unnt reynist, að raforka til sams konar nota verði seld við sama verði hvarvetna. Þá, er lagt til, að rafvæðing allra byggða landsina á sem skemmstum tíma sé höfð í huga sem grundvallaratriði í sambandi við endurskoðunina, og enn fremur, að nýting orkuveranna verði sem fullkomnust, m.a. með því, að stefnt sé að því að hraða samtengingu orkuveranna svo sem frekast er unnt. Enn er lagt til, að athugað verði gaumgæfilega, hvort ekki sé orðið tímabært og heppilegast, að ríkið eigi og reki öll orkuver og jafnvel allt dreifikerfið. Enn fremur koma svo að sjálfsögðu til álita ýmis fleiri atriði við endurskoðun, eins og eðlilegt er, miðað við aldur laganna og þær miklu breytingar, sem hafa orðið á ýmsum sviðum, sem þessi mál varða, á þeim nar 17 árum, sem eru liðin frá setningu þeirra. Þannig er vitað, að ekki er farið að öllu eftir l. í reynd og sum atriði þeirra eru dauður bókstafur.

Sú grundvallarskoðun liggur að baki þessari till., að raforka sé við nútímaaðstæður slíkt frumskilyrði fyrir atvinnulíf landsmanna og raunar jafnvel fyrir lífvænlega búsetu, að eðlilegt sé og nauðsynlegt, að ríkið sjálft anníst framleiðslu hennar og sölu til allra landsmanna og þá á þann hátt, að þeim sé gert sem jafnast þar undir höfði, eftir því sem frekast má verða. En eins og kunnugt er, skortir verulega á það við núverandi aðstæður. Enn eru til byggðarlög, sem engrar raforku njóta, en önnur búa við verulega mismunun hvað verðlag snertir. Ef athugaðar eru notendagjaldskrár, t.d. fyrir árið 1960, þá kemur í ljós t.d., að lægsti lýsingartaxti er 250 aurar kwst., en sá hæsti 400 aurar, þ.e.a.s. 60% hærri en sá lægsti. Almenn heimilisnotkun er þá lægst 50 aurar kwst., en hæst 100 aurar, þ.e.a.s. 100% hærri en sá lægsti. Næturhitun er lægst 9 aurar kwst., en hæst 20 aurar, mismunurinn 122%. Daghitun er lægst 18 aurar kwst., en hæst 67 aurar, eða 270% hærri en lægsta gjaldið. Verð á rafmagni til stórra véla hreyfist þetta ár frá 30 aurum kwst. og upp í 106 aura, eða um allt að 253%. Árið 1961 var meðalsöluverð rafmagna til heimilisnota miðað við 3 herbergja íbúð frá 6–8 aura kwst. lægst og upp í 123 aura kwst. hæst, eða nær tvöfalt hærra, þar sem það var hæst, heldur en á þeim stöðum, sem bjuggu við lægst raforkuverð. Þetta sama ár, svo að dæmi sé tekið úr atvinnulífinu, var lægsta meðalverð rafmagns til frystihúsa 44 aurar kwst., þ.e.a.s. í Reykjavík, en hæst 100 aurar kwst. í Vestmannaeyjum, þ.e.a.s. á annað hundrað prósent hærra þar.

Ég hygg, að þessi dæmi ættu að nægja til að sýna, hversu mjög landsmenn búa við mismunandi rafmagnsverð, og yfirleitt er það svo, að það er dreifbýlið, sem býr við óhagstæðsta verðið, en lægra verðið er aftur gildandi á svæðum stærri virkjananna í þéttbýlinu. Þessi mismunur á rafmagnaverði á sér orsakir í sjálfum raforkulögunum, þeim sem nú gilda, enda gengið út frá því við setningu l., að rafmagnsverð sé mismunandi. M.a. stafar þetta af því, að lögin opna möguleika á eignarhaldi til óskyldra aðila á virkjunum og veitum, aðila, sem hver fyrir sig verðleggur sína framleiðslu og dreifingu eftir aðstæðum, eftir rekstrarkostnaði og eftir stofnkostnaði, sem er auðvitað mjög breytilegur, m.a. vegna mismunandi dýrleika framkvæmda á ýmsum tímum.

Það virðist tæplega hugsanlegt, að unnt reynist að jafna að fullu rafmagnsverð með öðrum hætti en þeim, að ríkið eigi og reki öll raforkuver í landinu og einnig dreifiveiturnar. Þó sýnist mér, að vel væri hugsanlegt að stíga nokkurt spor í þessa átt með því að koma á einu heildsöluverði raforku um allt landið, þó að frekari aðgerðir biðu síðari tíma. í þessu sambandi og þeirra vegna, sem eru kannske óttaslegnir um þjóðnýtingu, þá vil ég benda á það, að nú alveg á síðustu árum hafa fleiri og fleiri ríki, t.d. í Vestur-Evrópu, tekið upp fulla þjóðnýtingu á allri raforku, þ. á m. lönd eins og Frakkland og Ítalía, og það jafnt sjálf orkuverin og dreifingarkerfin.

Þegar rætt er um verðjöfnun á rafmagni, staðnæmast menn vafalaust við það, að sums staðar yrði um nokkra hækkun að ræða, um leið og verðið yrði lækkað annars staðar. En við flm. þessarar till. teljum, að slíkt sé ekki frambærileg röksemd gegn verðjöfnun.

Íbúar einstakra byggðarlaga búa nú að vísu við lægra verð en aðrir, aðallega, eins og ég áðan sagði, vegna þess, að virkjanir og veitur hafa verið byggðar upp á ódýrari tíma en nú er. En þegar að því kemur, að virkja þarf á slíkum stöðum að nýju, getur hins vegar farið svo, að rafmagnsverð yrði á slíkum svæðum hærra en alls staðar annars staðar, og slíkar snöggar gerbreytingar á verðlagi, sem getur leitt af núverandi skipulagi, geta því tæpast talizt heppilegar fyrir einn eða neinn, þegar til lengdar lætur. Það er líka bent á það í till. okkar, að vel væri hugsanlegt og framkvæmanlegt að jafna t.d. að fullu verð á rafmagni til heimilisnota, miðað við lægsta verð, sem nú gildir, þannig að jöfnunin leiddi ekki af sér hækkun neins staðar á þeirri notkuninni, sem almenningi hlýtur að vera viðkvæmust og snertir hann á beinastan hátt. Þetta væri mögulegt með því að jafna að einhverju leyti mismuninn, sem nú er á rafmagni til heimilisnota og rafmagni til annarra nota, en þessi munur hefur farið mjög vaxandi síðasta áratuginn og bilið lengzt á milli. Samkv. skýrslunni um sölu raforku árið 1860 nam almenn heimilisnotkun það ár 21.6% af heildarnotkuninni, en fyrir þessi 21.6% af notkuninni var gjaldið 41.1% af heildarsöluverðinu. Út úr þessu má lesa það, að fyrir heimilisnotkunina hefur verið greitt tvöfalt meðalverð. Lýsing var það ár 4.3% af heildarnotkuninni, en gjaldið fyrir þessi 4.3% var 14.5% af heildarsöluverði rafmagnsins, þ.e.a.s. þrefalt meðalverð. En á sama tíma notuðu þrír aðilar, svokallaðir stórnotendur, þ.e.a.s. áburðarverksmiðjan, sementsverksmiðjan og Keflavíkurflugvöllur, 36% af heildarnotkuninni, en fyrir þennan rúma þriðjung af allri raforkunotkuninni greiddu þeir aðeins 6.8% af heildarsöluverðinu. Árið 1960 var heimilisnotkun almenn 95.3 gwst., og söluverð þessarar orku var 77.3 millj., en ef heimilisnotkunin hefði þá verið verðlögð á lægsta taxta fyrir almenna heimilisnotkun, hefði mismunurinn orðið 15–17 millj., sem hefði þá orðið að taka í hærra verðlagi á annarri notkun, og verð ég að segja, að mér sýnist það vera mjög vel framkvæmanlegt, svo mikill munur sem nú er á rafmagnsverðinu til heimilisnotkunarinnar og til annarra nota, eins og ég hef að nokkru leyti rakið.

Í till. okkar er stefnt að því, að við endurskoðun sé lúkning á allsherjarrafvæðingu á sem skemmstum tíma höfð sérstaklega í huga, eins og ég áður sagði, og einnig, að sem bezt nýting fáist á framleiðslugetu orkuveranna, m.a. með því, að hraðað sé samtengingu orkusvæðanna og unnið að því eftir skipulagðri áætlun, en með slíkri samtengingu væri unnt að virkja stærra í einu og á hagkvæmari hátt en nú er. Og enn koma svo, eins og ég áður sagði, til fleiri smærri atriði, sem hafa ber í huga við endurskoðunina, þó að ég fari ekki sérstaklega út í það.

En ég vil að lokum aðeins segja það, að allir hljóta að vera sammála um, að hagkvæm skipan raforkumálanna er og hlýtur að verða eitt af hinum stóru málum atvinnulífsins og þróunar þess í framtíðinni, eitt grundvallarskilyrði, sem þjóðfélaginu ber að fullnægja, til þess að framfarir geti orðið stórstígar og sem jafnastar um allar byggðir landsins. Orkulindirnar, sem bíða óbeizlaðar, eru náttúrusuðæfi, sem allir landsmenn eiga að jöfnu, og þörf þeirra allra til að njóta þeirra er hin sama. Öll mismunun við uppfyllingu þessara frumþarfa er því fráleit, hvernig sem málið er skoðað, og eðlilegt, að kvaðirnar, sem því fylgja, hvíli sem jafnast á. öllum landsmönnum, en ekki t.d. að dreifbýlið sé sérstaklega skattlagt í því sambandi. Og það er fyrst og fremst tilgangurinn með flutningi þessarar till., að þessi mismunun hverfi sem fyrst úr sögunni.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. allshn.