10.04.1963
Sameinað þing: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í D-deild Alþingistíðinda. (3176)

178. mál, stéttarfélög og vinnudeilur

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Hún er ekki margorð, þessi till., sem hér liggur fyrir, en hún fjallar engu að síður um eitt viðkvæmasta deilumál þessa þjóðfélags. Till. er dálítið óvenjuleg að því leyti, að hún fer fram á það við hæstv. ríkisstj., að hún láti fara fram endurskoðun á ákveðinni löggjöf, löggjöfinni um stéttarfélög og vinnudeilur, en segir hina vegar ekkert til um það, ekki með einu orði, í hvaða átt sú endurskoðun á að beinast. Það hefði verið næsta eðlilegt, að till. um endurskoðun á vinnulöggjöfinni hefði ákveðið og skorinort falið það í sér, hvaða efnisatriði þessarar löggjafar ætti að endurskoða. En um það er ekkert að undanteknu því, að í lokin er sagt, að þessari endurskoðun eigi að hraða, þannig að stefnt sé að því, að frv. að nýrri vinnulöggjöf verði lagt fyrir næsta reglulegt Alþingi, þ.e. um tímamark, en ekkert um efnisinnihald væntanlegrar endurskoðunar.

Nú þykist ég vita það með vissu, að ekki sé þessi áskorun á hæstv. ríkisstj. um endurskoðun á vinnulöggjöfinni fram borin vegna þess, að hv. flm. eða yfirleitt aðrir þm. í stjórnarliðinu viti ekki, að hæstv. ríkisstj. hefur haft fullan áhuga á því allt síðasta kjörtímabil að koma fram endurskoðun á vinnulöggjöfinni og hefur verið að baksa við það allt sitt tímabil. Þess vegna er dálítið skrýtið, að í lok kjörtímabilsins, sem hæstv. ríkisstj: hefur heykzt á að koma endurskoðun fram, skuli koma áskorun frá fylgjendum stjórnarliðsins um að hefja endurskoðun á næsta kjörtímabili. Ég veit það alveg fyrir víst, að áhugann hefur ekki vantað hjá hæstv. ríkisstj. og hún hefur verið að fást við málið. Hún hafði n. starfandi í þessu verki framan æ kjörtímabilinu, og á árinu 1961 voru stjórnarflokkarnir mjög farnir að bera saman bækurnar um það, hvaða efnisatriðum vinnutöggjafarinnar hvor þeirra um sig vildi breyta. Og þessi endurskoðun hafði farið fram án nokkurs minnsta samráðs við verkalýðshreyfinguna. Það eitt hefði ég haldið að væru næsta óhyggileg vinnubrögð um löggjöf, sem svo mjög snertir ekki aðeins atvinnurekendurna í landinu, heldur einnig allt verkafólkið og öll samtök verkafólks. En þessi endurskoðun, sem hv. stjórnarflokkar voru að reyna að koma fram og voru að reyna að undirbyggja á kjörtímabilinu, átti að fara fram án nokkurs samráðs við annan meginaðilann, og það harma ég, því að það væru vinnubrögð, sem voru fyrir fram dæmd til að mistakast. Það var einmitt, þegar við höfðum fengið vitneskju um það í Alþýðusambandinu, að nefnd stjórnarflokkanna væri að vinna að þessu máli, að við þóttumst ekki geta setið hjá án þess að óska eftir því við hæstv. dómsmrh., að endurskoðun á vinnulöggjöfinni yrði þó a.m.k. ekki lögð fyrir Alþingi án þess, að verkalýðshreyfingin fengi að kynna sér efni þeirra till., sem fyrirhugað væri að bera fram, og þess vegna var það, að nefnd frá miðstjórn Alþýðusambandsins var falið að ganga á fund hæstv. dómsmrh., Bjarna Benediktssonar, og ræða við hann um þetta mál, spyrjast fyrir um, hvort það vri rétt, að endurskoðun væri í gangi á vinnulöggjöfinni og hvort henni væri langt á veg komið og að hverju hún stefndi. Hæstv. ráðh. tók okkur ljúfmannlega í þessari n., viðurkenndi, að það væri ekki óeðlilegt, að Alþýðusambandið vildi fylgjast með slíkri endurskoðun, og lét svo í ljós, að hann teldi ekki óeðlilegt, að hún léti sig þessi mál varða, og játaði, að þessi endurskoðun hefði verið í gangi um alllangt skeið. Efnislega vildi hann þó ekki tjá okkur, um hvað hún hefði snúizt, en hann lofaði því, að frv. að nýrri löggjöf, vinnulöggjöf, skyldi þó ekki lagt fyrir Alþingi, án þess að Alþýðusambandið fengi að kynna sér þær till. áður. Við áttum sem sé, og það var þakkarvert, hæstv. ráðh. lofaði því, að ef þessari endurskoðun yrði lokið og frv. yrði samið, þá skyldi hann sjá um það, að Alþýðusambandið fengi að líta á þessar till., áður en þeim væri kastað fyrir Alþingi. En það átti líka að vera allt og sumt, það áttu að vera þau einu afskipti, sem Alþýðusambandinu voru ætluð í þessu máli af undirbúningi þess til Alþingis.

En ráðh. sagði þá, að málin stæðu á því augnabliki þannig, að það, sem einn legði til, teldi annar ófært í stjórnarliðinu, þar væri hver höndin upp á móti annarri um allar breytingar og væri því óvíst, að nokkuð yrði at þessari endurskoðun. Og það hefur komið á daginn, — það var á árinu 1961, sem þessi viðtöl okkar fóru fram við hæstv. ráðh., og nú erum við staddir á árinu 1963, kjörtímabilinu að ljúka, og ekki hefur þetta barn hæstv. ríkisstj. fæðzt. Það hefur orðið lengri meðgöngutími en 9 mánuðir, og nú skal skora á ríkisstj. að endurskoða vinnulöggjöfina á næsta kjörtímabili.

Ég fagna því nú raunar, að þetta skyldi fara í vaskinn fyrir hæstv. ríkisstj. Vinnubrögðin voru óforsvaranleg í svona máli. Ef menn hafa hug á því að fá frið um þessi mál, er ekkert vit í að framkvæma endurskoðun á þessari löggjöf án frumkvæðis — ég segi frumkvæðis og samstarfs bæði vinnuveitendasamtaka og alþýðusamtaka, og það eitt á að minni hyggju í þessum málum að bera fyrir Alþingi, sem þessir aðilar í höfuðatriðum gætu orðið nokkurn veginn sammála um. Og ég hef ekki trú á því, að önnur löggjafarákvæði í þessum efnum leiddu til farsældar fyrir land og þjóð, sem væru knúin fram á Alþingi gegn vilja annara hvors þessara aðila, — ég hef ekki trú á því, það segi ég hiklaust. Ég held, að sú vinnulöggjöf verði affarasælust landi og þjóð, sem væri undirbyggð í meginatriðum að vilja beggja aðilanna á vinnumarkaðinum. Önnur ákvæði, sem sett væru algerlega gegn vilja annars hvors þessa aðila, ég held, að þau mundu leiða til deilna, hatrammra deilna og ófarsældar fyrir þjóðfélagið.

Þó að ekkert orð standi um það í till. sjálfri, í hvaða átt endurskoðun eigi að beinast, kemur það þó fram í grg., að hverju skal atefna, í nokkrum atriðum a.m.k. Og mér skilst, að þar sé ekki neitt um að villast. Öll endurskoðun á að beinast að því að takmarka og þrengja rétt verkalýðsstéttanna og verkalýðssamtakanna á Íslandi með nýjum ákveðum þessarar löggjafar. Það fer ekkert á milli mála, þó að ekkert orð standi um það í till. sjálfri. Þetta verður bert af grg. Þá mátti og ráða nokkuð af því, hvert stefna ætti, þegar ríkisstj., sem hefur lækkað kaupgjald með töggjöf, ríkisstj., sem hefur tvívegis rift öllum kaupgjaldssamningum í landinu með gengisfellingu, ríkisstj., sem hefur afnumið verðlagsuppbætur á laun með löggjöf, ríkisstj., sem hefur gefið út hver brbl. á fætur öðrum til þess að banna löglega boðuð verkföll, ríkisstj., sem hefur beitt hinum harkalegustu og svívirðilegustu gerðardómslögum gegn flugmannastéttinni, — þegar hún er beðin að endurskoða vinnulöggjöfina, þá þar enginn að fara í grafgötur um það, þarf kannske ekkert orð í till. um það, í hvaða átt endurskoðun eigi að beinast. Þegar slík ríkisstj. er beðin að endurskoða vinnulöggjöf, þá vita menn, að það á, að vera til þess, að þeir fái rýmra olnbogarúm til þess að haga sér á sama hátt og þeir hafa gert á liðandi kjörtímabili. Þeir hafa ekki þótzt hafa nægilegt olnbogarúm við núv. löggjöf, þegar þeir hvað eftir annað hafa orðið að gripa til bráðabirgðalöggjafar. Þó að ekkert orð hefði staðið í grg. um það, að hverju endurskoðunin ætti að beinast, þá hefðu menn af því einu, að þessi hæstv. ríkisstj. er beðin að endurskoða löggjöfina, mátt vita, að hverju hún átti að stefna.

En við þurfum engar getgátur, því að grg. segir þetta skýrum orðum í nokkrum atriðum, og er þó áreiðanlega reynt að tala eins varlega um þetta, eins mjúklega og unnt er, því að það gerði hv. frsm. þar um áðan. Hann sagði meira að segja, að þetta væri svo saklaust mál, að það væri ekki með þessari till. ætlazt til, að endurskoðun færi fram á öðrum atriðum en þeim, sem líkur væru til að litlar eða engar deilur stæðu um, þ.e.a.s. það á við allra smávægilegustu atriði löggjafarinnar, ekki að hrófla við neinum meginatriðum löggjafarinnar, bara eitthvert smákák, smávægileg atriði, sem litlar eða engar deilur væru um. Þá sá ég líka, að okkar alvörugefni hæstv. dómsmrh. brosti, þegar ræðumaður sagði þetta, það væri sannarlega ekki ætlazt til þess að fara að hrófla neitt við vinnulöggjöfinni í öðrum atriðum en þeim, sem líkur væru til að litlar eða engar deilur mundu standa um.

Nei, það er enginn vafi á því, að ef þessi till. verður samþ. á Alþingi og það færi svo, að núv. hæstv. ríkisstj. ætti um að fjalla þá endurskoðun, þá vitum við alveg, í hvaða átt hún á að fara. Hún á að þrengja rétt verkafólks í öllum deilum við atvinnurekendur, hún á að auka rétt atvinnurekendanna í þeim viðskiptum, hún á að grípa á meginverkefnum þessarar löggjafar, hún á að fjalla, eins og hv. ræðumaður kom siðar að, um verkbannsréttinn. Um hvaða stærri atriði er hægt að fjalla í þessari löggjöf? Það var að engu gert í framhaldi ræðunnar hjá hv. ræðumanni, þegar hann hafði sagt, að endurskoðunin ætti bara að fjalla um atriði, sem engar eða titlar deilur stæðu um, þegar hann játaði að þarna ætti að gera breytingar á ákvæðunum í vinnulöggjöfinni um verkfallsrétt og verkbannsrétt.

En mér verður spurn: Úr því að þessi endurskoðun á þó að fjalla um verkfallsrétt og verkbannsrétt, er það hugsun 1. flm. og þeirra flm., að verkfallsréttur verði skertur eða verkfallsréttur verði rýmkaður? Um það er ekkert í till., og mætti þó varla minna vera en maður fengi að vita um, í hvaða átt endurskoðunin á að fara, að því er þetta meginatriði snertir.

Ég hygg, að það sé rétt, sem segir í upphafi grg. með till., að í frjálsu nútímaþjóðfélagi sé löggjöfin um stéttarfélög og vinnudeilur einhver mikilvægasta löggjöfin, sem þjóðlélagsþegnarnir búi við, og það sé mjög afdrifaríkt, hvernig slík löggjöf sé, örlagaríkt fyrir þjóðfélagið. Um þetta erum við sammála, og munu flestir vera sammála um það. Löggjöfin, eins og hún er, er um réttindi og skyldur verkafólks og atvinnurekenda og samtaka þeirra, og ég álít, að þessi vinnulöggjöf, sem að vísu er, eins og hv. frsm. sagði, orðin nærrí aldarfjórðungs gömul, fullra 24 ára, að hún hafi gefizt undravel, þegar tillit er tekið til þess, að hér var um algjöra frumsmíð að ræða. Til hennar var og stofnað á þann hátt, að þar voru til kvaddir fulltrúar frá hvorum tveggja höfuðaðila á vinnumarkaðinum, og þeir köstuðu ekki höndum til síns verks. Þeir unnu það að minni hyggju mjög vandlega, og árangurinn var, eins og ég sagði áðan, að minni hyggju undragóður. Þessi löggjöf hefur gegnt miklu og farsællegu hlutverki í íslenzku þjóðfélagi, og ég á eftir að sjá það, að nokkuð verði þar um bætt í meginatriðum. Það þarf enginn að ætla, að það sé hægt að koma í veg fyrir vinnudeilur og verkföll með nokkurri vinnulöggjöf. Það er ekki hægt. Ef einhver gerir sér þær hugmyndir um vinnulöggjöf, þá fer sá hinn sami villur vegar. Það er ekki hægt að fyrirbyggja með öllu verkföll og vinnudeilur með neinni vinnulöggjöf, og til þess að menn geti skellt skuldinni á vinnulöggjöfina á Íslandi, sem hefur verið í gildi s.l. 24 ár, að hér hafi orðið verkföll, þá verða menn að benda á, að hverju leyti eru óeðlileg eða ranglát ákvæði í þessari vinnulöggjöf, sem við búum við.

Eitt af því fyrsta, sem flm. segja, er, að með löggjöf eins og vinnulöggjöfinni þurfi að tryggja svo sem kostur sé æskilega samstöðu og samstarf innan samtaka launþega og vinnuveitenda, svo og skynsamlega meðferð deilumála þessara aðila, að öðrum kosti geti verið vá fyrir dyrum. Þessu er ég sammála, og ég tel, að íslenzka vinnulöggjöfin hafi tryggt nokkurn veginn svo sem verða má eðlilega samstöðu og samstarf innan samtaka launþega og atvinnurekenda. Það er þó atriði, sem vinnulöggjöf getur engan veginn tryggt til neinnar hlítar, það er miklu fremur innra skipulags- og lagasetningaatriði í hvorum samtökunum um sig, og ég hygg, að þar megi vanda siglinguna milli skersins og bárunnar, ef menn fari að setja í vinnulöggjöf nákvæm og smávægileg atriði um það, hvernig skuli haga skipulagsháttum verkalýðssamtaka á aðra hlið og atvinnurekendasamtaka á hina. Þar verður vandsiglt, það fullyrði ég. Þess vegna held ég, að það verði ekki fyrst og fremst hægt að endurbæta hér vinnulöggjöfina með það fyrir augum að segja nákvæmlega fyrir í einstökum atriðum, hvernig verkalýðssamtök og atvinnurekendasamtök skuli skipulagslega upp byggð. En hitt atriðið, að skynsamlega sé farið með deilumál milli þessara aðila, er höfuðverkefni góðrar vinnulöggjafar. Og þar hef ég ekki orðið var við annað en íslenzka vinnulöggjöfin fullnægi nokkurn veginn þeim kröfum, sem bera geri til slíkrar löggjafar, enda er hún byggð á löggjöf Svía og Norðmanna, sem er einna réttlátasta löggjöf og mest og bezt reynsla hefur fengizt á í heiminum. Okkar löggjöf er sniðin eftir norsku og sænsku löggjöfinni, og þær þjóðir hafa einhverja beztu löggjöf um þessi efni allra þjóða, sem mér er kunnugt um, og áreiðanlega þá löggjöf, sem einna bezt getur hentað íslenzkum staðháttum. Danir hafa hins vegar enga vinnulöggjöf. Það er þess vegna nokkuð hæpið, sem hér er fullyrt, að löggjöf eða reglur um stéttarfélög og vinnudeilur séu yfirleitt endurskoðuð mjög oft í löndunum. Það er líkt með vinnutöggjöf og með stjórnarskrá. Þar sem fastir hættir og venjur hafa skapazt í þessum málum milli atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, er yfirleitt mjög sjaldan og ekki nema þegar brýnasta nauðsyn þykir krefja og þá oftast nær að áliti höfuðaðila beggja á vinnumarkaði hróftað við vinnulöggjöf. Það er litið á þetta sem stjórnarskrá á þessu sviði þjóðfélagsins, sem eigi ekki að vera að hringla með fram og aftur, ekki eigi alltaf að vera að breyta. Þess vegna er það ekkert einstakt hér, að liðið hafa 24 ár, án þess að vinnulöggjöfinni væri breytt í neinum verulegum atriðum. Norðmenn hafa gert lítið að því að breyta sinni vinnulöggjöf og Svíar sömuleiðis. En hvað með Dani? Að loknu miklu og örlagaþrungnu verkfalli fyrir aldamót, — fyrir seinustu aldamót — gerðu atvinnurekendur í Danmörku og verkalýðsfélögin með sér sáttmála. Það var í septembermánuði, og þetta samkomulag þeirra hefur verið stjórnarskrá danskra atvinnurekenda og atvinnurekendasamtaka og verkalýðs og verkalýðssamtaka í Danmörku alla tíð síðan. Það hefur verið stjórnarskráin í þessum viðkvæmu deilumálum í dönsku þjóðfélagi í milli 60 og 70 ár. Svona lítið hafa þeir verið gefnir fyrir það að hrófla við þessum grundvelli, sem einu sinni var lagður af báðum aðilum, að þeir hafa látið þetta standa síðan. Það er rétt, að á síðustu árum hafa hvorir tveggja aðila hugsað til þess að endurskoða þennan sáttmála með það fyrir augum að koma á hjá sér vinnulöggjöf svipaðri og Svíar og Norðmenn. En þeir hafa hvað eftir annað heykzt á því og látið septembersáttmálann duga, þrátt fyrir það að hann sé nú milti 60 og 70 ára gamall. Og auðvitað hafa orðið miklar breytingar í atvinnuháttum Dana á öllu því tímabili og í dönsku þjóðfélagi engu síður en hjá okkur, sem viðurkenna ber.

Nei, það er ekki hversdagslegur atburður í nágrannalöndum okkar, að grundvallarákvæðum um samskipti atvinnurekenda og verkalýðssamtaka sé breytt, enda miklum vandkvæðum bundið, ef til bóta skal breyta, það er alveg áreiðanlegt. Og það hef ég tekið fram, að ég er mjög vantrúaður á, að til bóta verði breytt í verulegum atriðum íslenzkri vinnulöggjöf, nema þær breytingar séu undirbyggðar með nokkurn veginn samkomulagi í aðalatriðum, bæði Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands íslands. Og ég hygg, að hver sú ríkisstj., sem flanaði af stað með gjörbreytingu á íslenzkri vinnulöggjöf án þess að undirbyggja breytingarnar á þann veg, væri ekki að skapa íslenzku þjóðfélagi aukna farsæld.

Ég spyr: Að hverju leyti tryggir núv. íslenzk vinnulöggjöf ekki skynsamleg vinnubrögð í deilumálum milli atvinnurekenda og verkalýðssamtaka? Hvaða atriði þetta áhrærandi eru það í íslenzku vinnutöggjöfinni, sem ekki leiðbeina atvinnurekendum og verkalýðssambökum um skynsamleg vinnubrögð í meðferð deilumála, en að því á eitt fyrsta atriðið í endurskoðun að beinast?

Þá segja flm. till. í grg., að sanngjarnar reglur um beitingu verkfalls og verkbanns þurfi að setja. Eru reglurnar í núv. vinnulöggjöf um setningu verkfalls og verkbanns, — þær eru samhljóða, þær eru um gagnkvæman rétt, sams konar rétt beggja aðila, — eru þær ósanngjarnar? Hér má ekki skella á verkfalli með minna en 7 sólarhringa fyrirvara og ekki heldur verkbanni. Er það ætlun manna, að þennan frest þurfi að lengja, það megi t.d. ekki nema með mánaðar fyrirvara eða hálfs mánaðar fyrirvara? Er þetta ósanngjarn frestur, vikan, sem menn hafi til þess að þrauthugsa sig um, hvort þeir vilji heldur velja samningaleið eða láta koma til stöðvunar, annaðhvort með verkfalli eða verkbanni? Er vist, að jafnvel mánaðarfrestur leysi frekar vandann? Ég er ekki sannfærður um það a.m.k. Það er ekki það, að vika sé ekki nægur tími, til þess að menn geri það upp við sig, báðir aðilar: Eru atriðin, sem á milli ber, eru deiluatriðin þess virði, að lagt sé út í verkfall eða verkbann, sem enginn veit, hve lengi stendur, eða verðum við til þess að komast hjá slíku að sætta okkur heldur við það, sem unnt er að ná samkomulagi um? Vikan dugir til þessa í flestum tilfellum. Það er ekki það. Þó að mánaðarfrestur væri annars settur, gæfi hann enga tryggingu fyrir því, að deilumálin leystust, nema jafnvel síður væri.

Þessar reglur, sem setja á, segja flm., eiga að miðast við það að minnka tjón, sem þjóðarbúið hefur orðið fyrir í vinnudeilum. Þeir meina nú það tjón, sem aðilarnir á vinnumarkaðinum kunna að verða fyrir í framtíðinni með vinnudeilum. Hvernig á þetta að gerast? Hvernig á að koma í veg fyrir það tjón, sem af stöðvunum á vinnumarkaðinum verður með annaðhvort verkfalli eða verkbanni? Mig langar til að vita nánar um, hvers konar ákvæði þarna eigi að vera. Mér hefur helzt dottið í hug, að það væri þetta viðvíkjandi verkfalli og verkbanni, að fresturinn skyldi lengjast, og ég hef ekki trú á því, að það gefi fullnægjandi tryggingu fyrir betri árangri. Það eru mismunandi reglur um rétt til verkfalls- og verkbannsboðunar í ýmsum löndum, en ekkert land hefur dottið niður á þær reglur, sem hafi getað komið í veg fyrir, að deilur yrðu og verkföll væru boðuð, verkföll væru háð og verkbönn væru boðuð og háð. Það er yfirleitt ekki unnt að setja ákvæði, sem tryggi það, að ekki verði verkföll eða verkbönn. Svo lengi sem deiluatriði eru til milti atvinnurekenda og verkalýðs um skiptinguna á arði vinnuaflsins, verða deilur, ef menn hafa frjálsræði til þess að halda sínum rétti fram. Menn geta kannske fyrirbyggt deilurnar með því að svipta menn réttindum til þess að deila, og það er kannske tilgangurinn. Þá er bara að segja það. (Forseti: Má ég biðja hv. ræðumann að doka við andartak. Það er mál þannig vaxið, að fundartími sameinaðs þings er nú úti í dag, og spurningin er, hvort hv. þm. á mikið eða lítið eftir af ræðu sinni, hvort hann kysi að ljúka henni kannske á 2–3 mínútum eða láta siðari hlutann bíða til næsta fundar eða næst, þegar málið verður á dagskrá.) Herra forseti. Ég treysti mér ekki til að ljúka ræðu minni á næstu 2–3 mínútum, kannske ekki heldur á næstu 20–30 mínútum. En mér finnst málið vera þannig vaxið, að ég hljóti að telja, að ég sé í nokkuð skyldum rétti að ræða þetta mál. (Forsetl: Vissulega, andartaki Ég veit, hvernig ástatt er, það er ekki mín sök, að málið er borið fram á þessum hluta þings. undir þinglok, en ég bara bíð eftir úrskurði forseta. (Forseti: Það er fundur í Nd. nú strax á eftir og stefnt að því að ljúka honum fyrir kl. 4, þannig að umr. verður því að fresta og taka málið af dagskrá.) Ég tek til greina ummæli forseta um að fresta ræðu minni: Ég sé, í hvaða sporum hann er. Það þarf að koma fram öðrum málum á fundi í hv. Nd., og ég fresta því minni ræðu.