06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í D-deild Alþingistíðinda. (3194)

183. mál, aðbúnaður verkafólks

Flm. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Við hv. 2. landsk. þm. (EðS) höfum leyft okkur að flytja till. til þál. um, að fram fari rannsókn á aðbúnaði verkafólks í verbúðum og vinnustöðvum með sérstöku tilliti til öryggis og heilbrigðiseftirlits. Þáltill. er svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að kjósa fimm manna nefnd, sem rannsaki aðbúnað verkafólks í verbúðum og á vinnustöðum með sérstöku tilliti til öryggis og heilbrigðiseftirlits. Sérstaklega skal n. rannsaka aðbúnað og alla aðstöðu þess fólks, sem sækja verður atvinnu sína til fjarlægra staða um sumar- og vetrarvertíðir. N. skal gera ýtarlega skýrslu um störf sín og leggja fram tillögur til úrbóta varðandi þessi mát, ef rannsóknir hennar upplýsa, að þess sé þörf. N. kveður sér til aðstoðar fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, frá verkalýðsfélögum viðkomandi staða, frá Vinnuveitendasambandi Íslands og frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Nefndin skal ljúka störfum fyrir ársbyrjun 1964.“

Eins og till. ber með sér, er ráð fyrir því gert, að fram fari allviðtæk rannsókn um aðbúnað á vinnustað og alla aðstöðu verkafólks, sérstaklega þó þess fólks, sem sækir atvinnu sína til fjarlægra staða sumar- og vetrarvertíðir.

Það verður tæplega um það deilt, að eitt aðalskilyrði þess, að fólk skili viðunandi afköstum við vinnu, er, að allur aðbúnaður á vinnustað sé í sem fullkomnustu lagi og að fullkomins öryggis sé gætt í sambandi við vinnuna. Á flestum sviðum atvinnulífsins eru svo að segja árlega teknar í notkun nýjar vinnuvélar og vinnutæki. Þannig er að því stefnt hröðum skrefum, að sem mest af vinnunni verði vélvætt. Gamlar vinnuaðferðir eru óðum að hverfa, en nýi tíminn með sitt vélaskrölt, hraða, hávaða og hættur í hverju spori hefur haldið innreið sína. Með aukinni tækni og með vaxandi notkun véla við hin margvíslegu störf skapast að sjálfsögðu mörg ný vandamál. Vélvæðing atvinnuveganna útheimtir enn þá strangara öryggiseftirlit en áður með vinnuvélum og meðfylgjandi vinnutækjum. Kröfur til þeirra, er vélunum stjórna, verða því meiri, eftir því sem vélin er stærri og margbrotnari. Til eru lög og reglugerðir um öryggi á vinnustað, um meðferð véla, viðhald og fleira þess háttar. Enn fremur er skipaður sérstakur öryggismálastjóri með tilheyrandi trúnaðarmönnum úti um allt land. í það starf hefur valizt hinn ágætasti maður, sem miklu góðu hefur til leiðar komið í starfi sínu til aukins öryggis á vinnustað.

Menn eru sammála um það, að forðast beri slysin og að allt beri að gera, til þess að slíkt komi ekki fyrir. Samt er það þó staðreynd, að alltaf öðru hverju eru að koma fyrir hin alvarlegustu slys við vinnu, sem í sumum tilfellum a.m.k. hefði verið hægt að forðast, ef nægileg gætni og fyrirhyggja hefði verið viðhöfð.

Þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir frá ýmsum aðilum, m.a. frá verkalýðshreyfingunni og Slysavarnafélagi Íslands, um að herða eftirlit með meðferð og umbúnaði véla og tækja og jafnframt að þess sé þá gætt, að á öllum vinnustöðum sé í efnu og öllu fylgt gildandi lögum og reglugerðum þar að lútandi, virðist enn þá ýmsu vera ábótavant hjá okkur í þessum málum.

Með aukinni véltækni við flesta vinnu vex, eins og áður hefur verið bent á, slysahættan stórlega. Hver ný vél kallar á nýja hættu, ef ekki eru viðhafðar nauðsynlegar öryggisráðstafanir.

Það væri hægt að telja upp fjölda slysa víðs vegar um land, sem orsakazt hafa vegna ónógra öryggisráðstafana og sumpart vegna lélegrar kunnáttu þeirra, er vélunum hafa stjórnað. Slysin, sem orðið hafa í verksmiðjum og verkstæðum, hafa í mörgum tilfellum orsakazt af lélegum útbúnaði kringum vélarnar. Álit okkar flm. er, að hin mesta nauðsyn sé á því, að öll þessi mál verði tekin til gagngerrar endurskoðunar, krafizt verði strangara eftirlits af hendi öryggiseftirlitsins og að gerðar verði strangari kröfur til atvinnurekenda en nú er um allan öryggisútbúnað í verksmiðjum, verkstæðum, við hafnarvinnu, byggingarvinnu og yfirleitt við alla vinnu, hvort sem hún er unnin á landi eða sjó, allt eftirlit verði stórlega bætt frá því, sem nú er, og það tryggt, eftir því sem frekast er hægt, að gildandi lögum og reglum þar um verði framfylgt til hins ýtrasta og ný sett, ef þess yrði talin þörf:

Menn ræða mikið og hafa mikið rætt um vinnuhagræðingu. Það skal undirstrikað, að verkalýðshreyfingin hefur aldrei verið á móti vinnuhagræðingu, enda afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þess máls mjög skýrt mótuð í hinni ágætu ræðu, sem forseti Alþýðusambands Íslands hélt hér á Alþingi undir umr. um námskeið í vinnuhagræðingu. Ég hef þar mjög litlu við að bæta. Ég vil þó aðeins benda á, að svo framarlega sem vinnuhagræðing á að ná tilgangi sínum, verðuröll aðstaða verkafólks á vinnustað að vera í sem fullkomnustu lagi. Nú er það svo, að á slíku er mikil vöntun, og á mörgum verkstæðum og verksmiðjum er aðbúnaður verkafólks langt frá því að geta talizt viðunandi, loftræsting léleg, vöntun á nægjanlegum hreinlætistækjum, kaffi- og matstofur í ófullkomnu lagi, og sjálfir vinnustaðirnir, þ.e. húsnæðið, sem vinnan fer fram í, er lélegt og vélum oft illa fyrir komið. Það skal þó tekið fram, að á þessu hefur orðið breyting til batnaðar nú síðari ár með byggingu nýrra verksmiðja, þótt enn sé mörgu ábótavant í þessum málum, sem brýna nauðsyn ber til að kippt sé í lag sem allra fyrst.

Annað aðalefni þáltill. okkar er um rannsókn á aðbúnaði þess verkafólks, sem sækja verður atvinnu sína til fjarlægra staða um sumar- og vetrarvertíðir. Atvinnuvegum okkar er þannig háttað og mun verða svo á komandi tímum, að árlega verður fjöldi fólks að sækja atvinnu sína til staða fjarri heimilum sínum. Fyrr á tímum fóru margir bændur og vinnumenn þeirra til sjóróðra í hinum ýmsu verstöðvum víðs vegar um land. Þannig stunduðu bændur jöfnum höndum landbúnað og sjósókn og juku þar með tekjur búa sinna allverulega. Eftir að íslenzkur sjávarútvegur færðist í aukana, hefur fjöldi þess fólks, sem flutzt hefur til eftir árstíma til hinna ýmsu staða, farið sífjölgandi. Enginn vafi er á því, að enn um langt skeið þurfa íslenzkir sjómenn og landverkafólk að sætta sig við það ástand, að þeir geti ekki bundið sig við neinn ákveðinn stað. Þeir verða að flytja sig til, eftir því sem atvinnan er á hverjum tíma. Slík tilfærsla á fólki skapar mikið vandamál, slíkur flutningur á milli verstöðvanna er í mörgum tilfellum undirstaða þess, að frá þessum stöðum sé hægt að reka útgerð og fiskiðnað að nokkru ráði. Það er því sannarlega ekki lítið vandamál, að þannig sé að þessu fólki búið í hinum ýmsu verstöðvum og fiskiðnaðarbæjum, að viðunandi geti talizt. Þetta er mál, sem alla þjóðina varðar, og þetta er mál, sem Alþingi getur ekki skotið sér undan að taka afstöðu til.

Á það er bent í grg., sem fylgir þáltill., að atvinnurekendur ráði oft og tíðum til sín verkafólk, án þess að þeir hafi möguleika til að veita því viðunandi húsnæði, fæði og annan nauðsynlegan aðbúnað. í sumum síldarbæjunum á Norðurlandi, svo sem Siglufirði og Raufarhöfn, er atvinnurekendum gert að skyldu samkv. ákvæðum kaupgjaldssamninga viðkomandi verkalýðsfélaga að sjá fastráðnu fólki sínu fyrir húsnæði án endurgjalds. Sumt af þessu húsnæði er langt frá því að geta talizt viðunandi. Margt af húsunum eru gamlir timburhjallar, gjörsneyddir flestum þægindum. Í slíkum húsum er vitanlega hin mesta eldhætta. Verður það að teljast sérstök heppni, að ekki hafa orðið af stórslys. Í hinum gömlu timburhjöllum búa oft og tíðum tugir og jafnvel hundruð karla og kvenna við hin frumstæðustu skilyrði. Óvíða er nein aðstaða til þess að hafa matsölu í þessu húsnæði, og verður því fólk annaðhvort að kaupa mat á dýrum matsölustöðum eða matreiða fyrir sig sjálft. Slíkt fyrirkomulag er vitanlega í alla staði ófært. Það, sem er þó langalvarlegast, er hin mikla hætta, sem af því getur stafað að láta fólk búa í tuga- og jafnvel hundraðatali í gömlum timburhjöllum.

Eldsvoða getur fyrr en varir á öllum tímum borið að höndum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Máltækið segir, að það sé seint að byrgja brunninn, þegar barnið sé dottið ofan í. Það hefur sýnt sig, að það getur verið örðugt að bjarga fólki úr logandi timburhúsum, sem oft og tíðum eru þá gegnsósa af eldfimum efnum, eins og sumir síldarbraggarnir eru. Það er mikið um það rætt, að nauðsyn beri til að útrýma heilsuspillandi húsnæði hér í höfuðborginni og annars staðar. Slíkar aðgerðir eru vitanlega sjálfsagðar og mjög aðkallandi og þótt fyrr hefði verið. En það er ekki síður aðkallandi, að ráðin verði bót á því ófremdarástandi, sem ríkir í húsnæðismálum þess verkafólks, sem sækja verður atvinnu sína sumar og vetur til hinna ýmsu verstöðva. En slíkar framkvæmdir kosta mikið átak fjárhagslega og verður tæplega framkvæmt nema með aðstoð og fyrirgreiðslu hins opinbera.

Aðalatriðið er þó, að þeir menn, sem þessi mál varða, sjái og skilji nauðsyn þess, að úr þessu ástandi verði bætt. Það er vitanlega þjóðarnauðsyn að kaupa góð og vönduð fiskiskip. Það er líka sjálfsagt, að byggðar séu fullkomnar fiskvinnslustöðvar, þar sem hægt er að vinna úr aflanum, sem að landi berst, sem bezta útflutningsvöru. En það er ekki síður nauðsynlegt, að þannig sé að verkafólkinu búið, sem að framleiðslunni vinnur, að mannsæmandi geti talizt. Um aðbúnað verkafólksins, sem sækir atvinnu sína til verstöðvanna við Faxaflóa og Vestmannaeyjar, væri margt hægt um að segja og mundi sumt, sem því hefur verið boðið upp á, ekki geta talizt til neinnar sérstakrar fyrirmyndar. Það var t.d. algengt, að menn, sem ráðnir voru til hinna ýmsu verstöðva hér syðra, urðu sjálfir að sjá sér fyrir húsnæði og fæði og greiddu fyrir það mjög háar upphæðir. Fæst af þessu fólki hafði nokkra vinnutryggingu, og valt afkoma þess algerlega á því, hvort mikið eða lítið fiskaðist. En þetta ástand er að mestu leyti óbreytt enn. Það er lítt verjandi, að verkafólk, sem ræður sig á vetrarvertíð hér sunnanlands, skuli ekki hafa lágmarkskauptryggingu. Það má segja, að það öryggisleysi, sem landverkafólkið býr við að þessu leyti, komi ekki að sök, ef vel fiskast. En í aflaleysisárum, sem alltaf geta komið fyrir, biður þessa fólks vitanlega ekkert annað en vandræði og allsleysi. Sjómenn hafa lágmarkstryggingu við flestar veiðar, og er slíkt talið alveg sjálfsagt og nauðsynlegt, m.a. til þess að hægt sé að fá sjómenn á bátana. Verkafólk á Siglufirði og Raufarhöfn hefur líka lágmarkstryggingu yfir síldarvertíðina. En hér sunnanlands er ekki um neina slíka lágmarkskauptryggingu að ræða yfir vetrarvertíðina hjá verkafólki. í þessu tilfelli er landverkafólkið sett skör lægra en sjómannastéttin. Þetta er ekki sagt til þess að draga úr nauðsyn þess, að sjómennirnir hafi lágmarkstryggingu, síður en svo, heldur aðeins bent á þetta hér til að sýna það mikla ósamræmi, sem þarna er á milli.

Þrátt fyrir það, þó að ýmislegt hafi verið gert til úrbóta í þessum málum frá því, sem áður var, og atafar fyrst og fremst af því, að nú síðustu ár hefur vöntun á verkafólki í hinum ýmsu verstöðvum hér sunnanlands verið mikil og þar af leiðandi hafa atvinnurekendur hér talið sig neydda til að bjóða verkafólki sínu upp á meiri hlunnindi en áður, er langt frá því, að þessi mál séu komin í viðunandi horf, en að því ber að stefna, að svo megi verða sem allra fyrst. Ég fletti upp í fjárlögum fyrir 1983 og athugaði, hve miklu fé væri varið til lesstofa sjómannaheimila víða vegar um land. Eftirtaldar sjómannastofur hljóta styrk sem hér segir: Lesstofa sjómannaheimilisins á Siglufirði 10 þús. kr., lesstofa Sjómannafélags Reykjavíkur 3750 kr., lesstofa sjómannaheimilis á Raufarhöfn 4000 kr., sjómannalesstofa K.F.U.M. í Vestmannaeyjum 4000 kr., sjómannastofa í Bolungarvík 1200 kr., sjómannalesstofa í Höfn í Hornafirði 1200 kr., sjómannastofa á Akranesi 4000 kr. og sjómannastofa í Reykjavík 20000 kr. Samtals eru það 8 sjómannastofur, sem hljóta styrk frá ríkinu á þessu ári. Samtals gerir þetta 48150 kr. Ef maður nú athugar þetta dálítið nánar, sést, að á öllum Austfjörðum er engin sjómannastofa eða sjómannaheimili, sem styrk fær frá ríkinu, engin í höfuðborg Norðurlands, engin á öllum Vestfjörðum nema í Bolungarvík og engin sjómannastofa við Breiðafjörð eða við Faxaflóa nema á Akranesi og í Reykjavík. Margt af þessum sjómannastofum er lítið annað en nafnið tómt, enda varla við öðru að búast, þar sem fjárveitingar hins opinbera til þessara stofnana eru jafnóverulegar og raun ber vitni, og þau samtök, sem fyrir þessu standa, eru fjárvana og geta þar af leiðandi ekki rekið þessar stofnanir sem skyldi. Í sjávarþorpum eins og Grindavík, Sandgerði, Keflavík og Hafnarfirði eru engar sjómannalesstofur eða sjómannaheimili. Frá þessum útgerðarbæjum er gerður út mikill fjöldi fiskiskipa. Allar þessar verstöðvar, að Hafnarfirði máske undanteknum, hafa það sameiginlegt, að útgerðarmenn og hraðfrystihúsaeigendur verða að ráða til sín mikinn fjölda aðkomufólks, bæði sjómenn og landverkafólk. Sama gildir og ekki síður um Vestmannaeyjar. Ef ekki fengist aðkomufólk til þessara stórútgerðarstaða til að vinna að framleiðslunni til lands og sjávar yfir vetrarvertíðina og ekki fengjust aðkomumenn á bátana, væri beinn voði fyrir dyrum. Skip og bátar mundu hreinlega vera bundin við bryggjurnar eða þau mundu grotna niður í skipanaustum.

Það er sem sé þannig, að það er engan veginn nægilegt að kaupa skip erlendis frá eða láta smíða innanlands og byggja vinnslustöðvar. Á skipin þarf sjómenn, og á vinnslustöðvarnar þarf verkafólk til að vinna úr þeim afla, sem á land berst. Þrátt fyrir þessar augljósu staðreyndir virðist svo sem útvegamönnum og öðrum ráðamönnum þessara staða hafi sézt yfir það, að nauðsynlegt sé að koma á fót viðunandi heimili fyrir sjómenn og landverkafólk, þar sem það í frístundum sínum gæti átt samastað, skrifað heim til vina og vandamanna, átt ánægjustund með félögum sínum, notið ódýrra veitinga og fleira þess háttar. Slík stofnun mundi alveg tvímælalaust forða mörgum frá því að lenda í miður æskilegum félagsakap.

Snemma á yfirstandandi Alþingi flutti hv. 6. þm. Sunnl. frv. til l. um breyt. á l. um hafnargerðir og lendingarbætur. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Til kostnaðar við hafnargerðir og lendingarbætur teljast hafnargarðar, bryggjur, dýpkanir, dráttarbrautir, þurrkvíar, kranar, innsiglingarmerki, hafnsögubátar, sjómannastofur og enn fremur verbúðir í viðleguhöfnum.“

Svo einkennilegt sem það kann að virðast, hefur sú nefnd, sem fékk þetta frv. til meðferðar, ekki skilað nál. enn sem komið er. í þessu frv. er gert ráð fyrir, að sjómannastofur og bygging verbúða í viðleguhöfnum falli undir lögin um hafnargerðir og lendingarbætur, í grg., sem frv. fylgir, er á það bent, að það hafi dregizt mjög úr hömlu, að gerðar væru af opinberri hálfu ráðstafanir til þess, að sjómenn á skipum fengju sambærilega bót miðað við aðra aðila á sinni aðstöðu í höfnum, þar sem þeir dveljast fjarri heimilum sínum. Þá er og á það bent, að ef hafnaryfirvöld á hverjum atað ættu það vist, að þau fengju þann kostnað upp borinn að 2/3 hlutum úr ríkissjóði, sem lagður væri í það að koma upp góðum nútíma vistarverum fyrir aðkomusjómenn, mætti líklegt teljast, að því yrði betri gaumur gefinn en nú er að gera heimillalausum sjómönnum í fiskihöfnum landsins lífið bærilegra en nú er. Þá var og á það bent, að flest benti til þess, að bætt aðbúð og aðstoð við uppbyggingu tómstundaiðju og skemmtana, en upp á það yrði nútíma sjómannastofa að bjóða, mundi binda enda á vöxt lögreglukostnaðar viðkomandi staða.

Það, sem er sagt um aðbúnað í höfnum inni í þessu frv. og grg., er í alla staði rétt og mikil þörf á því, að þar verði ráðin bót á. En það er þá ekki síður nauðsynlegt, að öll aðstaða og aðbúnaður landverkafólksins í kaupstöðunum verði stórlega bættur frá því sem nú er.

Flestum fiskimanna- og farmannabæjum erlendis er það talið sjálfsagt mál, að til séu á þeim stöðum sjómanna- og gestaheimili. Flest slík heimili eru að mínum dómi, það lítið ég hef kynnt mér það, til sérstakrar fyrirmyndar um allan rekstur. Aðbúnaður og fyrirgreiðsla er seld á vægu verði. Þessar stofnanir eru reknar ýmist af sjómannasamtökum viðkomandi staða, líknarstofnunum og þar með ríflegum styrk frá ríki og bæ eða af því opinbera.. Einu aðilarnir hérlendis, sem sýnt hafa virðingarverðan áhuga á því að koma upp sjómanna- og gestaheimilum, eru stúkan Framsókn á Siglufirði, sem rekur fyrirmyndar sjómanna- og gestaheimili, og Hjálpræðisherinn. Slíka starfsemi ber alveg tvímælalaust að styrkja meir en gert hefur verið, auk þess sem vinna ber að því, að komið verði á fót stofnunum í sem flestum verstöðvum með aðstoð og fyrirgreiðslu hins opinbera.

Þetta dæmi, sem ég hef hér nefnt um sjómannastofur og gestaheimili, er mjög táknrænt fyrir það ástand, sem enn þá er ríkjandi og ráðandi í flestu, sem viðkemur aðbúnaði þess fólks, sem sækja verður atvinnu sína til staða fjarri heimilum sínum ár hvert. Það er óvefengjanleg staðreynd, að það landverkafólk og þeir sjómenn, sem árlega taka sig upp frá heimilum sínum og fara til fjarlægra staða til að vinna við framleiðslustörf til lands og sjávar, vinna þjóðfélaginu ómetanlegt gagn, sem ber ekki að vanmeta. Af þeim sökum m.a. ber hinu opinbera að greiða götu þess fólks, eftir því sem fært er, og stuðla að því með sérstökum ráðstöfunum, að allur aðbúnaður og önnur fyrirgreiðsla verði stórlega bætt frá því, sem nú er.

Því verður ekki á móti mælt, að það er hin mesta nauðsyn, að þau mál, sem ég hef hér rætt um, verði tekin til endurskoðunar. Í þáltill. okkar er lagt til, að sérstakri nefnd, kosinni af Alþingi, verði falin rannsókn á þessum mátum og að þeirri rannsókn lokinni leggi n. fram rökstuddar till, til úrbóta, ef rannsóknir hennar sýna, að þeirra sé þörf. N. getur kvatt sér til aðstoðar fulltrúa frá Alþýðusambandi Íslands, frá verkalýðsfélögum viðkomandi staða, frá Vinnuveitendasambandi Íslands, frá Vinnumálasambandi samvinnufélaganna. Flm. þessarar þáltill. er það fullljóst, að svo framarlega sem jákvæður árangur á að fást af störfum væntanlegrar n., verður að nást samvinna við þá aðila, sem þessi mál varða. Hér er um að ræða stórmál, sem varða ekki aðeins verkafólk til lands og sjávar, heldur þjóðfélagið í heild.

Til áréttingar því, sem ég hef áður sagt, vil ég alveg sérstaklega undirstrika eftirfarandi atriði, sem ég tel mest aðkallandi í þessum málum. Það er, að allt öryggi á vinnustað verði aukið og endurbætt og að lögum og reglum þar um verði framfylgt til hins ýtrasta og ný ákvæði sett, ef þess yrði talin þörf. Komið verði á auknu eftirliti með ferðum manna að næturlagi í höfnum inni og allar tiltækilegar ráðstafanir gerðar til þess að koma í veg fyrir hin óhugnanlegu slys, sem átt hafa sér stað í sambandi við ferðir manna um borð í skipin. Að sjálfsögðu ber að hafa þarna fullt samráð við Slysavarnafélag Íslands, þar sem þetta mál fellur undir þess verksvið. Þjálfun í meðferð stærri og smærri vinnuvéla verði aukin og þess sérstaklega gætt, að unglingar séu ekki látnir stjórna slíkum tækjum, en á því hefur allmikið borið í meðferð landbúnaðarvéla. Aðbúnaður verkafólks á vinnustöðum verði tekinn til gagngerðrar endurskoðunar og þá alveg sérstaklega aftur aðbúnaður aðkomuverkafólks í hinum ýmsu verstöðvum víðs vegar um land og lagðar fram till. til úrbóta. Við flm. væntum þess, að þáltill. okkar verði vel tekið og hún hljóti endanlega afgreiðslu á þessu þingi.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til síðari umr. og fjvn.