06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (3210)

190. mál, sjúkrahús

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil mjög mælast til þess, að hæstv. forseti geri tilraun til þess að halda hv. þm. við störf, til þess að hægt sé að afgr. mál og koma þeim áleiðis, eftir því sem unnt er. Nú er liðið á þingstörfin. Hér eru hv. þm. kallaðir til fundar á laugardegi, sem er alveg óvenjulegt, og er ég síður en svo að gagnrýna það. En hitt ber að gagnrýna, að það skuli ekki gerðar ýtarlegar tilraunir til þess að fá þm. til að gegna skyldu sinni og sitja á fundum til atkvgr., heldur en að fresta hvað eftir annað atkvgr. til næsta fundar, sem stundum hefur dregizt í heila viku.

Ég sé ekki annað en það verði að taka hér upp nýja siði, annaðhvort að flytja fundarsalinn niður í kaffistofuna, þar sem menn sitja almennt, eða flytja kaffistofuna hér upp, svo að það sé hægt að halda fundina hér og greiða atkv. Ég er nú búinn að sitja hér síðan 1942 á þingi, og ég hef aldrei orðið var við slíka afgreiðslu, að það sé hvað eftir annað verið að fresta atkvgr., svo að dögum skiptir, bara af því að þm. gegna ekki skyldu sinni.

Ég vildi mælast til þess, að tekinn yrði upp sá háttur, að ef þm. neita að koma hér til skyldustarfa, þá sé beitt ákvæðum þingskapa, að taka æ þeim launin, því að þetta er orðið þinginu sjálfu til háborins vansa, hvernig hér eru afgreidd mál. Vil ég vænta þess, að hæstv. forseti geri tilraun til þess að hópa þingmönnum hér saman til að afgreiða þessi mál og ætla nýjan fund í dag til þess að afgreiða þetta mál, sem þegar hefur verið tekið út af dagskrá.