19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (324)

1. mál, fjárlög 1963

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt samflokksmönnum mínum úr mínu kjördæmi að flytja brtt., sem miða að því að fá aukin framlög til verklegra framkvæmda í kjördæmi okkar, og þegar hefur hv. 1. þm. kjördæmisins farið nokkrum orðum um sumar þessara tillagna, og ég mun nú ræða nokkrar hinna, sem við flytjum sameiginlega, en þó í örstuttu máli.

Sérstaklega vil ég minna á till. okkar um fjárveitingu til eins vegar, sem ekki finnst nú á fjárlagafrv., en þar á ég við svonefndan Ólafsfjarðarveg eystri, sem liggur frá Ólafsfjarðarkaupstað eftir austursíðu fjarðarins eða dalsins fram sveitina og er ætlað að koma á hringakstri í sveitinni og auðvelda flutninga fyrir þá bændur, sem búa austan megin í Ólafsfjarðarsveit. Yrði það mikil lyftistöng fyrir sveitina, ef hægt yrði að ljúka þessum vegi, og raunar gerbreytir aðstöðunni til flutninga jafnt á sumri sem vetri, og þyrfti nauðsynlega að veita fé í þennan veg og ljúka honum sem fyrst.

Þá vil ég nefna sérstaklega till. okkar um, að tekin verði upp í fjárlög fjárveiting til skólastjóraíbúðar í Árskógsskóla, en eins og nú er er þar mjög ófullkomin íbúð og því erfitt að fá skólastjóra þangað, þó að það hafi að vísu tekizt nú í vetur og þó á síðustu stundu. En segja má, að sífellt sé sú hætta yfirvofandi, að ekki fáist þangað skólastjóri til frambúðar, meðan íbúðin er jafnóviðunandi fyrir fjölskyldumann og nú er. Skólinn hefur beðið eftir þessari nauðsynlegu úrbót í full 5 ár, og sýnist því alls ekki fram á mikið farið, þótt nú verði farið að hefjast handa um framkvæmdir þar.

Þá gerum við till. um það, að veitt verði fé til viðbótarhúsnæðis við barnaskólann á Húsabakka í Svarfaðardal, enda mjög brýn þörf vegna vaxandi nemendafjölda og einnig vegna þess einstæða framtaks Svarfdælinga, vil ég segja, að stefna að sem víðtækastri framhaldskennslu í sveitinni. Kemst skólinn ekki af með minna en tvo fasta kennara, og það, sem brýnast er nú í skólamálum Svarfdælinga, er einmitt að koma upp til viðbótar kennaraíbúð. Skólinn hefur verið sérlega heppinn með skólastjóra og kennara, en óvíst er, hvort hægt verður að halda þeim báðum, ef ekki raknar úr þeim vandræðum, sem eru með kennara og skólastjóraíbúð. Svarfaðardalur er fjölmenn sveit og mikið af uppvaxandi börnum þar. Um nokkurra ára skeið hefur verið leitazt við að hafa fullkomna framhaldskennslu í skóla Svarfdælinga, og a.m.k. einn nemandi hefur lært undir landspróf miðskóla, og fleiri mundu á eftir fara, ef hægt væri að búa til frambúðar við það ágæta kennaralið, sem nú er þar. Slíka viðleitni ætti ríkisvaldið að styðja, ef þess er nokkur kostur.

Þá vil ég aðeins minnast á till. um hækkun á framlagi til náttúrugripasafnsins á Akureyrí og einnig til Lúðrasveitar Akureyrar. Hér er ekki um neinar stórvægilegar upphæðir að ræða, en fullkomlega sanngjarnar.

Þá vil ég leyfa mér að fara nokkrum orðum um tili., sem ég flyt um framlag til rannsókna á sögu íslenzkrar samvinnustarfsemi, að veittar verði 10 þús. kr. gegn jafnmiklu framlagi annars staðar að til þess að rannsaka sögu samvinnuhreyfingarinnar á Íslandi, hugsað sem fyrsta framlag. Við Íslendingar státum af því að vera söguþjóð og getum það að ýmsu leyti. Hinu er þó ekki að leyna, að við erum eftirbátar margra þjóða í sagnfræðirannsóknum, og veldur þar ef til vill mestu, að fjárveitingavaldið er og hefur raunar alltaf verið heldur nánasarlegt í garð þessarar vísindagreinar. Fjöldi manna í landinu hefur áhuga, menntun og hæfileika til sögurannsókna. En kraftar þessara manna nýtast ekki, því að það er enginn svo efnum búinn, að hann geti að nokkru ráði helgað sig svo yfirgripsmiklu og vandasömu verki án þess að fá nokkurn styrk til þess. Stærri þjóðir leysa þetta vandamál á ýmsa vegu, þó einkum þannig, að öflugir gjafasjóðir og styrktarstofnanir veita fé til slíkra rannsókna. Við höfum að vísu okkar vísindasjóð, en almennt höfum við Íslendingar ekki önnur ráð en að leita á náðir ríkissjóðs í svona tilfellum. Þetta vita allir og ekki sízt alþingismenn. Því er það skylda okkar, sem hér sitjum og getum ef til vill nokkru ráðið, að hafa vakandi auga með þörfum æðri menntunar og vísindarannsókna í landinu. Við eigum ekki alltaf að láta sækja á okkur með alla skapaða hluti, heldur eigum við líka að hafa frumkvæði, ekki sízt í málum þessum, þar sem fé skortir, en hvorki hæfa né starfsfúsa menn. Það eru óþrjótandi verkefni, sem biða óleyst í menningar- og atvinnusögu Íslendinga. Við vanrækjum ekki sízt samtímasöguna, en hjá öllum menningarþjóðum er hún talin mjög mikilsvert rannsóknarsvið.

Ég geri hér till. um, að ríkið leggi fram 10 þús. kr. til rannsókna á sögu íslenzkrar samvinnustarfsemi. Samvinnufélögin hafa starfað í landinu í 80 ár, og þau hafa verið snar þáttur í atvinnu- og verzlunarmálum þjóðarinnar nær allan þann tíma. Rannsókn á sögu hreyfingarinnar er mikið og verðugt verkefni fyrir sagnfræðinga, og ég held, að það væri sómi fyrir Alþ. að veita fé til þeirrar starfsemi. Fullvíst má telja, að samvinnufélögin mundu leggja fram fé til slíkra rannsókna á móti framlagi ríkissjóðs og án efa greiða fyrir rannsóknarstarfseminni eftir föngum.

Að sjálfsögðu hafa samvinnufélögin unnið nokkuð að því að kynna landsmönnum sögu samvinnuhreyfingarinnar hér á landi, en bæði er það, að bækur þessar eru farnar að eldast, og eins hitt, að þær eru mjög stuttar og aðeins yfirlitsbækur, þar sem greinir frá sögunni í afar stórum dráttum. Eins er það æskilegt, að saga svo áhrifamikillar og umdeildrar samtíðarhreyfingar sé ekki einvörðungu rannsökuð og rakin af eigin baráttumönnum hennar, heldur sé verkið falið viðurkenndum sagnfræðingum, sem enginn getur vænt um hlutdrægni. Ég er ekki með þessu að segja, að ekki komi fleiri atriði til greina, sem æskilegt sé að rannsaka á vísindalegan hátt í samtímasögu okkar. Hér er aðeins um að ræða eitt atriði af mörgum. Ég mundi fagna því, ef Alþ. léti meira af hendi rakna til sögurannsókna, ekki sízt til rannsókna á samtíma okkar.

Þá get ég að lokum getið hér einnar till., sem enn hefur ekki verið útbýtt, en sú till. er flutt af okkur framsóknarþm. úr Norðurlandskjördæmi eystra, og hún er sú, að fjárveitingin til þjóðminjasafns vegna byggðasafnanna verði hækkuð frá því, sem nú er í frv., úr 100 þús. kr. í 250 þús. kr. Það er full ástæða til að hækka þennan lið. Hann hefur staðið í þessu sama nú um margra ára skeið. Hins vegar eru fjölmörg byggðarlög, sem eru með framkvæmdir í byggðasafnsmálum, og sum hafa komið sér upp myndarlegu húsnæði, t.d. á Akureyri, og kostar sú bygging í kringum 1 millj., en samkv. þeim lögum, sem gilda um byggðasöfn, er ákveðið hlutfall, sem ríkissjóður á að taka þátt í af kostnaði. En eins og nú horfir um fjárveitingar, er ógerningur, að ríkið geti staðið við þá skuldbindingu, og ekki sízt þar sem nú eru mjög mörg söfn, ekki aðeins Akureyrarsafnið, heldur fleiri söfn, sem þurfa á svipaðri fyrirgreiðslu að halda. Það væri því hin mesta nauðsyn að hækka þessa fjárveitingu, þótt ekki væri nema um það, sem við leggjum nú til, þ.e. 150 þús. kr. Við 2. umr. fjárlaga var till, til umr. og atkvgr., sem fór fram á allmiklu hærra framlag, en hún var felld. Ég geri mér vonir um, að þessi till., sem fjallar um helmingi lægra framlag, verði samþykkt.