27.03.1963
Sameinað þing: 42. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3247)

203. mál, unglingafræðsla utan kaupstaða

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. viðvíkjandi reglum um unglingafræðslu utan kaupstaða. Þáltill. þessi er í 3 liðum:

a) Að aðstoð vegna ólögbundinnar unglingafræðslu utan kaupstaða verði aukin, þannig að kennarar við hana njóti svipaðra launakjara og við hliðstæða skóla í kaupstöðum, enda sé lágmarkstala nemenda ákveðin.

b) Ákveðið verði um skiptingu á kostnaði við milliferðir, húsnæði o.fl. milli nemenda, sveitarfélaga og ríkissjóðs.

c) Reglur verði settar um námsgreinar og próf, sem tryggi það, að unglingafræðslan í heimangönguskólum sé hliðstæð og í tveimur fyrri bekkjum gagnfræða- og miðskóla.

Ég skal taka það fram í upphafi, að þáltill. þessi er flutt samkv. tilmælum heiman úr okkar héruðum. Það hagar þannig til þar, að okkur vantar heimavistarskóla fyrir unglinga í Skagafjarðar- og Austur-Húnavatnssýslu, og það hefur borið mjög mikið á því, að unglingum hefur gengið illa að fá skólavist við slíka skóla, af því að þeir eru þegar yfirfullir. Ég skal enn fremur taka það fram í upphafi, að ég hef rætt þetta mál við fræðslumálastjóra og hann hefur gefið mér ýmsar upplýsingar, og þáltill. þessi er flutt í samráði við hann.

Aðallega eru þrjár ástæður, sem valda því, að við flytjum þessa þáltill.

Í fyrsta lagi, að heimavistarskólar, þar sem unglingar í sveitum og minni kauptúnum geta stundað nám, eru of fáir, þannig að árlega þarf að neita mörgum um skólavist. Fræðslukerfi okkar er að mestu byggt á lögum frá 1946. Samkv. þeim er unglingum í kaupstöðum skylt að stunda nám í tvo vetur að loknu barnaprófi. Kröfur til menntunar hafa aukizt mjög. Aukin tækni krefst meiri sérmenntunar, og batnandi efnahagur gerir aðstandendum kleift að styrkja unglinga meira til menntunar en áður var. Gagnfræðaskólar og miðskólar með landsprófi hafa verið stofnaðir í kaupstöðum og stærri kauptúnum. Þar er því námsaðstaða unglinga sæmilega góð. Í sveitum og minni kauptúnum er aðstaða unglinga til náms önnur og lakari. Héraðsskótum í sveitum hefur raunar verið breytt þannig, að unglingar geta lokið þar gagnfræðaprófi eða landsprófi. En slíkir skólar eru of fáir til þess, að allir unglingar dreifbýlisins geti notið þar skólavistar. Arlega þarf að neita mörgum um skólavist. Nokkur sýslufélög hafa enga heimavistarskóla fyrir unglinga. Þar er námsaðstaðan lökust. Allir hljóta að viðurkenna, að fræðsluþörf unglinga er jöfn, hvort sem þeir eiga heima í dreifbýlí eða kaupstað. Þjóðfélaginu er skylt að gera aðstöðu unglinga til fræðslu og þroska sem jafnasta, eftir því sem við verður komið. Núv. ástand þarf úrbóta. Tvær leiðir eru til, og sennilega er bezt að fara báðar að einhverju leyti. Það er að stofna fleiri heimavistarskóla í dreifbýlinu og efla heimangönguskóla S sveitum meira en gert hefur verið. Reglugerð um heimangönguskóla utan kaupstaða er frá 29. ágúst 1939 og er samin og sett samkv. 20. gr. l. nr. 48 frá 19. maí 1930. Það gefur auga leið, að slík reglugerð er miðuð við aðrar aðstæður og aðra tíma en nú er, jafnvel vatasamt, hvort hún styðst raunverulega við nokkur lög. Heimangönguskólarnir þurfa að vera miðaðir við það, að unglingar njóti þar sömu menntunar og í tveim fyrri bekkjum gagnfræðaskóla. Yrði þá um eins vetrar nám að ræða hjá unglingum, sem hefðu lokið fullnaðarprófi, en tveggja vetra hjá þeim, sem aðeins hefðu lokið barnaskólaprófi. Kveða þarf í reglugerð um réttindi og skyldur slíkra skóla, samræma laun kennara og ákveða um skiptingu kostnaðar við milliferðir, húsnæði, kennslu o.fl. milli ríkissjóðs, sveitarfélaga og nemenda. Árið 1961–1982 hefur ríkissjóður styrkt heimangönguskóla á 12 stöðum, 95 nemendur nutu þar kennslu, og ríkissjóður greiddi 165 þús. kr. til þessara skóla, eða 1740 kr. fyrir hvern nemanda. Héraðsskólar með 100 nemendum kosta ríkið um 1 millj. á ári eða 10000 kr. á hvern nemanda. Með tilliti til væntanlegra launahækkana verður sá kostnaður ca. 12 þús. kr. á næsta ári fyrir hvern nemanda. Eigi mun fjarri lagi, að námskostnaður unglinga í slíkum skólum sé 15000 kr. yfir veturinn. Heildarkostnaður hjá ríki og nemanda verður því ca. 25–27 þús. kr. fyrir hvern einasta nemenda. Í heimangönguskólum er námskostnaður annar ag minni. Það kemur betur við fyrir foreldra, ef börn þeirra geta haft fæði og notið húsnæðis í heimahúsum, en að greiða fyrir það annars staðar. Víða eru efni takmörkuð, a.m.k. þangað til unglingar geta farið að vinna sjálfir fyrir námskostnaði.

Mest er þörfin fyrir heimangönguskóla í sýslum, þar sem ekki eru héraðsskólar. Skilyrði til þess að starfrækja þá eru mjög misjöfn. Strjálbýli má eigi vera of mikið, samgöngur þurfa að vera góðar og húsakostur viðunanlegur. Víða eru þessi skilyrði fyrir hendi, ef þjóðfélagið léti sinn hlut eigi eftir liggja. Samgöngur eru víða góðar, og ökutækjum hefur fjölgað mjög í seinni tíð. Allvíða eru félagsheimili, sem hægt er að kenna í, ef ekki er kostur á öðru húsnæði. Veturinn 1981–1962 voru 28 nemendur í heimangönguskóla á Staðarstað og á Reykhólum á Barðaströnd voru 17. Ríkissjóður greiddi 88 þús. kr. til þessara skóla. Ef þessir 43 nemendur hefðu dvalizt á héraðsskóla, mundi það hafa kostað ríkið fimm sinnum meira. Þessi mismunur er bæði ósanngjarn og óviturlegur. Það er fullt verk fyrir kennara að kenna 20 nemendum.

Eðlilega er ekki hægt að fá menn til að kenna við heimangönguskóla, nema þeir hafi svipuð kjör og stéttarbræður þeirra hafa við héraðsskólana. Allvíða munu prestar hafa kennt við slíka skóla og sætt sig við lág kennslulaun, af því að þeir höfðu aðrar tekjur. Vera má, að ekki sé óeðlilegt að taka tillit til slíks. Engin von er þó til þess, að prestar leggi á sig mikla aukavinnu án þess að fá fyrir það viðunandi greiðslu. Heimangönguskólar verða og eigi efldir að mun. ef eingöngu á að treysta á kennslu presta, því að tiltölulega fáir prestar hafa vilja og ástæður til að annast unglingakennslu. Eðlilegast væri, að sveitarfélög, eitt eða fleiri, sæju að mestu um heimangönguskóla unglinga, þar sem það hentar, en ríkissjóður styrkti það hæfilega fjárhagslega. Jafnvel í sýslum, þar sem héraðsskólar eru, gætu heimangönguskólar átt rétt á sér. Þeir drægju úr aðsókn að gagnfræða- og miðskólum, þannig að ekki þyrfti að leggja jafnmikla áherzlu á að fjölga þeim, og spöruðu þannig ríkissjóði og foreldrum útgjöld. Flestir mundu írekar kjósa að þurfa eigi að senda 13–15 ára unglinga í fjarlæg héruð til ókunnugs fólks, ef kostur er að láta þau læra í heimasveit.

Ég treysti því, að þm. og ríkisstj. sýni þessu máli skilning og velvilja. Víst er, að aðstaða unglinga til náms í sumum héruðum og kauptúnum er slæm og raunar óviðunandi. Vafalaust eru skoðanir skiptar um, hvaða leiðir eigi að fara til úrbóta. Við, sem flytjum þessa þáltill., álítum, að nauðsynlegt og hagkvæmt sé að bæta kjör heimangönguskóla í sveitum og minni kauptúnum. Til þess þarf að semja nýjar reglur af hæfum mönnum, sem vel hafa vil á þessum málum.

Það er ekki úr vegi að minnast þess, að meðan skólar voru fáir hér á landi og fátækt fólksins mikil, voru það einmitt prestarnir í sveitunum, sem í raun og veru vernduðu alþýðumenninguna, og það hefur aldrei verið talað um það eins og vert er, hversu mikinn þátt þessir sveitaprestar hafa átt í endurreisn landsins í raun og veru, því að þeir kenndu börnunum kristinfræði og að reikna og skrifa. Svo var það, ef þeir fundu einhverjar óvenjulegar gáfur hjá unglingunum, þá fóru þeir til foreldranna og hvöttu þá til þess að láta þessa unglinga læra, og ég hygg, að við eigum einmitt þessum prestum mikið að þakka um ýmsa af okkar afburðamönnum, sem bezt og mest börðust fyrir auknum réttindum þessa þjóðfélags og urðu forgöngumenn á ýmsum sviðum. Við þurfum ekki nema minnast t.d. á Guðmund heitinn Magnússon, lækni. Það var presturinn í hans sókn, sem fór til foreldra hans og benti þeim á að láta hann læra, og hann varð, eins og við vitum, frábær læknir, og þannig mun þetta í raun og veru hafa verið með flesta af okkar framámönnum á 19. öld. Jón Sigurðsson lærði hjá föður sínum o.s.frv. Enn þá varir þetta við, að þeir prestar, sem eru hneigðir fyrir kennslu og hafa mikla starfsorku, eru að kenna unglingum í byggðunum, og það hefur sérstaklega borið á þessu í þeim sýslum, þar sem heimavistarskóla vantar fyrir unglinga. Ég nefndi tvö dæmi eins og Staðarstað og Reykhóla á Barðaströnd. Prestarnir þar hafa kennt fyrir mjög litla þóknun, vægast sagt, og þetta er af því, að þeir hafa áhuga á og ánægju af þessu starfi. En ef við ætlum að efla þessa heimangönguskóla, sem geta bæði sparað peninga fyrir ríkið og aðstandendur nemendanna, þá verður að gera betur við þessa skóla en gert hefur verið. Ég hef rætt þetta við fræðslumálastjóra og hann hefur fullan skilning á þessum málum, en fjárráð þau, sem hann hefur haft úr að spila, eru mjög takmörkuð, og sagði hann mér, að hámarkið hefði mátt vera. 200 þús. kr. En reglugerðin um þetta er ófullkomin og úrelt, eins og ég hef þegar tekið fram, og það þarf að semja ýtarlega reglugerð um þetta allt saman. Ég hygg, að í mörgum byggðum sé fólki alls ekki kunnugt um, að það geti notið neinnar fyrirgreiðslu viðvíkjandi kennslu á unglingum í heimangönguskólum. Þess vegna þarf að kynna fólki þessi atriði og semja nýjar, skynsamlegar reglur um þetta, sem vafalaust verður gert af þeim mönnum, sem kunnugastir eru og bezt hafa vit á þessu. En ég hef vakið máls á þessu, viljað hreyfa því vegna umkvörtunar úr okkar eigin kjördæmi.

Ég hygg, að meðflm. hefði talað hér, ef hann væri hér við, en hann er því miður lasinn nú og gat ekki sótt þennan þingfund.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að þessari þáltill. verði vísað til allshn.