06.04.1963
Sameinað þing: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

221. mál, landfundir Íslendinga í Vesturheimi

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Till. þessi fjallar um það, að Alþingi skori á ríkisstj. að leita samvinnu við ríkisstjórnir Kanada og Bandaríkjanna um rannsóknir varðandi landfundi Íslendinga í Vesturheimi á 10. og 11. öld. Eins og fram kemur í grg. þeirri, sem fylgir till., hefur að undanförnu verið mjög rætt í erlendum blöðum um landfundi Íslendinga í Vesturheimi á 10. og 11, öld og þó einkum í tilefni af rannsóknum einstakra áhugamanna á því sviði. Hér er að sjálfsögðu um mál að ræða, sem er eðlilegt að íslendingar láti sig miklu varða, og það er eðlilegt, að þar rannsóknir, sem fram fara í þessum efnum, séu að verulegu leyti í höndum íslenzkra fræðimanna eða þeir hafi kost á að fylgjast með þeim og það teljum við tillögumenn að væri bezt tryggt með því, að íslenzk stjórnarvöld taki að sér frumkvæði í þessum efnum í samvinnu við ríkisstj. þeirra landa, sem hér eiga hlut að máli, þ.e. ríkisstj. Kanada og Bandaríkjanna.

Till. samhljóða þessari var flutt á síðasta þingi, en afgreiðslu hennar þá frestað vegna sérstakra tilmæla menntmrh. Tilmæli hans voru byggð á því, að Íslendingar mundu taka þátt í væntanlegum leiðangri Helga Ingstads til Nýfundnalands og væri rétt að bíða átekta, unz séð yrði, hver niðurstaða fengist í því máli. Sá leiðangur var farinn á s.l. sumri, og hann virðist hafa upplýst, að norrænir menn hafi dvalizt eitthvað á Nýfundnalandi fyrr á öldum, en augljóst er þó, að þar getur ekki verið um Vínland að ræóa, heldur sé þess að leita sunnar en í Nýfundnalandi. Af framangreindum ástæðum er þessi till. flutt að nýju, enda má segja, að þær upplýsingar, sem hafa fengizt á s.l. sumri, eigi að verða aukin hvatning til frekari rannsókna og athugana á þessu máli.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að sinni að hafa fleiri orð um þetta, en leyfi mér að leggja til, að umr. verði frestað að loknum umr. nú og mátinu vísað til allshn.