19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (327)

1. mál, fjárlög 1963

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal í tilefni af þessari brtt. gefa hv. Alþingi stuttorðar upplýsingar um byggingarmál menntaskólans í Reykjavík, en skal áður láta þess getið, að þótt ég efist ekki um, að till. hv. þm., sem hann lýsti hér áðan, sé af góðum hug gerð, þá tei ég hana óþarfa, því að það er leitað í brtt. fjvn. lánsheimildar til að byggja menntaskóla. Tekur hún til bæði gamla menntaskólans og nýs menntaskóla, enda þannig hugsuð. Það er áreiðanlega skilningur fjvn., og það er skilningur okkar í ríkisstj., að með samþykkt þessarar till. hafi ríkisstj. heimild til þess að taka lán til þeirrar byggingar á gömlu skólalóðinni, sem fyrirhuguð er, og til byggingar þess nýja menntaskóla, sem jafnframt er fyrirhugaður í Hamrahlíð.

Að þessari skýringu gefinni vænti ég, að hv. þm. sjái sér fært að taka þessa till. aftur. En að gefnu þessu tilefni skal ég gefa mjög stuttorða lýsingu á því, sem ríkisstj. hefur fyrirhugað í málefnum menntaskólafræðslu hér í Reykjavík.

Í menntaskólanum, sem nú starfar hér við Lækjargötu, eru í vetur 37 bekkjardeildir og 850 nemendur. 20 bekkjardeildanna starfa fyrir hádegi, en 17 eftir hádegi. Skólinn starfar í 13 stofum í gamla menntaskólahúsinu, 2 stofum í svonefndu Fjósi og 5 stofum í Þrúðvangi við Laufásveg.

Málefni menntaskólans hafa verið til rækilegrar athugunar hjá ríkisstj. nú undanfarin ár. Fyrir rúmu ári var það ætlun ríkisstj. að leysa húsnæðismál menntaskólafræðslunnar hér til nokkurra ára á þann hátt að byggja hús á svonefndri Olíuportslóð, þess konar hús, sem nota mætti álíka lengi og gamla húsið yrði talið hæft til kennslu. Í því skyni var lóð keypt, Olíuportslóðin svonefnda. Þegar undirbúningi var fulllokið að þessum framkvæmdum, kom í ljós, að þær voru af sumum aðilum ekki taldar samrýmast skipulagsreglum, og þess vegna var horfið frá þessum framkvæmdum, sem áttu að hefjast á s.l. vori og hefði verið hægt að ljúka nú á s.l. hausti. Það kom hins vegar ekki að sök fyrir menntaskólafræðsluna í bænum, að af þessum framkvæmdum varð ekki, því að það tókst að fá leigt hús í allra næsta nágrenni við menntaskólann, húsið Þrúðvang við Laufásveg, og það nýja húsnæði fullnægði algerlega þeirri þörf, sem menntaskólinn hafði fyrir viðbótarhúsnæði nú á þessum vetri.

En vegna þess að þær framkvæmdir, sem fyrirhugaðar höfðu verið á Olíuportslóðinni svonefndu, voru ekki taldar samrýmast framtíðarskipulagi borgaryfirvalda Reykjavíkur á því svæði, sem um er að ræða, svæðinu milli Lækjargötu og Þingholtsstrætis annars vegar og Bókhlöðustígs og Amtmannsstígs hins vegar, var hafizt handa um endurskoðun á hinum fyrirhuguðu byggingarframkvæmdum, og er það, sem nú er fyrirhugað, að kaupa til viðbótar Olíuportslóðinni, tvær lóðir við Bókhlöðustíg, en stefna jafnframt að því, að menntaskólinn fái í framtíðinni til umráða allt svæðið milli Bókhlöðustígs og Amtmannsstígs annars vegar og hins vegar milli Lækjargötu og linu, sem takmarkast af því, að ein húsaröð verði vestan eða neðan við Þingholtsstræti, þ.e. að menntaskólinn fái í framtíðinni til umráða fyrir sína starfsemi allan reitinn milli Bókhlöðustígs og Amtmannsstígs og Lækjargötu og upp að Þingholtsstræti, þó þannig, að neðan við Þingholtsstræti standi ein húsaröð. Byggingin, sem fyrirhugað er að reisa á næstunni, þ.e. næsta sumar, er einnar hæðar skólabygging, sem í verði 6 sérkennslustofur, sem jafnframt megi flestar eða að einni undantekinni jafnframt nota sem almennar kennslustofur. Það, sem menntaskólann í Reykjavík hefur fyrst og fremst vantað, er aðstaða til sérkennslu. Í þessari byggingu eiga að verða tvær eðlis- og efnafræðikennslustofur, þ.e. auditorium og laboratorium, tvær kennslustofur fyrir náttúrufræði og tvö húmanistísk laboratorium, þ.e.a.s. kennslu- og vinnustofur fyrir tungumál, sögu og bókasafn.

Þessar framkvæmdir hefur verið rætt um að ráðast í og ljúka þeim á næsta sumri, og það er hægt. Jafnframt er ráðgert að byggja ofar í lóðinni leikfimishús, sem byggt yrði þannig, að það gæti jafnframt verið samkomusalur. Þessar framkvæmdir hefur verið áætlað að kosti samtals um 22 millj. kr., og er þá innifalið verðmæti þeirrar lóðar, Olíuportslóðarinnar, sem þegar hefur verið keypt fyrir 21/2 millj. kr. Er ráðgert, að kennslustofubyggingin verði byggð á næsta sumri, en aftur byggingu samkomuhúss og leikfimishúss frestað til hins sumarsins og gamla leikfimishúsið notað um eins árs skeið til viðbótar.

Með þessu móti, þegar þessi bygging er komin upp, er húsnæði í Þrúðvangi óþarft og hægt að sjá fyrir kennslu þeim fjölda menntaskólanemenda, sem nauðsynlegt er að hafa í menntaskóla hér í Reykjavík næstu 2–3–4 árin. En að þeim tíma liðnum hefur ríkisstj. gert sér alveg ljóst, að þörf muni vera á meira húsnæði fyrir manntaskólakennslu í Reykjavík, og þess vegna hefur ríkisstj. þegar ákveðið að hefja byggingu nýs menntaskóla í Hamrahlíð, og er nú þegar í gangi undirbúningur undir þá byggingu. Gert er ráð fyrir því, að í henni verði 20 almennar kennslustofur, þ.e. rúm fyrir 500 menntaskólanemendur miðað við einsetningu, 1000 nemendur miðað við tvísetningu, og jafnframt gert ráð fyrir því, að í sambandi við þetta nýja menntaskólahús verði leikfimishús, sem sömuleiðis mætti nota sem samkomusal, Í þeim frumdrögum, sem til eru um byggingu þessa húss, er gert ráð fyrir, að kostnaðarverð þess muni verða milli 40 og 50 millj. kr., líklega þó nær 50 millj. kr. Vonir standa til þess, að bygging þessa húss geti hafizt haustið 1964, og þá hafður sá hraði á byggingu, að ekki verði skortur á húsnæði fyrir þá, sem gera má ráð fyrir því að vilji stunda og rétt eiga á því samkv. einkunn að stunda menntaskólanám hér í Reykjavík.

Af þessu, sem ég hef sagt, vona ég, að teljast megi ljóst, að ríkisstj. hefur haft fullan skilning á því að bæta úr áratuga vanrækslu gagnvart menntaskólanum í Reykjavík, — bæta úr áratuga vanrækslu gagnvart þeim nemendum, sem þurfa, vilja og rétt eiga á því að stunda menntaskólanám hér í Reykjavík. Ríkisstj. hefur valið þá lausn á þessum vanda að ákveða annars vegar, að menntaskólakennslan skuli áfram fara fram á hinum fornhelga stað við Lækjargötu, með því móti að sjá hinum meira en 100 ára gamla menntaskóla í Reykjavík fyrir þess konar húsnæði, sem hann hefur sárast vanhagað um, þ.e. húsnæði fyrir sérkennslu sína, og þetta mun verða gert þegar næsta sumar. En jafnframt hefur ríkisstj. ákveðið að efna til byggingar annars menntaskóla í Reykjavík og mun freista þess að ljúka þeirri byggingu svo snemma, að ekki þurfi framar að leita bráðabirgðalausnar á húsnæðismálum menntaskólakennslunnar hér í Reykjavík, þannig að innan nokkurra ára munu verða starfandi tveir menntaskólar í höfuðborginni, enda stærð hennar orðin slík og tala menntaskólanemenda orðin svo há, að það er réttlætanlegt. Þessi ákvörðun núv. ríkisstj. er að mínu viti sú langskynsamlegasta ákvörðun, sem hægt hefur verið að taka í þessum málum, og mörgum vandræðum hefði verið firrt, ef slík ákvörðun hefði verið tekin þegar fyrir 15–20 árum, þegar málefni menntaskólakennslunnar í Reykjavík voru rædd sem mest, bæði hér á Alþingi og annars staðar. Þá strandaði málið á því, að einn flokkur manna vildi byggja upp hinn eina menntaskóla Reykjavíkur á hinum fornhelga stað í Lækjargötu, en annar flokkur manna vildi leggja menntaskólakennslu við Lækjargötu niður og byggja mjög stóran skóla annars staðar í bænum. Nú hefur ríkisstj. valið þann kost, sem ég tel tvímælalaust hyggilegastan og kennaralið menntaskólans nú er einhuga um að styðja með hinn ágæta rektor menntaskólans í fararbroddi, sem sagt taka þá stefnu, að áfram skuli vera menntaskólakennsla á gamla staðnum, en stærð skólans þar sniðinn sá stakkur, sem hið gamla hús setur menntaskólakennslu á þeim stað. Kjarni menntaskólans þar verður gamla húsið með sínum 13 stofum, en við það er aukið nauðsynlegum sérkennslustofum, sem ekki rúmast í gamla húsinu. En jafnframt verður byggður annar stór skóli, 500 manna skóli, annars staðar í bænum, í þeim bæjarhluta, sem er í öruggum vexti, þannig að innan nokkurra ára verður gamli menntaskólinn fyrir vesturhluta bæjarins og hinn nýi, sem rísa á í Hamrahlíð, fyrir austurhluta bæjarins.

Ég vona, að hv. þm. geti verið á sama máli og ríkisstj. um, að þetta sé skynsamlegasta lausnin í byggingarmálum menntaskólans og ekki verði aftur neins konar þess háttar ágreiningur, sem því miður tafði byggingarmál menntaskólans fyrir 15—20 árum.