19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (328)

1. mál, fjárlög 1963

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns taka það fram, að þær till., sem hér eru fluttar af fjvn. sem heild, eru fyrst og fremst till., sem meiri hl. fjvn. hefur gert, og gildir um þær allt hið sama og um þær till., sem þannig voru fram bornar við 2, umr., að við minnihlutamenn höfum látið það óátalið, að þær væru á einu blaði frá n. allri, en áskilið okkur rétt til þess að fylgja þeim till. ekki öllum, og gegnir hér sama máli um þær till., sem nú eru fram bornar af n. sem heild. Fyrir þessu höfum við gert grein í okkar nál., sem frammi lá við 2. umr.

Ég hef leyft mér nú við þessa 3. umr. að flytja 5 brtt. 3 þeirra eru till., sem ég einnig gerði fyrir 2. umr., en tók þá aftur í von um það, að þær fengju nokkra undirtekt við athugun á milli umr., en því miður hefur mér ekki orðið að þeirri ósk minni. Ég get verið stuttorður um þær.

Það er í fyrsta lagi till. um að hækka rekstrarstyrk til sjúkrahúsanna, þannig að hann verði greiddur með 50% álagi á það, sem lög ákveða að hann eigi að vera. Þessi till. er upp á 2.6 millj. kr.

Það er alkunna, að flest þau sjúkrahús eða öll þau sjúkrahús, sem rekin eru af hreppum, bæjum eða sýslum landsins, eru rekin með miklum rekstrarhalla, sem viðkomandi héruð verða sjálf að standa undir, mörg af miklum vanefnum, og eru illa haldin í sjúkrahúshaldinu að þessu leyti. Þessi rekstrarhalli er fyrst og fremst til kominn vegna þess, að ríkissjóði, sem rekur landsspítalann, hefur jafnan þótt hlýða að stilla daggjöldum þar svo í hóf, að þau hrökkva ekki fyrir kostnaði, en borga úr ríkissjóði verulegan halla á rekstri þeirrar stofnunar, en við daggjöldin á landsspítalanum miðast svo yfirleitt samningar þeir, sem sjúkrasamlög á einstökum stöðum gera við þau sjúkrahús, sem þar eru á staðnum, og þannig hefur ríkið í rauninni með því að hafa tiltölulega lág daggjöld á landsspítalanum, en borga þeim mun hærri fjárhæðir úr ríkissjóði í rekstrarhalla þeirri stofnun, orðið þess valdandi, að bæja m bera mjög skarðan hlut, þ.e.a.s. verða að standa undir miklum taprekstri.

Ég hygg, að ég þurfi ekki að fara fleiri orðum um þessa tili., til þess að menn almennt hér á Alþingi skilji, að hún er eðlileg og réttmæt. Hitt er svo fremur þeirra vandamál, sem gegn henni standa, hvort þeir telja, að ríkissjóður sé þannig settur, að hann geti aukið framlag sitt til þessara sjúkrahúsa. En ég vil í því sambandi og raunar í sambandi við allar þær till., sem ég hér legg fram, minna á, að eins og fjárlög standa nú eftir 2. umr. og að viðbættum þeim hækkunartill., sem fjvn. sem heild og samvinnunefnd samgöngumála hafa við þau gert, þá er samt um það bil einn milljónatugur, sem ríkissjóður gæti haft til ráðstöfunar án þess að skapa rekstrarhalla á fjárl., og þar af leiðandi liggur það í augum uppi, að það er hægt, ef vilji væri fyrir, án þess að setja fjárl. í hættu um það að verða með hærri útgjöld en áætlaðar tekjur.

Í öðru lagi tók ég aftur till. um hækkun á byggingarstyrk til Blindrafélagsins í Reykjavík. Ég hef lagt til, að sá styrkur verði hækkaður um 100 þús. kr., úr 150 þús., eins og hann er í fjárlfrv. nú, í 250 þús., og hef þar aðallega miðað við, að sams konar hækkun frá því, sem í upphafi stóð á frv., hefur nú annað líka maklegt félag fengið, hækkun á byggingarstyrk síns heilsuhælis, þar sem er Náttúrulækningafélag Íslands. Það er rétt, að þeir blindu menn, sem að þessari byggingu standa, eru ekki eins vikaliprir í kröfugerð og ásókn á hið opinbera og margir aðrir, sem þar eru duglegri. En ég er þeirrar skoðunar, að þessa ætti Alþingi ekki að láta Blindrafélagið gjalda, heldur ætti Alþingi að meta þörf þess án tillíts til þess og veita því þá hækkun, sem hér er gerð till. um. Hún er líka um svo smávægilega upphæð, að því fer alls fjarri, að hún raski nokkru jafnvægi á fjárl.

Í þriðja lagi hef ég endurflutt till., sem ég tók aftur við 2. umr., um það, að Menningarog friðarsamtökum kvenna verði veittur nokkur styrkur með tilliti til þess, sem veitt er ýmsum öðrum félögum, sem ég sé ekki að séu öll miklu verðari þess að hljóta umbun úr ríkissjóði. Ég hef hér flutt þá till. aftur, að þessum samtökum verði veittur 30 þús. kr. styrkur.

En auk þessa hef ég endurflutt hér tvær till., sem ég flutti við 2. umr. fjárl. og þá voru felldar, en að sjálfsögðu eru þær fluttar hér nú með lægri upphæðum en þar var gerð tili, um, og vildi ég leyfa mér að fara fáeinum orðum um það, hvers vegna ég endurflyt þær till. Ég endurflyt þær fyrst og fremst og nú með lækkuðum fjárhæðum af því, að ég hygg, að það muni byggjast á misskilningi, að þær voru felldar. Og ég tel mig ekki renna alveg blint í sjóinn um það, heldur hef ég litið hér í nokkur gögn og hlýtt á ræður manna, síðan sú umr. fór fram, og þykist af því mega marka, að það sé sá skilningur á þessum tveim málum, að vænta megi þess, að þau verði samþykkt hér við 3. umr., þegar hv. alþm., þeir sem á móti þessum till. voru við 2. umr., hafa glöggvað sig betur á þeim málum, sem hér er um að ræða.

Hin fyrri þessara tillagna er við 16. gr. B. fjárl., sem fjallar um sjávarútvegsmál. Þar hef ég lagt til, að kostnaður við að fylgjast með ferðum fiskiskipa, 200 þús. kr., verði tekinn inn á fjárlög. Það er alkunna, að þessa er hin brýnasta þörf. Við höfum sannast að segja orðið fyrir þeirri lífsreynslu á þessu sviði á undanförnum árum, að ég hygg, að það sé flestra manna dómur, að það sé óhyggilegt að spara nokkur hundruð kr. eða nokkrar kr. til þess að koma því eftirliti með okkar fiskiskipum í framkvæmd, sem hér er farið fram á og hér hefur verið gerð till. um á Alþingi. Það hafa ekki færri en 6 alþm. flutt hér þáltill. um þetta efni, að skora á ríkisstj. að koma upp eftirliti með ferðum fiskiskipa við strendur landsins. Þessi till. var flutt hér á þinginu í fyrra og fékk þá enga afgreiðslu, og hún er flutt hér enn þá. Flm. hennar eru alþm. Pétur Sigurðsson, Jón Árnason, Matthías Á. Mathiesen, Einar Ingimundarson, Guðlaugur Gíslason og Gísli Jónsson. Og þeir rökstyðja sitt mál að mínu viti ágætlega í grg. þessarar till., og þeir virðast gera sér fulla grein fyrir því, að þessu eftirliti verði ekki komið á án þess að til þess verði varið nokkru fé, svo að ég hlýt að ætla, að það sé af misgáningi, ef þeir kosta kapps um að fella þessa till. Meðal þess, sem þeir segja í grg. fyrir sinni till., er þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Engri þjóð er mannslífið jafnmikils virði og Íslendingum. Því má ekkert til spara, er verða mætti til að auka öryggi sjómanna okkar og annarra landsmanna, sem hættustörf vinna.”

Af þessu, þar sem þeir segja, að það megi ekkert til spara, vildi ég ætla, að það sé af misgáningi, ef þeir telja ástæðu til að beita sér gegn því, að nokkrum krónum sé úr ríkissjóði varið til þess að koma einmitt þessu nauðsynja- og öryggismáli íslenzku sjómannastéttarinnar í höfn. Ég gerði í upphafi till. um, að þetta yrði 250 þús. kr. fjárveiting, sem yrði áætlunarupphæð til að greiða þann kostnað, sem af þessu hlytist. En að sjálfsögðu yrði greiddur sá kostnaður, sem á félli, hvort sem hann kæmi til með að reynast meiri eða minni en sú áætlunarupphæð, sem ég þarna tók fram. Að þeirri till. felldri hef ég hér gert till. um, að til þessa verði varið 200 þús. kr.

Þá hef ég einnig endurflutt hér till. með lækkuðum fjárupphæðum um það, að upp verði tekinn á fjárl. nýr liður á 17. gr. fjári., sem yrði framlag ríkissjóðs til félagsheimilasjóðs. Upphaflega gerði ég till. um, að þessi upphæð yrði 2 millj. kr., en nú geri ég till. um, að til þessa verði veitt 11/2 millj. kr. Tilefni þess sérstaklega, að ég flyt þessa till., er það, að ég verð að játa það á mig, sem raunar miklu fleiri þm. eru ekki alveg saklausir af, að vera stundum hvikulir hér í fundarsetum og víkja frá. En þegar ég kom í sæti mitt hér einn daginn milli 2. og 3. umr. fjárl., var hér í ræðustóli hæstv. menntmrh., og ég hlustaði á hann um stund. Það var niðurlag ræðu hjá honum, hann var að ljúka máli sínu, og ég hélt fyrst, að maðurinn væri að vitna um það, að sér hefðu orðið á mistök, þegar hann reyndist vera á móti því að leggja fram nokkurt fé úr ríkissjóði til félagsheimilasjóðs. En þegar ég gætti nánar að, var hann reyndar að tala um annað mál, að vísu þessu mjög náskylt, því að hér var verið að fjalla um frv. til l. um breyt. á l. um félagsheimilasjóð, þar sem nokkrir þm. höfðu flutt frv. um að hækka framlag félagsheimilasjóðs úr 40 í 50% til nokkurra tiltekinna félagsheimila, þar sem fleiri stæðu að en tvö félög. Þetta frv, hafði fengið góðar undirtektir, enda stóðu að því menn úr öllum stjórnmálaflokkum. Og þegar ég fór svo að athuga umr. um þetta frv., kemur í ljós, að þm. virðast yfirleitt hafa ágætan skilning á því, að félagsheimilasjóður er þannig staddur, að ekki verður við unað. Ég sé t.d., að hv. 2, þm. Norðurl. v., Gunnar Gíslason, hefur sagt í ræðu um þetta, með leyfi forseta:

„En ég vil aðeins nota þetta tækifæri til að benda á, að það er nú svo komið fyrir félagsheimilasjóði, að hann er alls ómegnugur að standa undir þeim verkefnum, sem honum er ætlað að styrkja. Hann mun skulda ýmsum félagsheimilum í landinu margar millj. Mér er nær að halda, að það séu 15 millj., sem hann skuldar.“

Þetta segir manni, að sú upphæð, sem ég legg hér til, mundi aðeins nægja til þess að greiða svo sem eins og tíunda partinn af skuldum félagsheimilasjóðs.

Undir þetta tekur að mestu eða öllu leyti 1. þm. Vestf., sem virðist hafa fullan skilning á því, að félagsheimilasjóður getur ekki staðið við sínar skuldbindingar, einnig hv. 5. þm. Vesturl., Benedikt Gröndal, en enginn sýnir þó gleggri skilning á þessum þörfum en hæstv. menntmrh., sem um þetta mál hélt myndarlega tölu, eins og hans var von og vísa. Meðal þess, sem hann segir, er þetta:

„Það hefur undanfarin ár vantað mjög mikið á, að helmingur skemmtanaskatts hafi dugað til þess að greiða 40% byggingarkostnaðar þeirra félagsheimila, sem byggð hafa verið eða í byggingu eru nú.“

Síðan rekur hann þetta mál allnákvæmlega og bendir á, að félagsheimilasjóður hafi að vísu lögum samkv. ekki skyldur til þess að borga þessi 40%, en engu að siður virðist ráðh. ekki í neinum vafa um, að það sé til mikils vansa fyrir Alþingi að sjá ekki til þess, að félagsheimilasjóður borgi yfirleitt þann hluta, sem lög heimila honum, af kostnaði félagsheimilanna. Hann segir m.a. nokkru siðar í ræðu sinni:

„En það vildi ég þó taka fram, að ekki er nokkur von til þess, að hægt sé að auka tekjur af skemmtanaskatti svo mjög, að það dugi til þess að greiða 40% af byggingarkostnaði þeirra félagsheimila, sem byggð hafa verið undanfarin ár og gera má ráð fyrir að verði byggð á næstu árum, þannig að ég tel Alþingi standa þarna frammi fyrir þeim vanda, þegar það kemur saman nú aftur eftir þinghléið, að gera upp við sig, hvort það er reiðubúið til þess að finna nýjan tekjustofn, sem félagsheimilasjóður geti fengið til umráða.“

Ráðh. lauk máli sínu á þá leið, og það var einmitt sá hluti ræðu hans, sem ég kom inn í og hélt í upphafi, að hann væri að vitna um það, að hann iðraðist þess að hafa fellt till. mína um að leggja félagsheimilasjóði til nokkurt fé úr ríkissjóði, þegar svo er ástatt um ríkissjóð, að hann er aflögufær til þess, — hæstv. ráðh. lauk máli sinu með þessum orðum:

„Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki vansalaust, að Alþingi láti árum saman, ef ekki áratugum saman standa í lögum ákvæði, sem heimila ákveðnum opinberum sjóði, í þessu tilfelli félagsheimilasjóði, að styrkja byggingar að ákveðnum hundraðshluta, en Alþingi sjái sama sjóði ekki fyrir nægilegu fé til þess að fullnægja þessu ákvæði sinna eigin laga. Annaðhvort verður að gerast, að Alþingi afli fjár, sem geri sjóðnum kleift að standa undir skuldbindingum sínum, eða að breyta skuldbindingunum þannig, að það fé, sem Alþingi veitir, sé raunhæf fjárveiting í þessu skyni.“

Ég veit enga raunhæfari fjárveitingu í þessu skyni en að sjóður þessi fái styrk úr ríkissjóði, þegar ríkissjóður er til þess aflögufær, og með tilliti til þessa hef ég hér endurflutt till., þó þannig, að ég geri aðeins till. um, að félagsheimilasjóði verði lagt til — ekki 2 millj., eins og ég í upphafi gerði till. um, heldur 11/2 millj. kr.