24.10.1962
Sameinað þing: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (3283)

30. mál, gjaldeyrisandvirði

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Sú fjárhæð, sem þegar er inn komin samkv. 6. gr. laga nr. 28 frá 17. apríl 1962, nemur 144.8 millj. kr. samkv. upplýsingum þar að lútandi frá Seðlabanka Íslands. Þess skal þó getið, að fullnaðarreikningsskil liggja ekki fyrir, þar eð öll gjaldeyrisskil fyrir vörur framleiddar fyrir 1. ágúst 1961 eru ekki enn komin.

Þá er í seinni lið fsp. spurzt fyrir um það, hvernig þessu innkomna fé hafi verið varið samkv. ákvæðum 6. og 7. gr. nefndra laga þar um. En því hefur verið varið sem hér segir:

Í fyrsta lagi til greiðslu útflutningsgalda 32 millj. kr., til greiðslu hlutatryggingasjóðsgjalda 2.7 millj. kr., til greiðslu vátryggingargjalda 13 millj. kr., og í fjórða lagi, langstærsta upphæðin, sem að vísu er ekkert spurt um, en ég tel þó rétt að komi fram, til ríkisábyrðasjóðs 92.4 millj. kr., eða samtals greiðslurnar 140.1 millj. kr.

Mismunurinn á heildarupphæðinni, sem inn er komin, sem var 144.8 millj. kr., þ.e.a.s. 4.7 millj. kr., er geymdur á bankareikningi, þar eð heildarreikningsskilum á þessum fjárhæðum er enn ekki lokið. Þessi upphæð, 4.7 millj. kr., bíður því endanlegrar skiptingar. En til skýringar á þessu er rétt að komi fram, að samkv. 8. gr. fyrrnefndra laga áttu útflytjendur að sækja um endurgreiðslu á hluta af hlutatryggingasjóðsgjaldi, en aðeins lítill hluti af kröfunum hefur enn borizt Seðlabankanum, og þess vegna veit Seðlabankinn ekki enn heildarupphæð þeirra krafna, sem þar er um að ræða.

Með þessu vona ég, að fsp. sé fullsvarað.