31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í D-deild Alþingistíðinda. (3289)

51. mál, misnotkun deyfilyfja

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir hjá ýtarlega svar og fyrir að hafa leitað þeirra upplýsinga frá viðkomandi embættismönnum, sem hann flutti þinginu. Með svari hans er, eins og hann sagði sjálfur, fyrirspurnin að víssu leyti réttlætt. Ég vil lýsa þeirri von minni, að þær upplýsingar, sem hér hafa komið fram í framhaldi af því, sem alþjóð hefur fengið að vita á öðrum vettvangi, verði til þess, að það verði haldið áfram þeirri athugun og þeirri umhugsun, sem sýnilega er þegar hafin hjá hæstv. ráðh. og embættismönnum hans, og það verði gert allt, sem hægt er, til þess að fyrirbyggja frekari misnotkun deyfilyfja hér á landi. Alveg sérstaklega óttast ég, að aukningin á minni háttar deyfilyfjum, sem landlæknir lýsti, kunni að leiða til hinna atærri og verri deyfilyfja, en þau hafa í öðrum löndum dregið með sér dilk, ekki aðeins varðandi þá ógæfusömu einstaklinga, sem nota þau, heldur hefur þróazt hvers konar glæpa- og afbrotastarfsemi í kringum þau.

Það er aðeins eitt atriði í þessum skýrslum, sem kom mér á óvart. Það eru þær upplýsingar hjá fleirum en einum af embættismönnunum, að langmest af þeim lyfjum, sem um er að ræða, virðist vera komið úr lyfjabúðum í okkar eigin landi, og mun þá vera um það að ræða, að ef til vill sé gefið W of mikið af lyfseðlum. Á einhvern hátt komast þessi lyf út.

Ég hafði haldið, að það mundi vera miklu meira af smygluðum lyfjum hér en þeim, sem voru frá innlendum aðilum komin, og getur raunar vel verið, að svo sé, vegna, þess að okkar aðstaða er öll þannig, að það er ákaflega erfitt að fylgjast með smygli inn í landið, ekki sízt af vöru, sem er eins fyrirferðarlítil og þessi.

Ég vil sem sagt þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingar hans og vona, að þeirri athugun og þeirri íhugun, sem þegar er hafin, verði haldið áfram og málið staðnæmist ekki hér með.