19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

1. mál, fjárlög 1963

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 1. og 4. þm. Norðurl. e. leyft mér að flytja brtt. við fjárlfrv. við þessa umr., og eru þær prentaðar á þskj. 210 og 218. Fyrir nokkrum þessara tili. hefur þegar verið mælt af hv. meðflm. mínum, en ég vil gera stuttlega að umræðuefni þær af þessum till., sem enn hefur ekki verið mælt fyrir.

Þessar till. okkar á þskj. 210 og 218 varða aðallega vegi og hafnir í kjördæmi okkar og eru að því er það landssvæði snertir í samræmi við þær brtt. til hækkunar á framlögum til vega og hafna og brúa, sem fluttar voru af hálfu Framsfl. við 2, umr. þessa máls. Þær hækkunartill. voru að vísu allar felldar við þá umr. í því formi, sem þær voru þá fram bornar, þ.e.a.s. hækkunin á vega- og hafnaframlögunum í heild. Þó ætla ég, að menn muni fljótlega komast að raun um það, ef þeir hafa þá ekki þegar gert það hér á hinu háa Alþingi, að þessar till. hafi verið fullkomlega tímabærar, þó að ekki væri nema til að tryggja það, að ekki drægi úr framkvæmdum á þessu sviði vegna hinnar sívaxandi og nú mjög ört vaxandi dýrtíðar í landinu. En ég geri líka ráð fyrir því, að þjóðfélagið fari senn hvað líður að gera sér ljóst, að það nægir ekki, jafnvel þó að það tækist, að haga svo þessum fjárveitingum, að þær fylgist með dýrtíðinni, ef svo mætti segja, þannig að framkvæmdir minnkuðu ekki frá ári til árs. Það nægir engan veginn, því að það er staðreynd, sem þjóðin og þeir, sem fyrir málum hennar ráða, verða að gera sér ljóst, og því fyrr því betra, að í þessum málum verður að gera nýtt átak. Það nægir að minna á það í sambandi við vegamál, að bifreiðafjöldinn í landinu er nú einhvers staðar á milli 24 og 25 þús., að ég ætla. Og bifreiðum fjölgar nú árlega í seinni tíð, jafnvel svo að þúsundum skiptir sum árin. En það er ekki nóg með það, að bifreiðum fjölgi, heldur eru nú fluttar inn í landið og teknar í notkun miklu stærri og miklu þyngri bifreiðar en áður til mannflutninga á langleiðum og til vöruflutninga. Þessi mikli bifreiðafjöldi og þessar stóru og þungu bifreiðar skapa slíkt álag á vegina um allt land, að það er ekkert líkt því, sem áður var. Það er meira að segja svo, og við höfum séð dæmi þess vist öll hér í þessum sal, að margar brýr á þjóðvegunum, sem byggðar voru fyrir ekki löngu, samsvara ekki lengur þeirri umferð, sem nú er. Þær eru orðnar of mjóar, stærri bifreiðarnar komast ekki yfir þær, það hefur orðið að rífa margar þessar brýr og byggja nýjar. Þannig er þróunin í þessum málum, og vitanlega er það ekki neitt sérmál byggðarlaganna, þar sem þessir þjóðvegir eru lagðir víðs vegar um land, að bæta vegina. Bifreiðarnar, sem um vegina fara, eiga engu síður heima hér 5 höfuðborginni og nágrenni hennar, þar sem fjölmenni er mest. Það er þess vegna sameiginlegt hagsmunamál allra byggðarlaga, að vegirnir hér á landi fylgist með kröfum vorra tíma.

Í sambandi við hafnargerðirnar og fjárframlög til þeirra vil ég aðeins minna á það, að þar er nokkuð svipað upp á teningnum. Nú alveg nýlega hefur að tilhlutan Alþingis verið gerð áætlun um hafnargerð hér á landi í 10 ár, þ.e.a.s., á árunum 1961—1970. Hv. þm. hafa haft þessa áætlun á milli handanna. Þetta mun vera í fyrsta sinn, sem af hálfu Alþingis og stjórnarvalda hefur verið reynt á þann hátt að gera sér grein fyrir þessu verkefni. Ég skal ekki nefna neinar tölur á þessari áætlun, en aðeins segja það, að hún sýnir glögglega, að ef vinna ætti að framkvæmd hennar, að henni verði lokið á næstu 10 árum, þarf meira fé til að koma en nú er til þess ætlað, og ég ætla nú í raun og veru, að það verði ekki sagt, að þarna sé frekt í sakirnar farið um áætlun mannvirkja á þessu sviði. En ef ætti að ljúka þessari áætlun á næstu árum, er alveg sýnt, að það þarf að stórhækka framlag ríkisins til hafnargerða á ári hverju, og jafnvel þær till., sem bornar voru fram af hálfu Framsfl. við 2. umr. um hækkun á framlögum til hafnargerða, nægja ekki til þess.

Ég vildi aðeins bregða upp þessum myndum af þörfinni fyrir það að auka, stórlega átak þjóðfélagsins á þessum sviðum. En á því er enginn vafi, að sú þörf er svo brýn, að þjóðfélagið verður á einhvern hátt að ráða fram úr því, að henni verði sinnt.

Ég skal þá koma að þeim till., sem ég ætla að mæla fyrir og eru allar á þskj. 218. Ég kem þá fyrst að 3, tölul., 3. till. á þskj., sem er um hækkanir á nokkrum framlögum til þjóðvega í Norður-Þingeyjarsýslu.

Í fjárlfrv. er gert ráð fyrir að veita fé til vega í þessu héraði í fernu lagi. Brtt. er um hækkun á þessum fjórum liðum. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að hækkað verði úr 50 þús. upp í 85 þús. kr. framlag til Axarfjarðarheiðarvegar. Axarfjarðarheiðarvegur liggur, eins og nafnið bendið til, yfir Axarfjarðarheiði, sem er á milli Axarfjarðar og Þistilfjarðar. Og það er ætlazt til þess, að þeirri fjárhæð, sem í þennan veg er lögð nú að þessu sinni, verði varið til þess að fullgera hluta af veginum, sem er í byggð vestan heiðar frá vegamótunum við Klifshaga að Sandfellshaga, sem er næsti bær undir heiðinni að vestan. Það hefur verið unnið nokkuð að þessum vegi, kaflar á honum hafa verið undirbyggðir, en eftir er að fullgera þá kafla að einhverju leyti og ganga frá veginum, þannig að hann verði akfær að vetrarlagi.

Næsta till. er um hækkun á framlagi til Hólsfjallavegar. Hólsfjallavegur liggur um Hólssand milli Öxarfjarðar og Hólsfjalla, en Hólsfjöll eru, eins og kunnugt er, fámenn byggð á öræfunum milli Norður- og Austurlands, sem tilheyrir Norður-Þingeyjarsýslu. Þetta eru aðeins örfáir bæir, eitthvað um 40 manns, sem eiga heima í þessu sveitarfélagi. En þarna hefur haldizt byggð á erfiðum tímum gegnum áratugi og aldir og það þó að vegalengdin sé svo mikil frá Hólsfjöllum til næstu sveita, sem eru Öxarfjörður að norðan og Mývatnssveit að vestan, að þar eru 40 km til bæja. Það gat sem sé tekið heilt dægur að komast milli bæja á þessum slóðum að vetrarlagi fyrrum, þegar menn fóru fótgangandi og færðin var misjöfn. Þrátt fyrir það hafa menn þraukað þarna í byggðinni og þrauka enn. Jarðirnar eru yfirleitt í byggð, sem þarna voru, ein eða tvær hafa farið í eyði, og eitt nýbýli hefur verið byggt í seinni tíð. Þjóðvegurinn liggur þarna, ef komið er að vestan frá Húsavík, um Tjörnes og Kelduhverfi, yfir Jökulsá og upp með henni upp á Hólsfjöllin og svo austur á Jökuldal og það hefur í mörg undanfarin ár eða raunar áratugi verið unnið að því að bæta þennan veg smátt og smátt, og nokkuð af honum, þ.e.a.s. Hólsfjallaveginum, er orðið allvel akfært. En það, sem núna er unnið að, er að gera sæmilega góðan veg eftir sjálfri Hólsfjallabyggðinni, sem er um 8 km að lengd, því að það kemur fyrir nú orðið, að þó að hægt sé að komast úr Axarfirði upp á Hólsfjöll að vetrarlagi, þá getur verið ófært á milli bæjanna, ófært um sveitina sjálfa. Er illt til þess að vita, og má ekki lengi svo til ganga.

Næsta till. er um hækkun á fjárveitingu til Kelduhverfis-, Kópaskers- og Raufarhafnarvegar til Þistilfjarðar og Þistilfjarðarvegar úr 530 þús. upp í 900 þús. Eins og menn heyra, er hér í raun og veru um marga vegi að ræða, sem áður var oft veitt fé til, þannig að sérstök upphæð var veitt í hvern veg. Þessu hefur nú verið breytt, þannig að veitt er ein upphæð í alla vegina allt vestan frá Tjörnesi og austur til Þórshafnar á Langanesi, um Kelduhverfi, Öxarfjörð, Núpasveit, Sléttu, Hálsa, Þistilfjörð og hluta af Langanesi. Ég efast um, að það hafi verið til bóta að sameina fjárveitingarnar þannig, en skal ekki gera það að umræðuefni.

Nú er það þannig, að þeim, sem fara þessa vegi á sumrin, getur virzt, að þeir séu sæmilega greiðfærir í góðri tíð, og það eru margir þeirra, af því að vegarstæði er þarna víða a.m.k. allgott. En þar með er ekki öll sagan sögð. Af því að vegarstæði er gott, sérstaklega í vesturhluta héraðsins, yfirleitt þurrt land, móar og sandlendi, þá voru þessir vegir yfirleitt í öndverðu aðeins ruddir, og það gat verið allgóð vegagerð á sumrin, eins og ég sagði, í góðri tíð. En það hefur auðvitað sýnt sig, að á vetrum verða þessir vegir oft algerlega ófærir af snjó og sömuleiðis af aurbleytu bæði haust og vor. Í seinni tíð hefur því verið unnið að því að byggja upp vegina smátt og smátt. Með þeim litlu fjárveitingum, sem menn hafa haft yfir að ráða, hefur þetta gengið hægt. Nú hafa þeir atburðir gerzt, sem gera það mjög aðkallandi nauðsyn að hraða þessari uppbyggingu veganna, og það er það, sem minnzt var á hér í dag af hv. 1. þm. Norðurl. e., að í þessu héraði, bæði norðan, austan og vestan Heiðar, er nú mikill áhugi fyrir því að taka upp mjólkurframleiðslu. Austan Heiðar er þegar, að segja má, hafinn undirbúningur að byggingu mjólkurbús á Þórshöfn, og vestan Heiðar mun annaðhvort verða að því ráði hnigið að byggja lítið mjólkurbú þar í héraðinu eða semja um mjólkurflutninga til mjólkursamlagsins á Húsavík. En hvort heldur sem verður ofan á þar, gefur auga leið, að um leið og farið er að framleiða mjólk til sölu, þá þurfa vegirnir að vera færir á veturna. Þetta er hið breytta viðhorf í þessu héraði, eins og reyndar sums staðar annars staðar á landinu, að verið er að taka upp mjólkurframleiðslu og mjólkursölu, sem gerir þá nauðsyn knýjandi að byggja upp vegína og gerir það að verkum, að ruddir vegir koma alls ekki að tilætluðum notum fyrir flutningana til og frá markaðsstað. Við þetta má svo bæta því, að Hálsavegur milli Raufarhafnar og Þistilfjarðar hefur nú alveg nýlega verið tekinn í notkun. Þetta er millibyggðavegur og eiginlega til hliðar við Öxarfjarðarheiðarveg, sem liggur hærra inni í heiðinni, en þessi liggur nær sjónum og þó í óbyggðum að miklu leyti. Þessi vegur hefur sem sé nýlega verið tekinn í notkun — og þá í notkun, sem alls ekki er tímabær, eins og ástand vegarins er, því að ég ætla, að ég fari þar ekki með rangt mái, þegar ég segi, að fram undir 20 km af þessum vegi séu enn þá óuppbyggðir og aðeins ruddur vegur. Það eru 10 km af vegi um svokallaðan Ytri-Háls og síðan vegur yfir Fremri-Hálsinn. Nú s.l. sumar voru teknar upp áætlunarferðir alla leið frá Reykjavik og til Vopnafjarðar á þungum vörubílum, sem flytja alls konar vörur héðan úr höfuðborginni norður í land og austur og þræða vegina með ströndinni og m.a. þennan veg. Ég geri ráð fyrir því, að þessum áætlunum verði haldið áfram. En það gefur auga leið, að þessi vegur þolir engan veginn slíka umferð, fyrr en hann hefur verið byggður upp, og það gerir þá nauðsyn alveg sérstaklega knýjandi varðandi þennan veg, að uppbyggingin fari þar fram. En hann er einn kaflinn í þessu vegakerfi eða þessum langa vegi, sem ég hef nefnt, milli Tjörness og Þórshafnar á Langanesi.

Þá flytjum við till. á þskj. 218 um fjárveitingu tiI að brúa Gilsbakkaá í Öxarfirði. Þjóðvegurinn frá Jökulsá austur á Sléttu liggur um miðjan Öxarfjörð, en ofar, nær fjöllunum, er önnur bæjaröð í Öxarfirði. Meðfram þessari bæjaröð liggur sýsluvegur, og á honum er þessi brú. Áin, sem þarna er um að ræða, Gilsbakkaá, er allmikil torfæra, sérstaklega á vissum tímum árs. Vegamálastjóri hefur fyrir nokkru gert áætlun um byggingu þessarar brúar, og höfum við lagt til, að til hennar verði veittar 200 þús. kr.

Ég kem þá næst að till. á sama þskj. um hækkun á framlögum til hafna. Það eru till. um hækkun til tveggja hafna, hafnarinnar á Raufarhöfn og hafnarinnar á Þórshöfn. Á það þar einnig við, sem ég sagði áðan, að þær till., sem við hér flytjum, eru í samræmi við þær till. um hækkun á framlagi til hafna, sem fluttar voru af þm. Framsfl. við 2. umr. Á Raufarhöfn stendur nú fyrir dyrum að byggja hafnarbryggju, sem mun kosta um 10 millj. kr., að því er áætlað er. Höfnin hefur ekki áður átt neina hafnarbryggju. Það fé, sem varið hefur verið til hafnargerðar á Raufarhöfn, hefur að mestu leyti gengið til þess að dýpka höfnina, en ekki verið komið upp bryggju fyrir það fé. Nú nýlega hafa tekizt um það samningar milli hreppsnefndarinnar á Raufarhöfn og stjórnar síldarverksmiðja ríkisins, að hreppurinn taki við skipabryggju, sem síldarverksmiðjurnar eiga og nota til afgreiðslu flutningaskipa, og við þeirri aðstöðu, sem þar er við bryggjuna, og byggi þá nýja bryggju í hennar stað. En þessi gamla bryggja, sem er timburbryggja, eða elzti hluti hennar a.m.k., mun vera frá þeirri tíð, er Norðmenn reistu litla síldarverksmiðju á Raufarhöfn, og er nú af fróðum mönnum talin ónýt. Það þarf ekki að minna á það hér, að Raufarhöfn er einn sá staður, þar sem mest er framleitt á landi hér af gjaldeyrisvörum til útflutnings, þegar síldin veiðist fyrir Norður- og Austurlandi á sumrin, og það er mikil þörf á hafnarmannvirki sem þessu. Skal ég ekki fara um það fleiri orðum.

Á Þórshöfn á Langanesi við Þistilfjörð var fyrir nokkrum árum byrjað á byggingu hafnargarðs til varnar hafsjó og í þeim tvenns konar tilgangi að skapa hlé og skjól í höfninni, var fyrir fiskibáta, stefnt að því, að þar yrði lokuð kví að mestu leyti, og hins vegar að skapa þarna aðstöðu til afgreiðslu vöruflutningaskipa. Þarna var fyrirhugaður alilangur garður, sem er gerður úr grjóti á þann hátt, sem nú tíðkast, og ofan á grjótgarðinn er svo steypt plata og undirstöðuveggir undir hana og skjólveggur á útbrún. Enn fremur hefur í sambandi við garðinn verið unnið að dýpkun, til þess að skip geti lagzt að afgreiðslubryggju. Þessu verki hefur nú miðað nokkuð áfram, eða hafði miðað nokkuð áfram, en svo gerðist það í fyrra í aftakaveðri, sem gekk yfir Norðurland, að ég ætla 22. nóv., að þá gekk þarna sjór á land og yfir hafnarmannvirkin. Þetta var svo mikið brim, að menn muna ekki annað eins í 25 ár. Og þegar aftur lægði, kom það í ljós, að þarna höfðu brotnað og horfið í djúpið einir 10–12 m framan af þessu nýja mannvirki, og auk þess hafði það, sem næst var, nokkuð skekkzt. Þetta var mikið áfall fyrir þennan stað, en Alþingi hljóp þar undir bagga eins og á fleiri stöðum, og var ákveðið að greiða úr hafnarbótasjóði fé til þess að bæta þessar skemmdir. Hins vegar gat ekki af því orðið í sumar, að skemmdirnar yrðu bættar, vegna þess að það þótti ekki af tæknilegum ástæðum hægt að ráðast í þær, nema jafnframt væri unnið að næsta áfanga í hafnargerðinni. En sá áfangi er, að því er ég ætla, að bæta tveim kerum framan við garðinn og ljúka jafnframt grjótgarðinum eða lengd garðsins, þannig að hann nái fullri lengd fram að kerunum, en kerin eiga að mynda hina væntanlegu hafskipabryggju. Nú hafa vonir manna staðið til þess, að á næsta sumri yrði hægt að bæta skemmdirnar. Vonandi aukast þær ekki í vetur, þó að ekki sé séð fyrir endann á því, því að skammt er á vetur liðið. Það er ráðgert næsta sumar að gera við skemmdirnar og jafnframt að ljúka þessum áfanga. Til þess þarf mikið fé.

Við Langanes og í Þistilfirði eru ein beztu fiskimið norðanlands og austan, og Þistilfjörður er af fróðum mönnum talinn mikil uppeldisstöð fyrir ýsu og fleira góðfiski. Þarna hefur um aldir stundað veiðar mikill floti erlendra skipa, franskra, enskra, hollenzkra, siðar færeyskra, sem voru í skjóli við nesið eftir áttum og færðu sig austur og norður fyrir nesið eftir því, hvernig vindurinn stóð, og mokuðu þarna upp fiski. Svo kom togaratíminn, og bátarnir hættu að geta fiskað eins mikið á grunnmiðum og þeir áður gerðu. Svo kom aftur friðunin, og nú síðustu árin hafa verið ágæt aflaár á Þórshöfn, þannig að það orð hefur farið af, að smærri bátar víðs vegar að af landinu hafi sótzt eftir að komast þar að til þess að leggja upp afla og meira en hægt hefur verið að taka við. Einnig hefur þarna verið síldarsöltun, og þar er lítil síldarverksmiðja. Það er enginn vafi á því, að ef þessi hafnargerð kemst í framkvæmd, eins og til er stofnað, þá á þessi staður fyrir sér mikla framtíð.

Undir X á sama þskj. flytjum við till. um breyt. á 14, gr., um framlag til íþróttahúss á Raufarhöfn, 200 þús. kr., og til vara 100 þús. kr. Í fjárlfrv. eru þegar fjárveitingar til sambærilegra íþrótta- eða leikfimishúsa við barnaskóla, og er þar um svipaðar upphæðir að ræða. Fjvn. hefur nú, — og það ber að þakka, — tekið upp till, um 400 þús. kr. fjárveitingu til þess að byggja fyrsta áfanga barnaskóla á Raufarhöfn, en Raufarhafnarhreppur hefur nú undanfarin 2 ár eða 3 sótt um það árangurslaust að fá að byrja á byggingu barnaskóla. Skólahúsið, sem nú er þar, var byggt fyrir 30 árum, þegar íbúarnir voru ekki nema þriðjungur af því, sem þeir eru nú. Nú hefur fengizt að byrja á skólahúsinu, en þeim, sem standa að þessum málum, þykir mjög bagalegt að geta ekki fengið leyfi til þess að hefja um leið byggingu íþróttahússins eða leikfimishússins, af því að það mundi henta á ýmsan hátt miklu betur að geta látið þá framkvæmd verða hinni samferða. Því er þessi till. flutt.

Ég vil, áður en ég skilst við þessar till., minnast á eina till. um hækkað vegaframlag, sem ég átti eftir áðan, en hún er um hækkun á framlagi til Langanesvegar úr 50 þús. kr. í 85 þús. kr. Ég geri ráð fyrir, að hv. þm. séu yfirleitt ókunnugir á þessum slóðum. En Langanesvegur heitir vegur út Langanes, frá Þórshöfn að Skoruvík og Skálum á utanverðu Langanesi. Og það er ætlazt til þess og raunar fra,m tekið, að þessi fjárveiting skuli ganga í veginn utan Heiðar á Langanesi. En Heiði er bær á Langanesi. Út að Heiði frá Þórshöfn er allgóður akvegur, sem á sinum tíma var byggður með stuðningi þeirra, sem ráða yfir radarstöðinni á Heiðarfjalli. En þá sögu verður að segja eins og hún er, að á nesinu utan við Heiði eða Heiðarfjall er nú orðin litil byggð. Áður voru þar gildir bændur og útgerðarmenn, og á Skálum var þorp með eitthvað á annað hundrað íbúa, og voru gerðir út nokkrir tugir róðrarbáta á árabátatímanum framan af öldinni. En yzt á norðanverðu Langanesi, rétt fram við þar sem hinn svokallaði Fontur tekur við, sem er yzti hluti nessins, er bærinn Skoruvík, og þar er vitavörðurinn, bóndinn á Skoruvík, sem gætir vitans á Langanesfonti, eins og faðir hans gerði á undan honum. Ég veit, að vitamálastjóri telur það mjög mikilsvert, að byggð haldist á þessum stað og vitavörðurinn hrökklist ekki burt þaðan. Þessi vitavörður er einnig veðurathugunarmaður, og Veðurstofan hefur tjáð mér, að hún teldi það mjög skaðlegt, ef hún getur ekki fengið áfram veðurathuganir frá Skoruvík, vegna þess, hvernig sá staður liggur norðaustur í hafi. Auk þess er þarna um mikil hlunnindi að ræða úti á nesinu. Það er reki þar á fjörum, og hefur verið fluttur þaðan víða um land trjáviður til girðinga. Þess vegna var fyrir nokkrum árum ráðizt í það að koma á vegasambandi þarna út nesið, út að Skálum og Skoruvík. Það var ekki um það að ræða að byggja þar upp veg og verður ekki, heldur aðeins að ryðja veg. Og fyrir 2 árum tókst að ryðja veginn út að Skálum og Skoruvík, sem er löng leið. En satt að segja er hann svo slæmur enn þá eða verður öðru hverju, að hann er eiginlega á köflum ekki fær tímum saman þeim bilum, sem gert er ráð fyrir, að um hann fari, sem eru jeppabifreiðar og vörubifreiðar. Og það er mikil nauðsyn á að gera þarna einhverjar bætur á. Þessi upphæð, sem í fjárlfrv. er, 50 þús. kr., er ætluð til að greiða skuld, og viðbótin færi þá til þess að gera við einhverjar torfærur, helztu torfærurnar. Þarna er sem sagt ekki um það að ræða að byggja upp veg, heldur aðeins að gera akfært fyrir slíka bíla, sem ég nefndi áðan. Og ég vil minna á það í þessu sambandi, sem ég held að ég hafi minnzt á í fyrra, þegar ég talaði fyrir svipaðri tillögu, að þarna við nesið hefur það komið fyrir og kemur fyrir enn því miður, að skip stranda, og er þá mjög mikilsvert, að hægt sé að komast til aðalbyggðarinnar innar á nesinu.

Þá hef ég mælt fyrir þeim till., sem við flytjum, hv. 1, og hv. 4, þm. Norðurl. e. og ég. En ég vil til viðbótar mæla fyrir einni till., sem fram kemur á þskj. 218. Það er XVI. Hana flytja ásamt mér hv. 2. þm. Austf., hv. 1. þm. Vesturl., hv. 4. þm. Vestf. og hv. 1. þm. Norðurl. v. Hún er um það að hækka framlagið til mjólkurbúa og smjörsamlaga úr 500 þús. kr. upp í 1 millj. Ég minntist á það áðan, að sums staðar á landinu væri sú breyting að verða á í sveitum, að þar sem var nær eingöngu sauðfjárframleiðsla og eingöngu sauðfjárframleiðsla á markaðsvöru, þá eru menn nú í þann veginn að taka upp eða hafa jafnvel þegar tekið upp mjólkurframleiðslu. Til þess eru ýmsar ástæður, sem verða ekki raktar hér. Fyrir nokkrum áratugum var það kjörorð fræðimanna í íslenzkum landbúnaði, að það ætti að vera verkaskipting milli bændanna, verkaskipting í landbúnaði, þannig að í sumum byggðarlögum ættu menn eingöngu að framleiða mjólk, í öðrum byggðarlögum eingöngu sauðfjárafurðir, kannske í enn öðrum eingöngu garðávexti o.s.frv. Nú er þetta viðhorf gersamlega breytt. Kjörorðið er nú ekki lengur verkaskipting í landbúnaðinum, heldur blandaður búskapur. Það er talið æskilegast nú af mörgum, að bændur hafi bæði sauðfjárframleiðslu, mjólkurframleiðslu og jafnvel fleira, og talið, að þá verði betri árangur af búskapnum en er a.m.k. nú fyrir sauðfjárframleiðendur. En þetta þýðir, að það þarf að koma upp mjólkurbúum víðs vegar um land, ekki stórum búum nema sums staðar, en litlum búum, mjólkurstöðvum, sem eru miðaðar jöfnum höndum við, að það sé hægt að framleiða góða söluvöru fyrir neytendur þorpanna við sjóinn og hins vegar að skapa markað fyrir þá mjólk, sem framleidd er í sveitunum. Nokkrar slíkar mjólkurstöðvar hafa verið byggðar víðs vegar um landið. Sums staðar eru slíkar mjólkurstöðvar í smíðum. Sums staðar er ákveðið að byrja á næsta vori eða nú alveg á næstunni. En erfiðleikarnir við þessar framkvæmdir allar eru allmiklir, ekki aðeins við að koma upp þessum mjólkurstöðvum, heldur líka fyrir bændurna að koma upp fjósum og kúastofni, þar sem hann hefur ekki áður verið. Nú segir svo í lögum um framleiðsluráð o.fl., 32. gr., að ríkissjóði beri að styrkja slíkar mjólkurstöðvar þannig að greiða 1/4 af stofnkostnaði þeirra. Til þessa hefur ekki veríð veitt mikið fé undanfarið, enda hefur ekki til skamms tíma verið mikið um byggingu slikra stöðva. Þetta eru framkvæmdir, sem hafa verið að gerast núna allra síðustu árin eða eru að gerast eða munu gerast á næsta eða næstu árum. En samkv. yfirliti, sem ég hef fengið frá þeim, sem fylgjast með þessum málum, mundi láta nærri, að til þess að greiða fjórða hlutann af stofnkostnaði líklega 11 stöðva, sem hér er um að ræða, þyrfti samtals um 8 millj. kr. Þetta eru vitanlega ekki allt kröfur á ríkissjóð enn þá, vegna þess að sumum framkvæmdum er ekki lokið og sumar eru ekki hafnar enn þá. En það er sýnt, að hér er um að ræða viðfangsefni, sem ekki verður gengið fram hjá. Þess vegna höfum við leyft okkur að leggja til, að þessi upphæð til mjólkurbúa verði hækkuð á þann hátt, sem ég hef lýst.