31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 431 í D-deild Alþingistíðinda. (3295)

248. mál, lán út á landbúnaðarafurðir

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi taldi, að það vantaði allt að 100 millj. kr., til þess að það væri hægt að lána allt að 70% út á verðmæti landbúnaðarafurða að þessu sinni. Það hef ég ekki reiknað út og taldi mig ekki heldur hafa nefnt hjá þeim bankastjórum, sem ég hef talað við. Eins og ég sagði áðan, þá hef ég ekki talið það neitt eftir mér að ræða við bankastjórana, og bankamálaráðherra var einu sinni með mér á þeim fundi. Við gerðum það til þess að láta bankastjórana vita um vilja ríkisstj. í þessu efni, en höfum vitanlega ekki enn sem komið er tekið að okkur að semja fyrir hvert fyrirtæki um lán. Það er nú þannig með sjávarútveginn, að það verður hvert fyrirtæki, sem við sjávarútveg fæst, að semja fyrir sig við viðskiptabanka um viðbótarlán, og eins og ég sagði áðan, þó að flest þessi fyrirtæki muni hafa komizt upp í 15% viðbótarlán, þá eru það ekki öll. Það er eins og segir í skýrslu bankans, sem ég las upp áðan, það eru engar fastar reglur um þetta. En ég vænti þess, að bankastjórarnir hafi góðan skilning á þörfum landbúnaðarins og séu honum hlynntir. En ég býst við, að þeir ætlist til, að hvert fyrirtæki komi til þeirra og semji um sín mál, en ekki að landbrh, hafi þar milligöngu.

Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að ég vænti þess, að útborgun til bænda verði a.m.k. ekki lægri en hún var í fyrra, og þá mun hún hafa verið frá 67% og jafnvel upp í 80%, og að þetta geti haldizt þrátt fyrir aukningu á magni og hækkun á verðinu.