14.11.1962
Sameinað þing: 13. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 434 í D-deild Alþingistíðinda. (3299)

82. mál, skipulagning fiskveiða með netum

Fyrirspyrjandi (Jón Árnason):

Herra forseti. Á þskj. 101 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. sjútvmrh. varðandi skipulagningu á fiskveiðum með netjum. Fyrirspurnin hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Hvað líður framkvæmd þeirrar þál., er Alþingi samþ. 15. febr. 1961, um skipulagningu fiskveiða með netjum?“

En umrædd þál. var svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að undirbúa setningu reglna um takmörkun á veiðitíma, veiðarfæranotkun og veiðisvæðum þeirra skipa, er fiskveiðar stunda með netjum. Við þann undirbúning verði haft samráð við fiskmatsráð, Fiskifélag Íslands, fiskideild atvinnudeildar háskólans og samtök útvegsmanna og sjómanna. Ef í ljós kemur, að lagasetningar þurfi um þetta efni, verði frv. þar að lútandi lagt fyrir Alþingi.“

Með þessari ályktun var það einkum tvennt, sem öðru fremur vakti fyrir flm. Annars vegar, að komið yrði í veg fyrir þá óhófseyðslu og notkun, sem nú á sér stað í sambandi við þorskanetjaveiðarnar. En þær hafa nú hin síðari ár stóraukizt og hefur netjanotkunin í sumum tilfellum gengið svo úr hófi fram, að mörg dæmi eru til þess, að skipshafnir bátanna hafa ekki komizt yfir að draga allar þær netatrossur, sem í sjónum hafa verið, daglega. Með þeirri þróun hafa gæði fisksins farið versnandi, og getur það hvenær sem er, ef ekki verður rönd við reist, leitt til hinna alvarlegustu afleiðinga.

Það er augljóst mál, að í þeirri hörðu samkeppni, sem íslendingar verða að heyja í erlendum viðskiptalöndum fyrir síaukinni framleiðslu sjávarafurða, skiptir það miklu máli að geta boðið fyrsta flokks vöru. Því miður er hér mikil hætta á ferðum. Sá fiskur, sem orðinn er 2–3 nátta, þegar fiskurinn hefur legið 2–3 sólarhringa dauður í netjunum, getur aldrei verið fyrsta flokks hráefni. Og eftir því sem sá hlutur aflans verður stærri, er hættara við, að illa geti farið. Það er skoðun margra fiskimanna, að svo geti farið, ef veiðarnar verða háðar í framtíðinni svo sem verið hefur, algerlega skipulagslaust, bæði hvað tímabit og veiðisvæði snertir, þá verði gengið svo nærri fiskistofninum, að um alvarlega hættu geti verið að ræða. Þar skiptir mestu máli tímabilið, sem þorskurinn hrygnir á, og svo hins vegar skipta máli sjáifar hrygningarstöðvarnar.

Þá vil ég að lokum geta þess, að án þess að einhver afmörkun netjasvæðanna eigi sér stað á milli netja- og línuveiða, fer ekki hjá því, að línuveiðarnar muni að mestu leyti leggjast niður, a.m.k. hér í Faxaflóa.

Af því, sem ég hef nú sagt, hef ég leyft mér að spyrjast fyrir um það, hvað nú líði framkvæmd þeirrar þál., sem Alþingi samþykkti um skipulagningu fiskveiða með netjum.