19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

1. mál, fjárlög 1963

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins segja hér nokkur orð með 4 brtt., sem ég flyt ásamt tveimur öðrum hv. þm. á þskj. 210. Það eru allt brtt., sem voru til umr. líka og voru fluttar við 2. umr, fjárl., sem við flytjum nú aftur með allmiklu lægri fjárupphæðum yfirleitt.

Fyrst er brtt. á þskj. 210, X, sem ég flyt ásamt hv. 7. landsk., um, að styrkur til að bjóða grænlenzkum stúdent, námsmanni eða áhugamanni til námsdvalar til að læra íslenzka tungu, sögu og bókmenntir sé veittur, 60 þús. kr. að upphæð. Ég vil aðeins minna á það, sem ég sagði um þetta við 2. umr. málsins. Ég álit, að okkur beri nokkur skylda til þess að reyna að skapa menningarleg tengsl við þá þjóð, sem býr í næsta nágrenni við okkur, býr í þessu forna íslenzka landnámi og hefur í kringum sig íslenzkar fornminjar og á að þekkja íslenzka sögu, þannig að það væri rétt af okkur, ef þar fyndust menn, sem hefðu áhuga á því að kynna sér okkar sögu, okkar bókmenntir og okkar tungu og þar með í raun og veru að vita meira um sína eigin sögu, að styrkja þá til þess. Ég efast ekki um, að þótt við lækkum þessa upphæð ofur litið, þá munu ýmsir aðrir hér heima verða til að aðstoða þarna með líka, t.d. eins og Flugfétag Íslands, sem hefur haft ákaflega mikil sambönd við Grænland, að veita slíkum manni eða mönnum ókeypis far. Það er orðið fyrir þess frumkvæði alltítt, að Íslendingar ferðist til þeirra gömlu Íslendingabyggða, og af hálfu Íslendinga er sem sé sívaxandi áhugi fyrir Grænlandi. Ég vil vekja sérstaka athygli á því, að enginn Grænlendingur mundi fara að læra þetta út frá neinu hagsmunasjónarmiði. Það gæti ekki verið út frá neinu öðru en áhuga á íslenzkri tungu. Við gætum ekki búizt við því, að það væri farið að kenna íslenzku eða íslenzka tungu eða íslenzka sögu í Grænlandi fyrst um sinn, þannig að sá maður, sem kæmi hingað til þess að nema íslenzka tungu og íslenzka sögu og kynna sér íslenzkar bókmenntir, mundi eingöngu gera það vegna þess, að hann hefði áhuga á því að vita eitthvað um okkar þjóð og geta e.t.v. síðan beitt þeim áhuga bara sem hreinn áhugamaður, þegar heim til Grænlands kæmi.

Ég vil líka minna á, þó að það sé kannske fjarri að minna á það í sambandi við þetta, að allar Norðurlandaþjóðir hafa talið sér skylt að gera eitthvað til þess að aðstoða það, sem kallað er frumstæðar þjóðir eða þróunarþjóðir, eins og það hefur stundum verið kallað. Við höfum lítið eða ekkert gert í slíku skyni, en höfum þó hér í nágrenni okkar þjóð, sem einmitt þyrfti aðstoð á þennan hátt. Hins vegar skal ég gjarnan viðurkenna, að þetta væri mjög eigingjörn aðstoð frá okkar hálfu, að gefa þeim tækifæri til þess að kynnast okkar sögu og okkar menningu. En e.t.v. gæti það líka orðið þeim nokkur hjálp, og þar sem þeirra saga og okkar fellur að nokkru leyti á vissu tímabili saman, væri þetta a.m.k. hjálp til þess að reyna að fá þá til að þekkja sína eigin sögu og það land, sem þeir byggja, betur en ella, því að það er ekki víst, að þeir fái alltaf sem réttastar upplýsingar um það. Ég vildi þess vegna eindregið mælast til þess við hv. þm., þegar ekki er um meiri upphæð að ræða en þessa, að þeir gætu orðið við því að samþykkja þessa litlu till.

Þá flyt ég á sama þskj. ásamt hv. 5. þm. Norðurl. e. till. XIII um, að styrkurinn til sumardvalarheimila gegn framlögum annars staðar frá sé hækkaður upp í 400 þús. Fjvn. er með till. um 300 þús., og er það mjög gott, að þar er gerð hækkun frá 215 þús., sem var, en ég álit, að það væri heppilegt að hafa hana þetta hærri.

Þá flyt ég enn fremur ásamt hv. 7. landsk. till. nr. XIV á sama þskj. um, að tekinn sé upp nýr liður, til rekstrar dagheimila fyrir börn þeirra mæðra, er vinna utan heimilis, úthlutað samkv, reglum, sem félmrn. setur, 300 þús. kr. Ég talaði fyrir þessari till., sem þá var með allmiklu hærri upphæð, við 2. umr. málsins og skal ekki fara að endurtaka það. En ég sé það strax á því, sem fjvn. hefur gert í þessum efnum, hvað snertir 9. liðinn í þessu, til sumardvalarheimila og slíks, að það er vaxandi skilningur á því, hver þörf er á því, að það sé komið upp og jafnvel ýtt undir hinar og þessar stofnanir um að koma upp dagheimilum, svo mjög sem það fer í vöxt, að mæður vinni utan heimilis, þær mæður, sem hafa ung börn og þurfa að geta komið þeim fyrir.

Þá flytjum við hv. 7. landsk. enn fremur till. á sama þskj., 210, XVI, um að styrkja félagsstarfsemi og skemmtanir æskulýðs, sem haldnar eru án þess að vín sé veitt af hálfu félagsheimila og annarra aðila, enda sé tryggt, að verðlagi öllu við skemmtanahaldið sé í hóf stillt og sé styrknum úthlutað samkv. reglum, sem félmrn. setur, 500 þús. kr. Ég minnti á það við 2. umr. málsins, hve erfitt mörg félagsheimilin eiga með rekstur, a.m.k. verulegan menningarlegan rekstur þeirra félagsheimila, sem upp hefur verið komið, og enn fremur minnti ég á, hve brýnt það væri hér í Reykjavík, þar sem spillingarhættan er mest, að geta komið upp eða séð um, að starfrækt væru verulega fögur og skemmtileg félagsheimili, án þess að vín sé haft þar um hönd. Og það er vitanlegt, að það er verið að gera þess háttar tilraunir í Reykjavík, sem geta jafnvel meira eða minna eyðilagzt af því, að það er gengið of hart fram í því að krefjast t.d. skemmtanaskatts og annars slíks, og það væri með svona smáfjárupphæðum hægt að koma þessu þannig fyrir, að slíkar tilraunir þyrftu ekki að mistakast. Ég held þess vegna, að það væri ákaflega heppilegt, þótt það væri ekki nema þessi litla byrjun, að veita þessar 500 þús. kr. í þessu skyni, og menn mundu ekki sjá eftir því, þegar það sæist, að allan þann sjoppuómenningarbrag, sem hefur verið að setja leiðindasvip m.a. hér á Reykjavík og hefur verið að breiðast út um land, færi að takast að láta hverfa, þannig að þessari litlu fjárupphæð væri ekki illa varið í þessu sambandi.

Ég vil svo aðeins að lokum út frá þeirri till., sem liggur fyrir á þskj. 223 frá fjvn., um tvær lánsheimildir til samans að upphæð næstum 100 millj. kr., sem báðar út af fyrir sig eru ágætar og sjálfsagðar, mínna á, — og ég segi það ekki til þessarar hæstv. ríkisstj., sem nú situr, það hafa margar ríkisstj. nú undanfarin ár gerzt samsekar um það, það er sífellt að færast í vöxt, að við afgreiðum stórar lánsheimildir með einni umr. á Alþingi, með því að bæta aftan við 22. gr. heimildum til að taka svona og svona mikil lán. Ég man nú ekki lengur, hvað er langt síðan þetta var gert í fyrsta sinn. Í stjórnarskránni, 40. gr., stendur, eins og menn vita, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkv. lagaheimild.“

Og í 44. gr. segir:

„Ekkert lagafrv., að fjárl. og fjáraukal. undanskildum, má samþykkja, fyrr en það hefur verið rætt þrisvar sinnum í hvorri þingdeild.“

Það hefur farið í vöxt, að þetta hefur verið framkvæmt á þann máta, að heimildir til þess að selja fasteignir hafa verið veittar með einni umr. í sambandi við fjárl. og heimildir til að taka lán hafa verið veittar með einni umr. í sambandi við fjárlög. Hins vegar er þetta ekki orðinn almennur praksis enn þá. Enn þá þykir t.d. sjálfsagt með hverja jörð, sem ríkið á, að um það skuli útbúa sérstök lög og ganga í gegnum sínar sex umr. Hins vegar eru húseignir og slíkt nú í 22. gr., seldar samkv. henni. Enn fremur þykir enn þá sjálfsagt viðvíkjandi útlendum lánum að láta það ganga gegnum sínar 6 umr. Hins vegar er núna lagaheimild í seðlabankalögunum um, að Seðlabankinn má taka útlend lán, ef ég man rétt. Og ef við förum að gera ákaflega mikið að þessu, — nú tökum við 100 millj., við getum tekið 1000 millj. með einni umr. í fjári., veitt heimild til að taka það og látið Seðlabankann taka það, — getum við smám saman farið langt út fyrir það, sem hlýtur að hafa verið meiningin í stjórnarskránni upphaflega. Ég er ekkí að segja það til að deila neitt á það, sem hér liggur fyrir. Það er komin hefð á þetta, mér dettur ekki í hug að neita því. Það er búið svo oft að samþykkja þetta. En ég vil aðeins benda á, að það væri rétt af okkur að athuga, hvort við eigum ekki að brjóta þá hefð, hvort við eigum ekki, næst þegar víð förum að taka mjög stór lán, að láta þetta ganga með sínum gamla hætti í gegn, að öll þau lán a.m.k., sem eitthvað munar um, séu látin ganga sem sérstök lög í gegnum sínar sex umr. á Alþ. Ég ætla ekkert að segja um það að öðru leyti. Þetta er löglegt, er búið að gera það í a.m.k. áratug og meira, og allar ríkisstj. og allir þm. hafa verið sammála um það. En mér sýnist, að við ættum að athuga alvarlega, hvort við ekki breytum þessu, hvort það er ekki í meira samræmi við okkar stjórnarskrá og okkar þingræði að taka upp aðra hætti þarna.