21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

249. mál, virkjunarmöguleikar Jökulsár á Fjöllum o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég er nú dálítið undrandi á ræðu hv. þm. Það er eins og hann sé hálfhneykslaður á því, að það hefur verið gert fleira en að framkvæma till. hans og fleiri hv. þm. Norðurl. e. frá 1981. Það liggur alveg ljóst fyrir, að það hefur verið gert það, sem farið var fram á með þeirri till. Rannsókn á fyrstu virkjun Jökulsár er lokið að dómi sérfræðinga, eins og ég las hér upp áðan. Og hvernig stendur þá á því, að hv. fyrirspyrjandi er ekki ánægður með, að svo er, að við næstu áramót liggja þessar athuganir fyrir? Ég held, að við getum verið ánægðir með það, að það hefur verið gert fleira, það hefur verið rannsakað fleira. Jafnvel þó að ekki verði úr því að byggja hér alúminíumverksmiðju eða koma upp stóriðju hér sunnanlands, þá verður að virkja til almenningsnota. Og einmitt þess vegna var einnig athugað að virkja aðeins 80 þús. kw. við Búrfell, ef hætt væri við að koma upp stóriðju, alúminíumverksmiðju eða öðrum iðnaði, eða þá að sá iðnaður væri settur upp fyrir norðan, en ekki hér fyrir sunnan. Og mig undrar það, að hv. þm., þegar hann hefur fengið, að ég ætla, fullnægjandi svör við fyrirspurninni, og það liggur fyrir, að sú till., sem hér var samþ. fyrir rúmlega ári, hefur verið framkvæmd, að það skuli þá vera gerð tilraun til þess að snúa út úr og beita geiri sinum þá að fagmönnunum, sem unnið hafa að þessu, eins og verkfræðingunum, þegar þeir eru hér að spyrja að því, hvernig að því hafi verið unnið að athuga hafnarskilyrði, að það skuli hafa verið rennt augum yfir kort af landinu og strandlengjunni. Er nokkuð undarlegt, þó að það sé nú gert svona í fyrstu? Er hægt að gera það blindandi? Þeir, sem sjá illa, mundu setja upp gleraugu áður. Þess vegna held ég, að við ættum að koma umr. úr þessum farvegi, sem hv. þm. reyndi að koma þeim í, þ.e. að látast ekki skilja það, sem búið er að segja um þetta, og reyna heldur að gera sér grein fyrir því, að að þessu máli hefur verið unnið af alvöru og festu með því að leita að því bezta og hagkvæmasta, og ég gæti hv. þm. til geðs. lesið aftur lokaorðin í þeirri skýrslu, sem ég fór með hér áðan, en ég held þess gerist ekki þörf.

Við eigum von á þessum athugunum um næstu áramót, hvernig er með virkjunarskilyrði í Jökulsá og í Þjórsá. Við eigum von á upplýsingum um það, hvar hafnarskilyrði eru bezt bæði norðanlands og sunnan, en það hefur verið sagt frá því, að helzt kæmi til greina við Eyjafjörð, eins og ég las upp í skýrslunni áðan. Og ég tel ekki nokkra ástæðu til þess að svo komnu máli að segja meira um þetta. Ég hygg, að flestir hv. þm., sem hlustað hafa á svörin við fsp., flestir hv. þm. hér inni telji þau eftir atvikum alveg fullnægjandi, eins og á stendur.