19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

1. mál, fjárlög 1963

Finnbogi R. Valdimarsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þess fjárlfrv., sem hér liggur fyrir, flutti ég ásamt hv. 4. þm. Reykn. 3 brtt. við frv., sem allar snertu framlög til skólabygginga, nýrra skólahúsa í Kópavogi. Við tókum þessar till. allar aftur til 3. umr., og ég sé nú, að hv. fjvn. hefur við nánari athugun málanna milli umr. tekið upp eina af till. okkar í till. sínar við þessa umr. Það er framlag til eins nýs skólahúss í Kópavogi. Við hv. 4. þm. Reykn. flytjum því enn að nýju tvær brtt. okkar, sem við fluttum við 2. umr., og eru þær á þskj. 218, IX, og XII. till. á því þskj. Þær eru um framlög úr ríkissjóði til tveggja nýrra áfanga skólabygginga í Kópavogi, til 3. áfanga barnaskóla á Kársnesi og 3. áfanga gagnfræðaskóla.

Það kann að vera, að einhverjum finnist, að þegar samþ. er hér á Alþingi tillag til eins nýs skólahúss á einum stað, þá ætti það að vera nægilegt. En í augum kunnugra er það alveg ljóst, að svo er ekki í þessu tilfelli.

Ég þori að fullyrða það strax, að ef brtt. okkar, sem ég hef nú getið um, verða felldar, þá verður þar með stofnað til fullkomins öngþveitis í skólamálum í Kópavogskaupstað, til þess vandræðaástands þegar á næsta skólaári, að þar verði ekki hægt að halda uppi lögboðinni fræðslu fyrir börn og unglinga. Ég vil hvorki væna hv. fjvn. né neina aðra um það, að þeir vilji vitandi vits stofna til þvílíks ástands á neinum stað í þessu landi. En það kann að vera, að hv. fjvn.-mönnum veitist örðugt að setja sig inn í það sérstaka ástand, sem ríkir í Kópavogi í þessum efnum. Mér er hins vegar kunnugt um það, að sérfræðingar og ráðunautar hæstv. ríkisstj. í fræðslumálum og í skólamálum hafa gert sér þetta ljóst og hafa gert till., sem fara í sömu átt og þær brtt. okkar, sem ég hef getið um og við flytjum hér. En þessum embættismönnum ríkisstj. er það auðvitað skyldast að fylgjast svo náið með ástandi fræðslumálanna og framkvæmd þeirra á hverjum stað, að Alþingi verði það ljóst, og gera um það till. til Alþingis, svo að Alþingi verði það ljóst, að ekki sé stofnað beinlínis til þvílíks öngþveitis, að ekki sé unnt að halda uppi lögboðinni fræðslu í einum af kaupstöðum landsins vegna skorts á skólahúsnæði. Sökin á þessu hvílir ekki á viðkomandi sveitarstjórn, heldur eingöngu á yfirstjórn fræðslumálanna og hv. Alþingi, hæstv. ríkisstj. og hennar flokkum.

Áður en ég vík að því að færa nánari rök að þeirri fullyrðingu minni, að hér sé, ef brtt. okkar verða felldar, beint stefnt að þvílíku öngþveiti í fræðslumálum í einum af stærstu kaupstöðum landsins, þá vildi ég minna lítils háttar á þau lagaákvæði, sem gilda um framlög ríkissjóðs til skólabygginga, þó að ég geri ráð fyrir að flestum hv. þm. séu þau raunar kunn. Í l. frá 1955 um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, segir í fyrsta lagi, að ríkissjóður greiði hálfan stofnkostnað við heimangönguskóla barnafræðslustigs og gagnfræðastigs. Þó gerir ríkissjóður þetta ekki jafnóðum og byggingarnar rísa upp. Nei, honum er aðeins skylt að inna sitt framlag, helming kostnaðar, af hendi á fimm árum. Innan 5 ára, eins og segir í l., frá því að fyrsta framlag er innt af hendi, á ríkissjóður að hafa lokið greiðslu að sinum hluta. Þetta þýðir það, að ríkissjóður tekur lán hjá viðkomandi sveitarfélögum, fátækum sveitarfélögum, í allt að 5 ár til þess að byggja skólahús, þau skólahús, sem ríkissjóði ber þó samkv. l. að greiða að hálfu og hann vill eiga að hálfu. Ég hygg, að þessi ákvæði í l. um, að ríkissjóður taki þannig lán til sinna framkvæmda hjá fátæku sveitarfélagi, séu nokkuð fágæt í menningarlöndum. En þetta hefur sem sagt verið í íslenzkum lögum frá því árið 1955. En í þessum l. segir einnig, að Alþingi ákveði hverju sinni, til hvaða skólaframkvæmda stofnkostnaðarframlag er veitt, og að viðkomandi sveitarfélögum sé ekki heimilt að hefja framkvæmdir við byggingu skólahúsa, fyrr en fjárveitingar eru fyrir hendi, og ef framkvæmdir við byggingu skólahúsa eru hafnar af viðkomandi sveitarfélagi án þess, að fjárveiting sé fengin til þess, segir í 1., þá er sú bygging, þá er sú framkvæmd ríkissjóði óviðkomandi með öllu. Viðurlögin fyrir sveitarfélögin eru þau, að þá fá þau engan eyri greiddan af stofnkostnaði þessara skólahúsa, sem allajafna skiptir nú millj. kr. Ef sveitarfélag, stórt eða lítið, stendur frammi fyrir því, að þar verði ekki haldið uppi lögboðinni fræðslu, nema hafin sé bygging skólahúss í tæka tíð, en Alþingi eða fræðslumálastjórnin vili ekki á það fallast, að svo sé, þá liggja þessi viðurlög við, og er augljóst, að þetta er sama sem fullkomið bann fyrir sveitarfélögin við því að hefja nokkrar skólabyggingar, hvernig sem á stendur, nema fyrsta fjárveiting sé fengin hjá Alþingi. Og það er einmitt þetta atriði, sem skiptir svo miklu máli að því er Kópavog snertir, eins og ég skal nú koma að.

Kópavogur er nú þriðji stærsti kaupstaður landsins utan Reykjavíkur. Akureyri og Hafnarfjörður eru aðeins stærri. En Kópavogur hefur þá sérstöðu miðað við aðra stærstu kaupstaði landsins, að hann hefur byggzt á rúmum hálfum öðrum áratug, en hinir aðrir hafa verið að byggjast á hálfri öld a.m.k. Í Kópavogi hefur því orðið að byggja allar opinberar byggingar á síðustu 10–15 árum, þ. á m. öll skólahús. Kópavogur hefur ekki vanrækt skyldur sínar um að byggja skólahús. Þar eru þegar 3 stór skólahús, 2 barnaskólar með 25 kennslustofum og 1 gagnfræðaskóli með 11–12 kennslustofum. Í þessum skólum eru hins vegar 1600 börn og unglingar, en það þýðir, að þessir skólar eru þegar fullskipaðir, þegar í dag, einn þeirra svo, að þar verður engu barni við bætt með nokkru móti, en þar er hver skólastofa notuð til fulls þrisvar sinnum á dag.

Kópavogur hefur þá sérstöðu meðal kaupstaða landsins, að þar eru hlutfallslega fleiri börn og unglingar á skólaskyldualdri en í nokkrum öðrum kaupstað landsins. Eins og ég sagði, eru þar 1600 börn og unglingar á skólaskyldualdri, eða allt að fjórðungi íbúanna. Þetta mun vera einsdæmi, að ég hygg. Kópavogur hefur einnig þá sérstöðu, jafnvel nú hin síðustu ár, þegar allmikið hefur dregið úr byggingarframkvæmdum almennings, að þar hefur þetta ekki gerzt, þar hefur ekki dregið verulega úr byggingarframkvæmdum almennings, og liggja til þess sérstakar ástæður. Fjölgun í Kópavogi hefur verið um 600 manns á ári og verður ekki langt frá því næstu árin. Kópavogur hefur einnig sérstöðu að því leyti, að þar er ekkert leiguhúsnæði að fá, þó að sveitarstjórn vildi reyna að fá leiguhúsnæði til skólahalds. Þar er það ekki til. Aðrir kaupstaðir geta gert það. Reykjavíkurbær hefur t.d. bjargað sér með því að taka leiguhúsnæði í stórum stíl fyrir skólahald hér. En sú lausn kemur ekki til mála í Kópavogi. Ef það skólahúsnæði, sem sveitarfélag og ríki byggja, er ekki fyrir hendi, þá er ekki í annað hús að venda, þá er ekki hægt að inna af höndum lögboðna fræðsluskyldu. Og eins og ég sagði áðan, eru barnaskólarnir tveir í Kópavogi þegar í ár fullskipaðir, svo að þar verður ekki við bætt.

Ég hef fyrir framan mig sérstaka samþykkt, sem bæjarstjórnin í Kópavogi gerði, þegar er henni varð kunnugt, eftir að fjárlfrv. kom hér til 2. umr. á Alþingi, að þar væri ekki gert ráð fyrir neinum framlögum til nýrra skólabygginga í Kópavogi. Þar er bent á þá staðreynd, að börn á skólaskyldualdri séu nú 1600 eða tæpur fjórðungur íbúanna og að báðir barnaskólar bæjarins séu þrísetnir nú þegar. En það er auk þess kunnugt, eins og ég drap á áðan, að það má reikna með því með fullri vissu, að á næsta ári bætist við tölu skólaskyldra barna og unglinga í Kópavogi 150–200 börn og unglingar.

Það er nálega sama að segja um gagnfræðaskóla, sem er nýbyggður í Kópavogi. Hann verður fullskipaður og meira en það þegar á næsta ári og ekkert líklegra en að þegar á næsta hausti verði að vísa þaðan burt unglingum úr Garðahreppi, sem hefur verið skotið skjólshúsi yfir, og ég tel alveg vafalaust einnig a.m.k. þeim unglingum á gagnfræðaskólaaldri, sem ættu að fá þar kennslu í fjórða bekk gagnfræðaskóla.

Hv. fjvn. hefur tekið upp í sínar till. framlag til eins barnaskóla. Þetta er algerlega ófullnægjandi og mun alls ekki koma í veg fyrir það, að það verði þegar á næsta hausti að visa bæði börnum og unglingum frá skólum í Kópavogi. Bæjarstjórnin í Kópavogi hefur með sérstakri samþykkt, sem að vísu er stíluð til þm. kjördæmisins og hefur verið send þeim öllum, bent á þessar staðreyndir.

Ég vil vekja athygli á því, um leið og ég mæli fyrir brtt. okkar hv. 4. þm. Reykn., hversu alvarlega horfir í þessum efnum. Ég vil endurtaka það, að ég trúi því ekki, að fræðslumálastjórnin í landinu undir forustu hæstv. menntmrh. vilji vitandi vits stefna að því, að ekki sé hægt að halda uppi lögboðinni fræðslu í einum af stærstu kaupstöðum landsins. Honum, hv. fjvn. og hv. Alþingi hefur verið gert það ljóst, að að þessu stefnir. Þetta er alveg víst.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þessar till. Ég vil ekki trúa því enn, að hv. meiri hl., sem hér ræður, vilji taka á sig ábyrgðina á því og þar með hæstv. menntmrh. að stofna til slíks neyðar- og vandræðaástands, sem fyrirsjáanlegt er í Kópavogskaupstað, ef brtt, okkar hv. 4, þm. Reykn, verða felldar.