27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í D-deild Alþingistíðinda. (3326)

148. mál, launakjör alþingismanna

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. um launakjör alþingismanna. Þetta hef ég gert m.a. af því, að ég tel launakjör þingmanna orðin ósæmilega lág. Þau hafa hlutfallslega farið lækkandi ár frá ári miðað við önnur launakjör hér á landi, og hafa þau þó einnig farið rýrnandi að raunverulegum kaupmætti á seinustu árum.

Um seinustu aldamót hygg ég, að þingfararkaup hafi verið u.þ.b. fjórum sinnum hærra en almennt verkamannakaup var þá. En nú skortir mjög mikið á, að það hlutfall haldist. Þó er þess að gæta, að með tilkomu stóru kjördæmanna eftir síðustu kjördæmabreytingu hefur tilkostnaður þingmanna við þingmannsstarfið margfaldazt, og kemur þar ekki aðeins til aukinn ferðakostnaður, heldur og margt annað. Meðaltal þingfararkaups s.l. 3 ár telst mér til, að hafi verið um 53 þús. kr. á ári. Af því er líka fengin margföld reynsla, að bændur geta ekki sér að skaðlausu farið frá búum sinum til þess að gegna þingmennsku og enn síður embættismenn, sem kaupa þurfa menn í sinn stað til þess að gegna embættinu, meðan þeir sitja á þingi. Þetta geta hvorugir sér að skaðlausu, segi ég, fyrir þau launakjör, sem þm. búa nú við. Það er því staðreynd, að launakjörin geta haft mjög takmarkandi áhrif á það, hverjir yfirteitt hafa efni á því að sitja á þingi.

Flestir, sem um þessi mál hugsa, munu fyrir alllöngu hafa gert sér ljóst, að þingfararkaupið yrði að hækka og það allverulega. Ég hygg, að það sé rétt, að fyrir um það bil tveimur árum hafi skrifstofustjóri Alþingla verið beðinn að afla upplýsinga um launakjör þm. í nokkrum nágrannalandanna. Þetta verk mun skrifstofustjórinn áreiðanlega hafa unnið og innt af hendi af nákvæmni og samvizkusemi, eins og öll þau störf, sem hann vinnur, og tel ég æskilegt, að meginefni þeirra upplýsinga, sem hann viðaði að sér, fáist nú gert opinbert hér á hv. Alþingi sem svar við þessari fsp. minni.

Það virðist sjálfsagt, að nokkur hliðsjón sé höfð af launakjörum þjóðþingsmanna í öðrum löndum, þegar Alþingi endurskaðar launakjör atbingismanna.

Ég hef það fyrir satt, að ríkisstj. hafi fyrir meira en ári skipað nefnd til að semja frv. um launakjör alþm. N. mun hafa samið frv. til l. um þingfararkaup og skilað því frá sér í hendur ríkisstj. á næstseinasta þingi. Mjög var þá látið í veðri vaka, á næstsíðasta þingt. að launakjör þm. mundu þá verða leiðrétt, en við það var ekki staðið að öðru leyti en því, að þingmönnum utan Reykjavíkur skyldi greidd nokkur upphæð upp í ferðakostnað sinn. Nú er mjög áliðið þessa þings, og enn hefur ekki heyrzt, að ríkisstj. hyggist afgreiða málið á þessu þingi. Þess vegna taldi ég tímabært að spyrja forsrh. um það, hvað ríkisstj. hygðist fyrir í málinu á þessu þingi. Ég skal ekki fara í launkofa með það, að ég er þeirrar skoðunar, að leggi ríkisstj. ekki málið fyrir þetta þing, þá eigi alþm. úr öltum flokkum að bera málið sjálfir fram og tryggja því viðunandi lausn með tilliti til launakjara fólks í landinu og með nokkurri hliðsjón af launakjörum þm. í nágrannalöndum.

Fsp. hljóðar svo, með leyfi hæstv, forseta: „a) Hvað hyggst ríkisstj. fyrir um lagfæringu á launakjörum alþm. á yfirstandandi þingi?

b) Hvaða upplýsinga hefur skrifatofa Alþingis aflað sér, vegna undirbúnings málsins, um launakjör og fríðindi þm, í nágrannalöndunum, og gefa þær upplýsingar vísbendingu um, hvort ástæða sé til leiðréttingar á þingfararkaupi alþingismanna?“

Ég vil vona, að góð og ýtarleg svör fáist við þessum fsp., og tel málið tímabært, eins og sakir standa.