27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3335)

160. mál, bygging þverárbrautar á Vestmannaeyjaflugvöll

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin, sem hér um ræðir, er í þremur liðum:

Í fyrsta lagi er spurt, hvenær sé ráðgert að fullgera 600 m áfanga af þverbraut á Vestmannaeyjaflugvöll. Það hefur nú farið fram athugun á þessu máli allrækileg, og verkfræðingur flugmálastjórnarinnar, Ólafur Pálsson, telur möguleika á því að ljúka, verkinu á næsta ári, sennilega fyrri hluta næsta árs.

Þá er spurt að því, hversu mikið þessi hluti þverbrautarinnar muni kosta. Og svar við því er samkv, áætlun Ólafs Pálssonar 4.7 millj. kr., það sem eftir er að vinna, en varið hefur verið til þverbrautarinnar 1 millj., og verður þá heildarkostnaður 5.7 millj. kr.

Þá er einnig spurt að því, hversu mikið fé sé handbært til þessara framkvæmda á þessu ári. Því er til að svara, að flugráð hefur ekki enn gert till. um það, hvernig því fé, sem nú er á fjárlögum, skuli varið á þessu ári. Og meðan ekki hefur verið gerð till. um það og ákvörðun tekin um það, þá er ekki hægt að segja um, hversu mikla fjárhæð Vestmannaeyaflugvöllur fær af því fé, sem er á fjárlögum þessa árs. En það mætti kannske huga sér að þoka þessu verki áfram, án þess að það væri unnið að öllu leyti fyrir fjárveitingu á þessu ári. Það er unnt tæknilega að ljúka verkinu á fyrri hluta hæsta árs, og kostnaðurinn er 4.7 millj. kr.

Ég tel mjög æskilegt að halda sér að því að ljúka verkinu svo fljótt sem unnt er, m.ö.o. að halda verkinu áfram, þangað til því er lokið. En með tilliti til þess, hversu flugmálastjórnin hefur í mörg horn að líta, þegar um það er að ræða að skipta þeirri fjárveitingu, sem er á fjárlögum, þá verður ekki unnt að halda stöðugt áfram verkinu í Vestmannaeyjaflugvelli með það fyrir augum að ljúka því á fyrri hluta næsta árs, nema taka nokkurt fé að láni í því skyni. Og það tel ég mjög vera tiltækilegt og sjálfsagt að taka til rækilegrar athugunar, og það er óhætt að segja, að flugmálastjórnin hefur haft þetta í hyggju og ákveðið að útvega fé með einhverjum hætti í Vestmannaeyjaflugvöll. Og það, sem sérstaklega rekur nú á eftir að ljúka þessum áfanga, 600 m braut, er, að nú sjáum við möguleika til þess, að þessi braut, þótt hún verði ekki lengri, gæti komið að fullum notum fyrir Vestmannaeyjar. Áður var talað um að byggja lengri braut, sem mundi kosta a.m.k. 20 millj. kr., þar sem Dakotavélar gætu örugglega lent. En nú er Björn Pálsson að kaupa flugvél til landsins, sem getur örugglega lent og tekið sig upp á 600 m braut. Með því er unnt að leysa samgöngumál Vestmannaeyja í bráð með þessum 600 m. Ég hef rætt þetta mál við Björn Pálsson. Ég hef einnig rætt það við Flugfélag Íslands, og það virðist ekkert vera til fyrirstöðu um, að það verði tekin upp samvinna á milli Flugfétags Íslands og Björns Pálssonar um flug til Vestmannaeyja, þegar Flugfélagið getur ekki flogið þangað, og þannig mætti fjölga flugdögum til Vestmannaeyja kannske um helming eða meira. Einmitt með tilliti til þess, að 600 metra braut kemur að fullum notum fyrir Vestmannaeyjar eða miklu meiri notum en áður hafði verið hægt að hugsa sér, á meðan Björn var ekki kominn til skjalanna með sína nýju vél, þá rekur það enn meira á eftir að ljúka þessum áfanga, og ég tel sjálfsagt að ljúka þessum áfanga á næsta ári.

En ég vil benda á, að það er margt, sem er í að horfa. Það þarf t.d. ýmislegt að gera við Akureyrarflugvöll á þessu ári, það þarf að gera ýmislegt á Egilsstöðum, að ég nefni ekki Reykjavíkurflugvöll. Á s.l. ári var hafin flugvallargerð á Patreksfirði, og þá var gert ráð fyrir, að sá flugvöllur þyrfti að vera 900–1000 m langur, en viðhorfið hefur breytzt með tilkomu flugvélar Björns Pálasonar. Það má vel vera, að Patreksfirðingar geti látið sér nægja þá 600 m, sem eru komnir þar, með tilliti til þess, að Björn geti flogið þangað. Bíldudalur er að biðja um flugvöll. Þar er sjúkraflugvöllur, og það þarf ekki mikið að gera þar, til þess að Björn geti lent þar einnig. Á Þingeyri er 600 m braut, og þar þarf ekkert að gera, til þess að Björn geti haft þar stöðugar viðkomur. í Önundarfirðinum liggur vel við að gera flugbraut á sléttum bökkum, og ætti ekki að þurfa að kosta mikið, til þess að Björn gæti komið þar. Á Hólmavík er nægilega stór flugvöllur fyrir Dakotavélar, og þarf ekkert þar að vinna. Siglfirðingar eru að biðja um flugvöll. Þar er lítill sjúkraflugvöllur, en það var gert ráð fyrir að gera þar flugvöll fyrir Dakotavélar, en viðhorfið hefur breytzt með tilkomu vélar Björns Pálssonar, þannig að nú mun vera unnt að gera flugvöll á Siglufirði fyrir miklu minna fé en áður var hugsað. í Hornafirði er talið nauðsynlegt að gera nýjan flugvöll til þess að losna við að flytja yfir ósinn, eins og gert hefur verið, og er það mikill kostnaður, sem því fylgir, og óþægindi. Á s.l. hausti var hafizt handa um að gera sjúkraflugvöll fyrir ofan kauptúnið. Það kostar tiltölulega lítið fé að gera þar 600 m braut, og er sérstaklega gott flugvallarstæði þar fyrir stærri vélar.

Ég nefni þetta hér aðeins til þess að sýna fram á, hversu verkefnin eru mikil, og þó að fé til flugvalla hafi verið aukið verulega hin síðari ár, um 100% miðað við 4 síðustu árin, þá náttúrlega þyrfti það að vera meira. En ég hygg, að með góðu skipulagi megi gera allmikið og bæta mikið úr samgöngum hinna fjarlægu staða með því að láta sér nægja á hinum afskekktari stöðum 600 m brautir til að byrja með, svo að Björn gæti leyst samgöngumál þeirra staða núna fyrst um sinn, og þannig gætu sparazt jafnvel milljónatugir í flugvallagerð næstu árin, miðað við, að það hefði þurft að byggja flugvelli fyrir Dakotavélar á öllum þessum stöðum, sem ég hef nefnt.

Það er alveg óþarfi að endurtaka það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði hér áðan um sérstöðu Vestmannaeyja. Hún er vitanlega alveg augljós, að Vestmannaeyjar þurfa að fá betri flugsamgöngur en þær hafa haft. Flugdagar til Vestmannaeyja eru fáir, hljóta að vera fáir, á meðan aðeins er um eina flugbraut að ræða, og flugmálastjórnin hefur gert sér grein fyrir þessu, og þess vegna hefur verið hafizt handa með flugvallargerðina, miðað við, að það þurfi ekki að hætta við það starf, fyrr en verkinu er lokið. Til þess að þessi áætlun geti staðizt, áætlun verkfræðingsins, er ekki svo ýkjamikið, sem þarf til að koma. Það eru tvær jarðýtur, tvær bifreiðar og ein vélskófla og einn stór rafmagnsbor, sem þarf að nota stöðugt við þessar framkvæmdir, til þess að verkinu geti orðið lokið á næsta ári. Og það eru 4.7 millj., sem þarf til þess að ljúka verkinu, og með því að skipta greiðslunni á 3 ár, nota fjárveitingu þessa árs að einhverju leyti og næsta árs að nokkru leyti og jafnvel að taka svo lán fyrir þriðja hlutanum, þá er vel hægt að ljúka þessu, og ég tel, að það verði mögulegt að fá lán, til þess að ekki verði gengið á hlut annarra landshluta með því að taka of mikið af því takmarkaða fé, sem við höfum yfir að ráða, til Vestmannaeyjaflugvallar.