27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í D-deild Alþingistíðinda. (3336)

160. mál, bygging þverárbrautar á Vestmannaeyjaflugvöll

Fyrirspyrjandi (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hæstv. flugmrh. fyrir greið svör og fyrir þau ummæli hans, að hann teldi sjálfsagt að ljúka þessum áfanga á næsta ári. Og ég vil taka undir þá skoðun hans, að ég held, að það væri sjálfsagt og réttmætt. Hins vegar leyfi ég mér að láta í ljós áhyggjur af þeirri miklu áherzlu, sem mér fannst hæstv. ráðh. leggja á þær miklu þarfir, sem væru annars staðar á landinu til flugvallagerða. Mér er fullkomlega ljóst, ef rétt er það, sem ég hef heyrt, að vísu óstaðfest, að nú þegar væri búið allt að því að ávísa eða taka lán og vinna fyrir fram úti um það bil 9 millj. af þeim 12, sem mun vera varið á fjárl. til flugvallagerða á landinu, þá er augljóst, að það verður ekki mikið til skiptanna, þegar flugmálastjórn fer að skipta þessum aurum, sem eftir verða, niður á ákveðna staði. Spurningin er að meta, hvar mest sé þörf og brýnust að ljúka þeim verkum, sem verið er að vinna að, ekki endilega að dreifa fjármagni á sem flesta staði, þannig að fáir staðir komist í not á þeim tíma, sem e.t.v. væri unnt að fullljúka við verk á fáum stöðum, og að meta réttilega, hvar mest þörf sé á flugbrautum og hvaða brautir komi að mestum notum. Það er sagt, án þess að ég viti það, að flugvöllur, sem kostaður hefur verið og byggður á Norðfirði og nú er verið að keppast við að ljúka, muni e.t.v. koma í sáralitlar þarfir, af því að á þann flugvöll verði yfirleitt ekki flogið vegna erfiðra aðstæðna.

Ég vil undirstrika þá skoðun, sem kom fram í þáltill. minni 1960, að réttmætt væri að afla lánsfjár til að fullgera þessa flugbraut, sem byrjað hefur verið á, þessar 4.7 millj., og má kannske segja, að ég hafi hálfpartinn gert mér vonir um, að á þeim tíma, sem liðinn er, frá því að fsp. var lögð fram hér á þinginu, þangað tu henni yrði svarað, hefði kannske verið hægt að fá óyggjandi heimildir, óyggjandi loforð eða vilyrði fyrir því lánsfé, sem til þyrfti og á þyrfti að halda. Ég þakka fyrir greið svör.