27.02.1963
Sameinað þing: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3338)

160. mál, bygging þverárbrautar á Vestmannaeyjaflugvöll

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þær umr., sem hér hafa farið fram varðandi fsp. um Vestmannaeyjaflugvöllinn, gefa mér tilefni til að koma hér að örlitlum aths., eða réttara. sagt: ég get ekki látið þær ganga svo um garð hér á þinginu, að ég geri ekki við þær nokkrar aths.

Í fyrsta lagi hefur það upplýstst í þessum umr., að það fé, sem á fjárlögum er ætlað til flugvallagerða, um það liggja ekki fyrir neinar áætlanir frá flugmálastjórninni, hvernig því verður varið á. árinu, og eru þó þegar liðnir tveir mánuðir af árinu, og sjá allir, að hér er um bagalega seinfær vinnubrögð að ræða. — Vil ég í leiðinni endurtaka óánægju mína, sem ég lýsti hér yfir við afgreiðslu fjárlaga, yfir því, að lagður hefur verið niður sá siður, sem ég tel sjálfsagðan, að fjvn. geri með fjárlögum till. um það, hvernig fjármagn til flugvallagerðar í landinu eigi að skiptast frá ári til árs. En sem sagt, frá þessu hefur verið horfið, ag leyfi ég mér að harma það og tel, að hér hafi þegar komið fram, að þetta veldur allt of miklum seinagangi á áætlanagerð um framkvæmdir við flugvallabyggingar í ár.

Það er rétt, sem hæstv. samgmrh. sagði hér, að fé á fjárl. til flugvallagerðar hefur hækkað yfir 100% nú á skömmum tíma og er reyndar eina framkvæmdaféð til samgöngumála á fjárl., sem hefur haldið sínu hlutfalli við hækkun fjárl. á síðustu árum. Þeim mun auðveldara hefði átt að vera að standa við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið um framkvæmdir á þeim nauðsynlega flugvelli í Vestmannaeyjum. En því miður er mikla sorgarsögu að segja af því.

Hv. 3. þm. Sunnl. skýrði frá því heima í Vestmannaeyjum, og var það birt í blaði þar vorið 1960, að hann hefði orð flugmálastjórnarinnar fyrir því, að það hið sama vor yrði byrjað á þverbrautargerð við flugvöllinn í Vestmannaeyjum. því miður reyndist þetta ekki svona í framkvæmd. Það leið allt það ár og allt næsta ár, án þess að hreyfð væri hönd í þá átt að byggja þverbraut á þann flugvöll. Það var ekki fyrr en seinast á árinu sem leið, að hafizt var handa og þá ekki fyrir fé, sem flugmálastjórnin reiddi út til þeirrar framkvæmdar, heldur fyrir lánsfé, sem Vestmannaeyjakaupstaður lagði sjálfur til verksins. En því miður er ekki hægt einhliða að fagna þeirri framkvæmd, vegna þess að hún virðist fyrst og fremst hafa komið niður á. flugvallarviðhaldinu á þeirri braut, sem fyrir er í Vestmannaeyjum, því að það hefur aldrei komið fyrir fyrr en einmitt á yfirstandandi vetri, að sú braut yrði vegna ónógs viðhalds ófær til afnota á miðjum vetri. En það hefur nú komið fyrir í vetur, og virðist sem sagt svo, að þegar flugmálastjórnin fékk af höndum reitt lánsféð frá Vestmannaeyjum til þess að byrja á þverbrautargerðinni, þá hafi hún með öllu vanrækt ekki einasta að leggja fé til þess sjálf, heldur einnig að viðhalda þeirri flugbraut, sem fyrir var, svo að ástandið í flugmálum Vestmannaeyja hefur aldrei verið verra en í vetur, síðan flugvöllurinn var tekinn þar í notkun. Ég vil leyfa mér að vekja athygli á þessu við þessar umr. og alveg sérstaklega beina því til hæstv. flugmrh., að hann gefi þessu gaum og geri ráðstafanir til þess, að hér verði bætt úr.

Ég fagna því, ef það reynist rétt, sem hér hefur verið borið í mát, að nú mundi nægja að byggja þverbraut á Vestmannaeyjaflugvöll fyrir 5.7 millj., í stað þess, að áður var ráðgert, að slík braut, ef að notum mætti koma, þyrfti að kosta 20 millj. Það er að sjálfsögðu öllum fagnaðarefni, ef hér hafa orðið þær tæknilegu framfarir, sem tryggja eitthvað svipuð not af 500 m flugbraut og menn töldu áður þurfa miklu lengri braut til að framkvæma áætlunarflug á. Hinu vil ég vekja athygli á, að ég tel vafasama þá leið, sem hæstv. flugmrh. bendir hér á, að upp verði tekin samvinna milli Flugfélags Íslands og einkaflugmanns, Björns Pálssonar, og að slík samvinna geti fullnægt samgöngum við Vestmannaeyjar á þann hátt, að Flugfélagið fljúgi þegar fært er þangað á stórum vélum, an Björn Pálsson fljúgi þangað á sinni vél, þegar ekki er fært á stóru vélunum. Svona einfalt er málið því miður ekki. Og ég vildi nú biðja hæstv. flugmrh. að hugsa sér tilvik, eins og mjög er algengt um Vestmannaeyjaflugið, Flugfélag Íslands kallar út sína farþega í Reykjavík einn góðan veðurdag og þeir stíga upp í flugvél félagsins hér á flugvellinum, leggja af stað til Vestmannaeyja, en þegar búið er að fljúga hluta af leiðinni eða kannske um það bil alla leiðina, þá kemur það upp úr dúrnum, að vindátt hefur breytt sér eitthvað í Vestmannaeyjum, en það er ekki sjaldgæft fyrirbrigði, og það er ekki hægt að lenda þeirri vél, sem þangað er máske komin, og hún verður að snúa aftur til Reykjavíkur. Þá skilst mér, að farþegarnir ættu að fara yfir í flugvél Björns Pálssonar, minni vél. Það er auðvitað hæpið, hvort þeir kæmust þangað allir, sumir ættu kannske að fara heim til sín eða á hótel sín að nýju og bíða betri tíma. En auk þess skýrði ráðh. frá því hér í ræðu sinni, að það væri ekki fyrirhugað, að Björn Pálsson flygi bara til Vestmannaeyja, heldur eru tilnefndir fjölmargir aðrir staðir, sem honum er einnig ættað að fljúga á á einni og sömu vélinni, að því er mér skilst, og mætti þá vel svo fara, að flugvél hans væri æði langt undan og ekki til þess búin að taka við farþegunum, sem ekki gátu lent í hinni stóru véi. Ég vil vekja athygli flugmrh. á því, að það er að sjálfsögðu ágætt að geta hugsað sér ódýrar lausnir á málum, en ég er ekki trúaður á það, að sú lausn, sem hann hér hefur tilnefnt, sé nein raunveruleg lausn á samgönguerfiðleikum Vestmanneyinga, þar þurfi að taka miklum mun fastar á.