19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

1. mál, fjárlög 1963

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á þskj. 210 flytjum við hv. 5. þm. Reykn. tvær till., nr. IV og XVII.

Till. nr. IV gengur út á það, að á fjárl. ársins 1963 verði tekin fjárveiting til öryggisráðstafana á Reykjanesbraut í Kópavogi, að fjárhæð 500 þús. kr.

Eins og hv. alþm, e.t.v. vita, er Reykjanesbrautin ein sú mesta umferðaræð, er þekkist hér á landi. Hún liggur frá Reykjavík í gegnum Kópavog og Garðahrepp, Hafnarfjörð og suður á Suðurnes. Um þennan veg fara daglega þúsundir bíla, og það vill svo vel til, að vegna þeirrar umferðarkönnunar, sem framkvæmd var hér á s.l. hausti, vitum við nokkurn veginn upp á bifreið, hversu margar þær eru, sem fara þarna um daglega.

Samkvæmt niðurstöðum umferðartalningar, sem gerð var í Kópavogi dagana 12. og 13. sept. s.1., lítur dæmið þannig út, að frá Reykjavík og inn í Kópavog fóru þann 12. sept. 5584 bifreiðar, og sunnan megin frá, frá Suðurnesjum og Hafnarfirði og inn í Kópavog að sunnanverðu, fóru 5465 bifreiðar, þannig að um Reykjanesbrautina, þar sem hún liggur í gegnum Kópavog, fóru samtals þennan eina dag um 11050 bifreiðar á tímabilinu frá kl. 7 að morgni til kl. 1 eftir miðnætti.

Af þessari umferð, sem fór um Reykjanesbraut í Kópavogi og kom frá Reykjavík, fóru 2426 bifreiðar suður úr Kópavogi og áfram til Hafnarfjarðar og suður á Suðurnes, og af bifreiðum, sem komu frá Hafnarfirði og af Suðurnesjum og fóru í gegnum Kópavog, héldu 2483 áfram til Reykjavíkur og annarra staða fyrir norðan Kópavog eða sem sagt af þeirri umferð, rúmum 11 þús. bifreiðum, sem fóru um veginn þennan dag, fór tæpur helmingur áfram út úr Kópavogi, annaðhvort norður fyrir hann eða suður fyrir hann. Ég hygg, að engin gata, er liggur í gegnum kaupstað, sé jafnfjölfarin bifreiðum og þessi.

Nú vill svo til, að Reykjanesbrautin liggur í gegnum Kópavog miðjan, hún skiptir bænum í svo að segja tvo jafnstóra hluta, og þannig háttar til, að í eystri hlutanum er einasti leikfimisalurinn, sem er að finna í bæjarfélaginu. Það þýðir m.a., að um 500 skólabörn, sem sækja skóla í vesturbænum, verða að fara yfir þessa fjölförnu götu oft í viku. Auk þess er staðsett austan vegarins félagsheimili Kópavogs, sem er miðstöð allrar menningarog skemmtistarfsemi í kaupstaðnum. Þessi gífurlega umferð yfir veginn af fólki og þessi gífurlega umferð bifreiða hefur skapað vandamál í Kópavogskaupstað, sem er gersamlega óviðunandi, og ég þarf ekki að minna hv. alþm. á þau tíðu slys, sem þarna hafa orðið á mönnum og farartækjum vegna hinnar miklu umferðar um þennan veg.

Ég hygg því, að ekki þurfi að deila um nauðsynina á að framkvæma þarna einhverjar aðgerðir til þess að draga úr þeirri slysahættu, sem þarna er fyrir hendi, og á fjárl, ársins 1962 voru veittar um 200 þús. kr. til byrjunaraðgerða í þessu skyni. Þær voru notaðar til þess að skipta Reykjanesbrautinni í tvær akreinar á háhæðinni. Þetta hefur gert umferðina greiðari yfir háhálsinn, þar sem hættan er mest, gert bílaumferðina hraðari yfir hálsinn og skapað þar af leiðandi jafnvel meiri hættu en var til staðar, áður en þessi aðgerð var framkvæmd, og þá ekki sízt fyrir þá sök, að það vantar mjög á að lýsa þennan kafla vegarins nægilega vel upp, og það hefur gerzt ítrekað, eftir því sem mér er tjáð, að bifreiðar, sem koma frá Reykjavík og upp á hálsinn að norðanverðu, hafa rekizt á þær eyjar, ef svo mætti kalla það, sem hafa verið gerðar þarna uppi á háhálsinum og skipta veginum í þessar tvær akreinar. Það er því alger lágmarkskrafa, að þarna verði komið á betri lýsingu, þó að það eitt út af fyrir sig sé hvergi nægjanlegt, og helzt þyrfti að koma þarna á umferðarljósum líka.

Sú fjárveiting, sem við hv. 5. þm. Reykn. leggjum til að veitt verði til þessara aðgerða, er 500 þús. kr. Við höfum engar sérstakar till. gert um það, hvernig eigi að verja þeim, til hverra aðgerða sé heppilegast að grípa til þess að forða því öngþveiti, sem þarna er til staðar. Við teljum, að eðlilega eigi trúnaðarmenn ríkisvaldsins og þá fyrst og fremst vegamálastjóri í samráði við bæjaryfirvöldin í Kópavogi að ákveða, í hverju aðgerðirnar eiga að felast.

Önnur till., sem við hv. 5. þm. Reykn. flytjum, er nr. XVII á sama þskj. Hún gengur út á það, að ríkisstj. taki allt að 30 millj. kr. lán og endurláni það landshöfninni í Keflavík og Njarðvíkum til hafnarframkvæmda. Eins og hv. þm. vafalaust vita, er landshöfnin í Keflavík og Njarðvík ein af mikilvægustu höfnum þessa lands. Hún liggur vel við auðugum fiskimiðum, sem eru rétt fyrir utan Reykjanesskaga. Í landshöfninni í Keflavík og Njarðvík hefur verið mjög lífleg og vaxandi bátaútgerð á undanförnum árum. Á s.l. ári var þannig landað í landshöfninni um 50 þús. smálestum af nýjum fiski, sem var þá 50% aukning á aflamagni því, sem lagt var þar á land árið á undan. Þetta var um 6.5% af öllu því aflamagni, sem lagt var á land á öllu landinu árið 1961. En landshöfnin er ekki einasta höfn fyrir bátaútveginn. Hún er líka útflutnings- og innflutningshöfn. Á árinu 1961 voru þannig flutt út útflutningsverðmæti að upphæð um 360 millj. kr. úr landshöfninni, eða um 12% af þeim sjávarafurðum, sem þá voru fluttar út frá landinu öllu.

Ég hygg, að þessar fáu tölur skýri betur en mörg orð mikilvægi þessarar hafnar, og það er staðreynd, að allir, er eitthvað þekkja til málanna, vita og viðurkenna, að hafnarrými er þarna allt of lítið og höfnin er allt of illa varin fyrir stórsjóum í vissum áttum og þá fyrst og fremst í suðvestanátt.

Nú mun vera aðstaða til þess að afgreiða samtímis um 10-15 fiskibáta í landshöfninni í Keflavík og Njarðvík, en á s.l. vertíð voru þar afgreiddir að meðaltali daglega fast að 100 bátar á dag. Þörfin er því ljós á auknum framkvæmdum við landshafnargerðina í Keflavík og Njarðvík. Á fundi, sem landshafnarstjórn og bæjarstjórn Keflavíkur og hreppsnefnd Njarðvíkur héldu í Keflavík 29. sept. s.1., var samþykkt. svo hljóðandi ályktun, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundurinn lýsir einhuga stuðningi við verkáætlun landshafnarstjórnar frá 1959 um byggingu hafnarinnar, þar sem gert er ráð fyrir, að hægt verði að afgreiða samtímis við góð skilyrði í fyrsta lagi 3 flutningaskip, í öðru lagi 25 fiskibáta af stærðum allt að 150 tonn, í þriðja lagi, að séð verði fyrir geymsluplássi innan hafnar fyrir allt að 150 fiskibáta að stærð 75–150 tonn. Fundurinn telur ástand í hafnarmálum svo alvarlegt, að stefna verði að því að ljúka fyrrnefndri áætlun á næstu fjórum árum. Til þess að svo megi verða, beinir fundurinn þeim eindregnu tilmælum til hæstv. ríkisstj., að hún taki þetta mikla hagsmunamál byggðarlaganna til skjótrar úrlausnar og útvegi fjármagn, um 50–60 millj. kr., svo að uppbygging hafnarinnar geti hafizt af fullum krafti þegar á næsta vori.“

Með hliðsjón af þessari framkvæmdaáætlun og minnkandi gildi krónunnar höfum við flm. lagt til, að á fjárl. ársins 1963 verði ríkisstj. heimilað að taka allt að 30 millj. kr. lán sem byrjunarlán til þeirra nauðsynlegu hafnarframkvæmda, sem ég hef verið að reyna að lýsa, að nauðsyn bæri til að framkvæma á næstu árum í Keflavík og Njarðvík.