19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 506 í B-deild Alþingistíðinda. (336)

1. mál, fjárlög 1963

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Á þskj. 221 er till., sú XIV. í röðinni á því þskj., sem ég hef leyft mér að flytja ásamt þeim hv. 4. þm. Sunnl. og hv. 6. þm. þess sama kjördæmis. Þessi till. er um breyt, á 17. gr., um það, að þar komi nýr liður: Til lagningar skolpveitna: a) Í Þorlákshöfn 500 þús. b) Í Hveragerði 500 þús. Ég vil nú leyfa mér að gera nokkra grein fyrir þessari till. í fáeinum orðum.

Eins og kunnugt er og ég veit, að allir þm. vita vei um, hefur risið upp í Þorlákshöfn nú á síðustu árum dálítið þorp. Ég hygg, þó að víða sé nú mikill afli og víða dregið mikið á land af sjávarafla, að þá sé óvíða, sem meira sé dregið á land miðað við mannfjölda en á þessum stað. Þar hygg ég að hafi átt heimili á s.l. ári innan við 200 manns, og talsverður hluti af því eru ung börn, en aflaverðmætið, sem var lagt í þjóðarbúið á þessum litla stað, mun hafa numið á milli 40 og 50 millj. kr. Eins og kunnugt er, þá er nú verið að hefja þarna hafnarframkvæmdir, og það má þess vegna gera ráð fyrir því, að þegar þeim hefur miðað það áfram, að þær fara að koma að verulegum notum, muni eiga sér þarna stað margföldun þeirra verðmæta, sem verða flutt á land. Fólk finnur, að þarna muni vera gott að bjarga sér, og þess vegna flytja þangað margir, og mundu þó vera fleiri að minni hyggju, ef húsakynni væru fyrir hendi þar á staðnum handa fólki að flytjast í. En það má heita, að fyrir fáeinum árum væri þetta eyðistaður, og þess vegna verða allir þeir, sem þangað flytjast, að byggja þar yfir sig ný húsakynni. Ég get getið þess, að núna t.d. eru þar í smíðum 22 íbúðarhús. Undirstaðan undir byggingum á þessum stað er mjög traust, því að beinhörð klöpp er þar og jarðvegur víða enginn og annars staðar sáralítill ofan á klöppinni. Þetta veldur því, að mjög örðugt er þar að koma ýmsum leiðslum í jörðu, svo sem síma, rafleiðslum, vatnsleiðslum og skolplögnum. Allar rásir, sem þarf að gera fyrir slíkar leiðslur á þessum stað, verður að sprengja með dýnamíti ofan í klöppina. Það er þess vegna mjög erfitt og dýrt að koma skolpleiðslukerfi fyrir, þar sem jarðvegurinn er með þessum hætti, eins og ég hef verið að lýsa, og það má segja með nokkrum sanni, að það sé þessu unga byggðarlagi næstum ofviða. Kostnaður við slíkt nauðsynjamannvirki, sem ekki er hægt að vera án í nútíma þéttbýli, virðist ætla að verða þessum fáu landnemum, sem þarna eru að berjast við að koma upp byggðarlagi, ofraun kostnaðarlega.

Þessi till., sem við flytjum hér, gerir ráð fyrir 500 þús. kr. framlagi til styrktar við þetta óvenjulega og ég vil segja illframkvæmanlega verk. En ég vona, að hún mæti samt skilningi og verði samþykkt, því að telja má það fullvíst, að Þorlákshöfn muni taka til sín og veita lífsskilyrði talsvert stórum hluta af þeirri fjölgun þjóðarinnar, sem verður á næstu áratugum. Þess v egna tel ég, að það væri eðlilegt, að þjóðfélagið kæmi á einhvern hátt til móts við þá, sem eru að braska við að koma þarna upp byggðarlagi, á þeim stað, þar sem vænta má, að mjög mikil framleiðsla verði, eins og ég hef þegar sýnt fram á, að er óvenjumikil miðað við mannfjölda. Okkur flm. kom því saman um að gera tilraun um að flytja þetta mál hér, þrátt fyrir það að ekki mun hafa verið fram að þessu venja að veita fé í svona lagaðar framkvæmdir. En við teljum, að þarna standi svo sérstaklega á, að við viljum reyna á um þetta. Við teljum ekki líklegt, að þm. verði á móti því að rétta þarna nokkra hjálparhönd.

Annar staður er það einnig í Árnessýslu, þ.e. Hveragerði, sem stendur nokkuð svipað á um, hvað erfitt er að byggja svona mannvirki eins og ég var að tala um í Þorlákshöfn. Hveragerði stendur á hrauni. Þar er ekki annað en hraun undir og mjög erfitt um slíkar framkvæmdir þar eins og þær, sem ég var að tala um. Þar búa nú eitthvað á sjötta hundrað manns, og atvinna þar er aðallega við garðyrkju og matjurta- og blómarækt í gróðurhúsum við jarðhita. Þetta þorp er líklega fjölsóttasti ferðamannabær eða ferðamannaþorp hér á landi. Ég hygg, að þangað sé farið með alla eða flesta erlenda gesti, sem landið heimsækja, til þess að sýna þeim þann mikla kraft, sem þar býr í iðrum jarðar, og þá miklu möguleika, sem hitaorkan getur veitt, ef hún er virkjuð og notuð á ýmsan hátt. En þó má segja, að þarna sé nú ekki nema byrjunin á framkvæmdum í því efni. Það er talið, að Hveragerði muni vera sérstaklega vel tilvalinn staður til að koma upp heilsuhælum og nota til þess gufur, sem þarna spretta upp úr jörðunni, heita vatnið og leirinn, sem þarna er að hafa. En enn þá hefur ekki nema að litlu leyti verið hafizt handa um slíkt. Þar er að vísu risið eitt heilsuhæli, sem Náttúrulækningafélag Íslands hefur komið upp. En ýmsir telja, að þar væru miklir möguleikar til þess að koma upp hælum, við þessa miklu heilsubrunna, sem þarna eru, fyrir útlenda menn, sem þangað mundu sækja, ef skilyrði væru sköpuð fyrir dvöl þeirra þar. Þeim, sem þarna búa, er þess vegna talsverður vandi á höndum með það að byggja sínar framkvæmdir upp á réttan hátt og miða þær við það, sem hlýtur að koma á þessum stað. Nú hefur sveitarfélagið þarna, sem er, eins og ég sagði, rúmar 500 manneskjur, tekið sig til að byggja skolpleiðslukerfi, sem hefur ekki áður verið til þarna, og hefur þetta verk reynzt mjög erfitt við þær aðstæður, sem ég var að lýsa að eru þarna á staðnum.

Ég held, að ég sjái ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég vænti þess, að þessar till., sem við höfum leyft okkur hér að bera fram, fái góðar undirtektir.

Á þessu sama þskj., 221, er einnig till. frá okkur sömu þm., sem áður var flutt við 2. umr., en nú flutt aftur með nokkru lægri upphæð. Það er við 12. gr., bygging sjúkrahúsa, að fyrir 7 millj. komi 9 millj. og 500 þús. og aftan við liðinn bætist: þar af 500 þús. kr. til sjúkrahússins á Selfossi og 2 millj. kr. til sjúkrahússins í Vestmannaeyjum. Ég þarf ekki að tala um þetta mál, því að hv. 4. þm. Sunnl. mælti fyrir þessari till. við 2. umr., og ég læt duga það, sem hann sagði um þetta mál.