20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (3369)

195. mál, hafnargerðir við Dyrhólaey og í Þykkvabæ

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp., sem prentuð er á þskj. 380, varðandi rannsókn á hafnargerð við Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu og í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Fsp. er þannig:

„Hvað líður framkvæmd þál. um athuganir á hafnarframkvæmdum við Dyrhólaey í Vestur-Skaftafellssýslu og í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu, sem samþ. var á Alþingi á öndverðu ári 1961?“

Það er alkunna, að lengi hafa menn brotið heilann um það, hverjir möguleikar kynnu til þess að vera á hinni löngu hafnlausu suðurströnd landsins að koma þar upp hafnarmannvirkjum, koma þar upp höfn. Í því sambandi hefur hugur manna einkum beinzt að Dyrhólaey eða Dyrhólaósi við Dyrhólaey, og um skeið var mikið rætt um, að hafnargerðarskilyrði mundu vera skapleg í Djúpárhreppi í Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. í Þykkvabæ. Þessi mál eru kunn hér af þingi.

Um hið fyrra þeirra, hafnargerðina við Dyrhólaey, má geta þess, að samþykkt var hér á þinginu árið 1956 till., sem fól í sér áskorun á ríkisstj. um að láta fram fara rannsókn á því, hverjir hafnargerðarmöguleikar þar væru, en af þeirri rannsókn mun af einhverjum ástæðum litið eða ekkert hafa orðið. Á árinu 1960 er aftur flutt hér á Alþingi till., sem fer í þá átt að skora á ríkisstj. að láta fram fara nákvæma rannsókn á því, hvernig háttað sé hafnargerðarmöguleikum við Dyrhólaey, og var sú till, einnig samþ. snemma á árinu 1961. Flm. þeirrar till. lögðu á það áherzlu, bæði í till. sjálfri og einnig í grg. með henni, að þessi rannsókn yrði nákvæm og færi fram eins fljótt og hægt væri. Upphaflega lögðu tillögumenn til að hún færi fram á árinu 1961, en með því að nokkuð leið frá því, að till. kom fram, og þar til hún hlaut afgreiðslu á Alþingi, þá mun í n. hafa verið breytt því orðalagi og óskað eftir því, að rannsókninni gæti lokið svo fljótt sem auðið vri, án þess að nefna þar ártöl eða tímatakmarkanir aðrar. Það er þess vegna ástæða til að ætla, að nú sé vel á veg komið, máske lokið þeim rannsóknum, sem Alþingi með samþykkt þessarar tillögu fól ríkisstjórninni að láta fram fara.

Í þeirri sömu till., sem ég hef hér áður getið um og flutt var að hausti 1960 og samþ. í febrúarmánuði 1961, var einnig gert ráð fyrir því, að fram færi rannsókn á hafnargerðarskilyrðum í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu. Í þeim umr. og á þeim þskj., sem þetta mál varða, kemur það fram, að rannsóknir á hafnargerð í Dynhólaey hafi farið fram á árinu 1952, þá á vegum hersins eða varnarliðsins, eins og þar segir. Þær upplýsingar hafa aldrei verið lagðar fyrir Alþingi eða neina opinbera stofnun, að því er ég til veit, en hugsanlegt er, ef rétt er frá greint í þskj. um rannsókn þessa, að eitthvað megi styðjast við hana, enda þótt ekki sé vitað, að hve miklu leyti þar kunni að vera miðað við höfn, sem okkur gæti hentað. En með því að till., sem samþ. var snemma á ári 1961, gerir einnig ráð fyrir því, að á vegum íslenzkra stjórnarvalda fari fram rannsókn á hafnargerðarmöguleikum í Þykkvabæ, þá vænti ég þess. að sú rannsókn hafi einnig farið fram, og hef með þessari fsp. minni gert tilraun til að fá upplýst hér á Alþingi, hvaða árangur eða hvaða niðurstöður hafi fengizt við þær rannsóknir, sem þarna um ræðir, og vænti ég þess, að hæstv. ríkisstj. sjái sér fært að svara þessari fsp. minni greiðlega.