20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í D-deild Alþingistíðinda. (3382)

253. mál, starfsfræðsla

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv, atvmrh. fyrir svör hans. Ég fyrir mitt leyti get lýst yfir, að að því leyti sem skoðanir hans komu fram í svörunum, á ég samleið með honum. Ég held, að því er þessar 30 þús. snertir, sem á fjárl. eru til starfsfræðslu nú, þá sé þeim vel varið með því, að fulltrúi hjálpi þeim stöðum úti á landi, sem vilja koma upp starfsfræðsludögum, til þess að skipuleggja þá. En því vildi ég bæta við, að heppilegt teldi ég, að fulltrúinn gæti líka heimsótt fleiri staði til að kynna þessi mál og búa undir framtíðina, eftir því sem þetta fé hrekkur nú til.

Mér þóttu það góðar fréttir, sem hæstv. ráðh. flutti um það, að hæstv. menntmrh. hefði ákveðið, að í haust yrði stofnað til námskeiðs fyrir kennara í starfsfræðslu og til þess að koma á skipulegu fræðslustarfi, enn fremur að taka á upp starfsfræðslu í kennaraskólanum og við unglingaskóla. En ég hef heyrt því fleygt, að til þess að standa fyrir námskeiði því, sem hér um ræðir og fyrirhugað er, sé ráðgert að fá danskan mann. Ég get ekki að því gert, að mér finnst það dálítið annarlegt að fá danskan mann til þess að leiðbeina íslendingum um atvinnuvegi þeirra, t.d. að því er snertir útgerðina. Ég hafði haldið, að sá fulltrúi, sem við höfum hér heima og kunnugur er atvinnulífinu og unnið hefur að þessum málum undanfarin ár, sé miklu betur til þess fallinn að skipuleggja fyrir okkur þetta starf, og þess vegna mundi það vera mér geðfelldara og ég hygg flestum, að það væri íslenzkur maður, sem væri þarna falið íramkvæmdastarfið. Hinu er svo alls ekki að neita, að gott getur verið að fá almenna fræðslu frá útlendum aðila um starfsfræðslu erlendis. Ég vildi þess vegna óska þess, að hæstv. menntmrh. endurskoðaði þetta atriði, ef það er rétt, að hugsað hafi verið að fá danskan mann til að standa fyrir þessu námskeiði.

Þá hefði ég viljað spyrjast fyrir um það, hvort komið hefur til tals hjá þeim, sem fara með þessi mál, að taka upp það fyrirkomulag, sem tíðkast hjá öðrum þjóðum, að hafa starfsfræðsluráð, sem skipað sé ekki aðeins kennurum, heldur einnig fulltrúum aðalatvinnuvega. Mér skilst, að til þess að starfsfræðsla geti orðið verulega fullkomin og m.a. til þess að fá, fé til hennar, þurfi að leita samstarfs við atvinnuvefina sjálfa, eins og raunar hefur verið gert hér í Reykjavík á starfsfræðsludögum. — Svo þakka ég aftur fyrir svörin.