27.03.1963
Sameinað þing: 42. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í D-deild Alþingistíðinda. (3386)

252. mál, greiðsla opinberra gjalda af launum

Fyrirspyrjandi (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. fjmrh., sem hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„1) Hvað líður rannsókn og athugun á því, að opinber gjöld verði innheimt af launum, jafnóðum og þau eru greidd?

2) Eru líkur til, að slík tilhögun á gjaldainnheimtu verði að veruleika í næstu framtíð?“

Á flokksstjórnarfundi Alþfl. 15. og 18. febr. 1958 var gerð allýtarleg ályktun um skattamál. Þessi ályktun fundarins varð síðan undirstaða að till. til þál., sem flutt var af öllum þáv. þm. Alþfl. á Alþingi þá skömmu síðar, en till. þessi til þál. hljóðaði svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna gaumgæfilega möguleikana á því, að tekjuskattur verði afnuminn með öllu, svo og að innheimta önnur opinber gjöld af launum, jafnóðum og þau eru greidd.“

Till. þessi var samþ., eins og ég sagði áðan, sem ályktun sameinaðs Alþingis, og er öllum kunnugt um þá umfangsmiklu endurskoðun skattalaganna, sem fram fór í kjölfar þeirrar samþykktar, og síðari breytingar á skattalögunum.

Um síðari hluta till. hefur árangur ekki verið eins sýnilegur, og af þeim ástæðum er fsp. á þskj. 380 flutt.

Árum saman hefur það verið krafa verkalýðsfélaganna, að innheimta persónuskatta og útsvara yrði hagað þann veg, að gjöldin væru dregin frá launum hverju sinni er launagreiðsla fer fram. Hvernig svo sem á því stendur, hafa mikið umtalaðar rannsóknir og athuganir ekki séð dagsins ljós og þaðan af síður, að úr nokkurs konar framkvæmdum hafi orðið, þegar frá eru teknir opinberir starfsmenn og örfáir einstakir vinnustaðir. Hjá öðrum launþegum hefur lítið orðið úr framkvæmdum, þegar frá eru dregnar þessar undantekningar.

Fjöldi verkalýðsfélaga og mörg alþýðusambandsþing hafa gert ályktanir í málinu, sem á einn veg hafa verið: kröfur um rannsókn og framkvæmdir. Málinu var, eins og ég sagði áðan, hreyft af Alþfl, með þál., og vinstri stjórnin hét framkvæmdum, en allt hefur komið fyrir ekki.

Hin nagandi óvissa manna um ráðstöfunarrétt á tekjum sínum, sem hæglega taka stórbreytingum frá ári til árs, á að tilheyra fortíðinni. Í flestum nálægum löndum hefur þetta jafnóðum-greiðslukerfi verið tekið upp, þannig að starfsbræður okkar þar eru að taka við fé, sem það opinbera hefur oftekið af þeim á árinu, á sama tíma sem við sitjum sveittir við að hnoða saman okkar framtalsskýrslum.

Það virðist a.m.k. eðlilegt, að opinberlega verði gerð grein fyrir þeim rannsóknum, sem fram hafa farið um þessi mál, og þá jafnframt, hvers vegna ekki hefur verið hafizt handa hjá okkur enn.

Ég vænti þess að lokum, að hæstv. fjmrh. upplýsi, hvernig mál þessi standa nú og hvers má vænta um framkvæmdir á þessu mikla nauðsynjamáli.