27.03.1963
Sameinað þing: 42. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í D-deild Alþingistíðinda. (3387)

252. mál, greiðsla opinberra gjalda af launum

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Hv. 10. þm. Reykv. hefur nú gert ýtarlega grein fyrir þeirri fsp., sem hann hefur borið fram, og skal ég leitast við að svara henni og gefa nokkrar upplýsingar um þetta mál.

Það er nú umrætt mál á ýmsum löndum og hefur verið alllengi, hvort betra sé að borga útsvör, skatta og önnur opinber gjöld jafnóðum og teknanna er aflað eða árið eftir. Hér á landi er sá háttur hafður, að opinber gjöld eru ár hvert lögð á þær tekjur, sem maður hefur aftað árið áður. Af tekjum manns árið 1963 þarf því að borga skatta ag skyldur á næsta ári án tillits til þess, hverjar tekjur hans, efni og ástæður verða þá. En með mörgum þjóðum er þessu annan veg farið. Skattarnir eru teknir af tekjum manna mánaðarlega eða vikulega, áður en launin eru útborguð, svo að sá hluti, sem ríkisins er eða bæjarins, kemur ekki í hendur launþegans. Þegar árið er á enda, hefur skattgreiðandinn því innt af hendi til hins opinbera það, sem honum ber að tekjum hins liðna árs, eða a.m.k. meginhluta skattsins. Enn þá vantar gott orð íslenzkt um þetta fyrirkomulag, og hafa þó ýmis heiti þar verið notuð. Á s.l. hausti bað ég Halldór Sigfússon skattstjóra í Reykjavík að gefa ábendingar um heppilegt íslenzkt orð um þetta fyrirkomulag. Ég vil leyfa mér að lesa hér kafla úr bréfi, sem hann skrifaði mér 10. sept. 1962 um þetta efni. Hann segir m.a. á þessa leið:

„Hér hefur verið talað um staðgreiðsluskatt, samtímaskattgreiðslu, frumskatt, forskatt, greiðslu af tekjum jafnóðum o.fl. Magnús Stephensen notaði í Klausturpóstinum orðalagið „afdráttarréttur af útlendum eigum“, en það þýðir réttur ríkisins til tolls eða afgjalds af eignum, sem fluttar eru út úr landinu. Orðið afdráttur er því gamalt íslenzkt skattheiti, það að draga skattinn af, myndað á sama hátt og elzta norrænt skattheiti, sem þekkt er, afráð, sbr. ráða af hendi. Orðið afdráttur felur einmitt í sér það megineinkenni umræddra skattheimtukerfa, að skatturinn er dreginn af tekjum eða launum. Gæti því komið til greina að taka aftur upp þetta gamla skattheiti í yfirfærðri merkingu og láta það tákna nú þá skattgreiðslu, sem haldið er eftir jafnóðum. Nota mætti jöfnum höndum: afdráttur, afdráttarskattur eða skattafdráttur eftir samhengi, og er orðið mjög þægilegt í meðferð og ýmsum samböndum.“

Þetta er úr álitsgerð Halldórs Sigfússonar skattstjóra í Reykjavík um þetta atriði. Er svo eftir að vita, hversu mönnum fellur sú uppástunga, sem hann þarna ber fram.

Þetta fyrirkomulag, að greiða eða taka skatta af tekjum, jafnóðum og þeirra er aflað, er nú í gildi í Englandi, Írlandi, Þýzkalandi, Austurríki, Hollandi, Finnlandi, Noregi, Svíþjóð, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu. Í Danmörku hefur málið verið rætt ag rannsakað í mörg ár, og er það ofarlega á baugi, en samstaða hefur ekki enn náðst í því landi.

Launamenn og aðrir skattgreiðendur mundu hafa margs konar hag af þessu fyrirkomulagi, eins og hv. fyrirspyrjandi ræddi og rökstuddi í sinni ræðu. Sumir menn hafa mjög misjafnar tekjur frá ári til árs. Sá., sem hefur háar tekjur í ár, en lægri á næsta ári, þarf að borga skatta af háu tekjunum á ári hinna lágu tekna,. Snertir þetta m.a. og ekki sízt sjómenn. Þegar maður lætur af starfi fyrir aldurs sakir, lækka tekjur hans oftast verulega. Eftirtaun og lífeyrir koma í stað launa. Á fyrsta ári eftirlaunanna eða lífeyrisins þarf hann þá að greiða skatta af síðustu árslaununum. Þegar sjúkdómar, slys eða önnur óhöpp og ógæfa steðja að, gerist venjulega allt í senn, tekjur mannsins minnka, útgjöld hans vaxa og skattar og útsvör fyrra árs falla til greiðslu. öll mæla þessi atriði mjög með því fyrirkomulagi, sem hér er um rætt. Að vísu mætti úr þessu bæta, ef sérhver maður legði sjálfur til hliðar af launum sinum jafnóðum fyrir skattgreiðslum síðar, en slík forsjálni er fáum gefin.

Fyrir hið opinbera og efnahagslífið í heild mundi sú skipan hafa marga kosti, að skattar væru greiddir jafnóðum og tekjurnar myndast, og skal ég ekki fara út í það mál nánar hér. En ýmsir annmarkar og örðugleikar eru á þessari braut. Álagning skattanna yrði væntanlega vinnufrekari og dýrari en nú er. Hér á landi eru tekjuskattur og útsvar stighækkandi, og ýmsir frádráttarliðir eru leyfðir, sem ekki er unnt að vita um með vissu fyrr en í árslak. Ef manni er gert að greiða vikulega eða mánaðarlega hluta af launum sínum, þarf að umreikna allan skattinn að árinu loknu. Þó ber að hafa hér í huga, að hinar afkastamiklu skýrsluvélar, sem nú eru hér til, mundu draga mjög úr þeim kostnaðarauka, sem áður var talinn fylgja þessu fyrirkomulagi. Einnig er það allmikið vandamál, hvernig fara skuli um skattgreiðslur á því ári, sem skipulagsbreytingin kæmi til framkvæmda, hvort ætti að miða skattinn við tekjur þess árs, þegar breytingin kæmi til framkvæmda, eða við tekjur undanfarandi árs eða meðaltal þessara tveggja ára eða einhver enn önnur sanngjörn leið yrði fundin.

Kostir þess að greiða opinber gjöld af tekjum, jafnóðum og þeirra er aflað, eru samt sem áður vafalaust miklu meiri en annmarkarnir. Á s.l. hausti kynnti ég mér nokkuð undirbúning þessara mála í Danmörku, en þar í landi hafa árum saman farið fram víðtækar athuganir um þetta efni. Ég átti þá m.a. viðræður við fjmrh. Dana um málið og fékk í hendur ýmis gögn og álitsgerðir, sem gerðar hafa verið á vegum danskra yfirvalda. framhaldi af því fót ég svo ríkisskattstjóra að athuga, hvort eigi væri hentugt að koma slíku innheimtukerfi á hér á landi. Hann hefur síðan ásamt nokkrum öðrum embættismönnum unnið að þessari athugun, en niðurstöður liggja ekki fyrir enn. í því sambandi má benda á, að málið er mjög umfangsmikið, og hefur undirbúningur í nágrannalöndum okkar. þar sem því hefur verið komið á, tekið mörg ár. Sem dæmi til skýringar má nefna Noreg.

Á árinu 1952 samþykkti norska stórþingið lög þess efnis, að upp skyldi tekin innheimta skatta af tekjum, jafnóðum og þær myndast, þó af einstaklingum eingöngu, en ekki félögum. Og þar var ákveðið, að síðar skyldi tekin um það ákvörðun, hvenær þessi nýja skipan kæmi til framkvæmda. Þetta var sem sagt á árinu 1952, sem norska Stórþingið samþykkti þessi lög. Síðan voru sett lög þremur árum síðar, árið 1955, sem kváðu svo á, að hið nýja kerfi skyldi koma til framkvæmda frá og með 1. jan. 1957. En áður en lögin voru sett árið 1952 var búið að vinna að málinu í 8–7 ár.

Þetta dæmi er nefnt til skýringar á því, að talin hefur verið þörf mikils og langvinns undirbúnings að þessu mikla máli. Það verður einnig að hafa í huga, að verði slíkt staðgreiðslukerfi lögleitt, hefur það í för með sér, að endurskoða þarf um leið ýmsa þætti laga um tekju- og eignarskatt, laga um tekjustofna sveitarfélaga og ýmissa annarra laga, sem fjalla um innheimtu opinberra gjalda.

Mér þótti rétt að láta þessi atriði koma hér fram og nokkur þau rök, sem í hugum manna eru með og móti þessari skipun. En ég vil að lokum láta í ljós þá skoðun mína, og hún styðst við álit þeirra manna hér á landi, sem mest hafa um það fjallað og gerst til þekkja, að það sé æskileg sú tilhögun á gjaldainnheimtu að draga skatta og útsvör frá tekjum, jafnóðum og þær verða til. Það er eindregin skoðun mín og sannfæring, að þessi skipan hafi miklu fleiri kosti en galla og að því beri að vinna að koma henni á sem fyrst. Þess vegna hefur verið ákveðið, að rannsókn og undirbúningi þessa máls verði haldið áfram og hraðað svo sem föng eru á. Ég geri ráð fyrir, að unnt væri að leggja fram frv. um þetta efni fyrir Alþingi á árinu 1964, ef sú stjórn, sem þá. fer með völd í landinu, hefur áhuga á málinu. Ég býst ekki við, að nauðsynlegum undirbúningi verði lokið fyrr. Og ef frv. væri lagt fyrir Alþingi á árinu 19B4 og samþ., þá mætti láta kerfið koma til framkvæmda í fyrsta lagi í ársbyrjun 1985.

Ég vænti þess, að hv. fyrirspyrjandi og þingheimur hafi af þessu yfirliti fengið nokkrar upplýsingar um, hvernig þessi mál standa.

Fyrirspyrjandi (Eggert G. Þorsteinsson): Herra forseti. Ég færi fjmrh. þakkir fyrir hans greinargóðu svör við þessum fyrirspurnum og vænti þess, að almenningi verði nú ljósara, að það er unnið að því með þeim hraða, sem unnt er, að koma þessum hætti á, og vil jafnframt lýsa ánægju minni yfir þeim jákvæðu undirtektum, sem þetta fyrirkomulag fékk í ræðu hæstv. ráðh. Ég tek undir þær óskir hans, að þessum rannsóknum, sem ríkisskattstjórinn vinnur nú að, verði haldið áfram og hraðað svo sem föng eru á. Ég ítreka svo að lokum þakkir mínar við þessum fyrirspurnum.