19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög 1963

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar liður nú að lokum þessara umr. um fjárl., vildi ég nefna hér aðeins nokkur atriði í sambandi við þau.

Samkvæmt fjárlfrv., þegar það var lagt fyrir Alþingi, voru tekjur áætlaðar 2126 millj. og greiðsluafgangur tæpar 13 millj. kr. Fyrir 2. umr. fór fram athugun á því, hvort unnt væri að hækka og þá hversu mikið tekjuáætlunina. Þessi athugun og endurskoðun var framkvæmd af fjmrn. og Efnahagsstofnuninni, og var þá byggt á reynslu þessa árs fram til októberloka, en tölur lágu fyrir um það tímabil. Að sjálfsögðu var einnig miðað við tiltækar áætlanir um innflutning á næsta ári. Niðurstaðan af þessum athugunum var sú, að fært væri að hækka tekjuáætlunina um 70 millj. kr., eða nánar tiltekið ca. 72 millj. kr., upp í 2198 millj. Þetta var síðan gert við 2. umr. fjárl. að till. fjvn., og um leið var því ákveðinn rammi og stakkur skorinn, hversu mjög mætti hækka útgjöldin í fjárl.

Það þótti ekki varlegt og þykir ekki varlegt að fara hærra en hér var greint með tekjuáætlunina. Enginn veit, hvort árið 1963 verður jafngjöfult og árið 1962, einkum um sjávarafla. Í ár hefur verið góðæri mikið, og enginn getur um það fullyrt, hvað næsta ár ber í skauti sér. Þegar það er einnig haft í huga, að gert er ráð fyrir, að þegar þetta þing kemur saman að nýju, verði lögð fram ný tollskrá og hún feli í sér lækkun aðflutningsgjalda á ýmsum vörum, mundi það teljast óvarlegt að hafa tekjuáætlun fjárl. fyrir árið 1963 hærri en hún er í frv, nú eftir 2. umr.

Útgjöldin voru svo hækkuð við 2, umr. um ca. 65 millj., og samkv. till. fjvn. er nú gert ráð fyrir að hækka þau um 11 millj. eða því sem næst, m.ö.o.: útgjaldahækkunin verði þá við endanlega afgreiðslu fjárl. ca. 76 millj. Niðurstaðan verður því sú, að tekjuhækkunin er 72 millj. frá upphaflega frv., gjaldahækkunin 76 millj., þannig að greiðsluafgangur verður þá u.þ.b. 4 millj. lægri en frv. gerði ráð fyrir eða tæpar 9 millj. kr. Þessi hækkun um 76 millj. í meðförum Alþingis nemur u.þ.b. 31/2 % , og getur það ekki talizt óhóflega að farið.

Það, sem einkennir afgreiðslu þessara fjárl. auk þess, sem ég þegar hef greint, er m.a., að þau verða afgreidd án nokkurra nýrra skatta og tolla, án þess að nokkrir tolla- eða skattstigar séu hækkaðir eða nýir tekjustofnar á lagðir. Hitt er svo að sjálfsögðu, að óbreyttir skattstigar og tollstigar gefa ríkissjóði allmiklu meiri tekjur, bæði vegna aukinnar þjóðarframleiðslu, vaxandi innflutnings, vaxandi veltu, aukinna þjóðartekna.

Þá er einnig rétt að taka það fram, að þessi árangur, afgreiðsla fjárl. með nokkrum greiðsluafgangi án nokkurra nýrra skatta og tolla, fæst, þó að um leið séu hækkuð mjög verulega framlög til verklegra framkvæmda í landinu. Við 2. umr. gerði ég nokkurn samanburð á fjárveitingum samkv. þessu frv. og fjárveitingum fjárl. fyrir árið 1958. Ég tók helztu verklegar framkvæmdir, þ.e.a.s. vegi, brýr, hafnir, skólabyggingar, flugvelli, sjúkrahús. Í fjárl. 1958 voru þessi framlög samtals 123 millj., í fjárlögum fyrir árið 1963 255.4 millj., miðað við fjárl. eins og þau voru eftir 2. umr. Samkv. því höfðu þessi framlög hækkað um 132.4 millj. eða sem næst 108% eða meira en tvöfaldazt á þessu tímabili. Rétt er að geta þess, að nú við 3. umr. munu enn hækka nokkuð framlög til þessara framkvæmda, sem nemur rúmum 4 millj. kr. Þegar það er haft í huga, að kostnaður við þessar framkvæmdir muni hafa hækkað um ca. 40–50% á þessu tímabili, er augljóst, enda hefur það ekki veríð vefengt eða hrakið, að hér er um að ræða raunverulega aukningu að töluverðu marki á framlögum til verklegra framkvæmda, miðað við árið 1958. Ef miðað er við yfirstandandi ár, er að sjálfsögðu öllum hv. þm. ljóst, að einnig er um mjög verulega aukningu að ræða.

Í sambandi við framlög til hinna verklegu framkvæmda hafa komið fram við þessa umr. margvíslegar till. um stórhækkuð framlög til þeirra. Og hjá sumum hv. þm. hafa verið glöggar lýsingar á þeim miklu þörfum, sem eru á auknum framlögum til þessara margvíslegu verklegu framkvæmda, samgöngumála og annars. Einna átakanlegust var þó lýsing hv. 1. þm. Austf. á ástandi vega- og brúamála á Austurlandi og hversu brýn þörf væri þar mikilla átaka. Ég veit það, þar sem ég hef ferðazt nokkuð um þar á síðasta ári, að þar er víða mjög mikil þörf stórfelldra umbóta í vega- og brúamálum og öðrum framkvæmdum, og það lá við, að þm. rynni til rifja að hlusta á þessar lýsingar á þessu ástandi, sem væri í samgöngumálum þar eystra. Manni verður því að spyrja: Hvernig stendur á því, að þessi landshluti hefur verið vanræktur svo herfilega? Og manni verður spurn: Hvernig stendur á því, þegar einmitt þessi sami hv. þm., sem lýsti ástandinu svo, hefur nú verið þm. Austfirðinga í nærri 30 ár samfleytt og af þessum 30 árum hefur hann verið u.þ.b. 20 ár í ríkisstj., og hann sjálfur eða aðrir flokksbræður hans hafa beinlínis í ríkisstj. farið með stjórn fjármála og vegamála meira en helming þessa tímabils? Hver er svo árangurinn af þessu starfi hans og flokksbræðra hans þar eystra? Myndin, sem hann dregur upp, er eiginlega þessi, að þar vantar alla vegi og þar vantar hverja brú, og nú flytur hann till. um fjárveitingar, auknar eða nýjar, til 15 vega, 4 brúa, 3 hafna auk ýmislegs fleira. Og nú skorar hann sem ákafast á núv. stjórn og stjórnarflokka að bæta það, sem hann yfirtróð og vanrækti á þessum undangengnum árum.

Ég tók einnig eftir því í ræðu hv. síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Vestf., að hann taldi, að bæði Austurland og Vesturland hefðu verið mjög afskipt um framlög til verklegra framkvæmda. Ég veit, að það er þörf mikilla framkvæmda í þessum landshlutum báðum. En dálítið einkennilega kemur það fyrir sjónir, þegar einmitt nú er mest og sterklegast talað um það af hv. 1. þm. Austf. og hv. 2. þm. Vestf., að þessir tveir landshlutar hafi sérstaklega á undanförnum árum og áratugum verið afskiptir og beittir misrétti, þegar þetta er haft í huga, hversu einmitt þessir tveir menn sjálfir hafa mikinn hluta þessa tímabils farið með fjármál og vegamál í ríkisstj.

En þótt ég gagnrýni framsóknarmenn fyrir ýmislegt, þá hlýt ég þó að dást að skarpskyggni þeirra við að uppgötva hagsmunamál fólksins, eftir að þeir eru sjálfir farnir úr stjórn, og kannske verða þeir að vera í stjórnarandstöðu til þess að skilja áhuga og hagsmunamál fólksins úti á landsbyggðinni.

Þær till. um stóraukin framlög til verklegra framkvæmda, sem stjórnarandstæðingar flytja nú við þessa umr., og aðrar till., — þetta er að langmestu leyti til verklegra framkvæmda, vega, brúa og hafna, — en útgjaldatill. hv. stjórnarandstæðinga við þessa umr. nema 3611 millj. kr. auk till. þeirra um lán og ríkisábyrgðir. Framsfl. á bróðurpartinn af þessum till. ag slær þar út í yfirboðum gersamlega samherja sinn, Alþb. Nú liggur það fyrir, að ef á að taka alvarlega þessar till. hv. stjórnarandstæðinga og samþykkja þær við þessa umr., yrðu fjárl. afgreidd með rúml. 27 millj. kr. tekjuhalla. Nú er það mjög mikils varðandi, að ekki sé halli á fjárl. eða ríkisbúskapnum yfirleitt. Það er almenn nauðsyn að hafa greiðsluafgang, en ekki halla á fjárl. og ríkisbúskap, en alveg sérstök nauðsyn er það nú, eins og ástatt er í atvinnu- og efnahagsmálum, þar sem eftirspurnin eftir vinnuafli er jafnmikil í mörgum greinum, þannig að hvergi nærri er mögulegt að fullnægja henni, eftirspurnin eftir vinnuafli er svo mikil. Það er óafsakanlegt í slíku atvinnu- og efnahagsástandi að ætla að afgreiða fjárlög með verulegum greiðsluhalla. Það mundi auka enn á þensluna, krefjast stóraukins lánsfjár ríkissjóði til handa og Seðlabankanum og auka verðbólguhættuna.

Nú má vera, að hv. stjórnarandstæðingar segi: Við 2. umr. fjárl. fluttum við till. um að áætla tekjur ríkisins hærri á næsta ári, og þær hækkunartill. vega fyllilega á móti till. okkar nú um hækkuð útgjöld. — Þessi rök eru harla haldlítil. Alþingi er þegar búið við 2. umr. að hafna þessum till., og það er mat meiri hl. Alþingis og ríkisstj. og trúnaðarmanna hennar, að það sé ekki fært og ekki verjandi að hækka tekjuáætlunina frá því, sem nú er gert. Vitanlega getur enginn okkar sagt, hvað framtíðin ber í skauti sér, hvort næsta ár verður svo mikið góðæri, að tekjur fari eitthvað að ráði fram úr áætlun. En eins og nú standa sakir, er það ekki afsakanlegt, ég vil segja, að það væri glapræði, að ætla að áætla tekjurnar mörgum tugum millj. hærri en gert er í frv. og hækka svo útgjöldin sem því nemur.

Í þessu sambandi er einnig rétt að minnast á eitt, sem skýrir þetta mál nokkuð. Það var fyrr á þessu þingi, að til meðferðar var frv. um framlengingu og bráðabirgðabreytingu nokkurra laga og m.a. um að framlengja 8% söluskattinn fyrir næsta ár. Stjórnarandstæðingar lögðu til, að þessi 8% söluskattur væri afnuminn nú þegar um áramótin. Það þýddi að fella niður tekjustofn, sem er 1 fjárl. áætlaður á 267.4 millj, kr. Af þeim fer 1/5 hluti til sveitarfélaganna eða 531/2 millj. M.ö.o.: ríkissjóður átti samkv. þessari afstöðu stjórnarandstæðinga að missa þarna strax nú á næsta ári tekjustofn að upphæð 214 millj. kr. Ég skal ekki víkja hér að viðhorfinu til sveitarfélaganna, en auðvitað þýddi það, að sveitarfélögin hefðu þurft að stórhækka útsvörin á almenningi. Þegar hv. stjórnarandstæðingar eða við skulum segja hv. framsóknarmenn, sem beittu sér öllu meira í því máli, voru spurðir, hvernig þeir ætluðu að koma saman fjárl. með því að sleppa þessum tekjustofni, þá voru einu svörin, sem fengust, að þeir mundu segja okkur frá því við meðferð fjárl. fyrir jól, hvernig þeir ætluðu að koma þessu heim og saman. Nú liggur afstaðan fyrir. Fyrr í vetur ætluðu þeir að fella niður tekjustofn á 3. hundrað millj. kr., nú við 3. umr. fjárl. leggja þeir til að afgreiða fjári., ef þeir verða teknir bókstaflega, með 20–30 millj. greiðsluhalla.

Ég vil að lokum þakka hv. fjvn. og þá fyrst og fremst meiri hl. hennar og formanni og frsm. fyrir afgreiðslu fjárlfrv. Hún hefur starfað svo vel að málinu, að unnt er nú að afgreiða fjárlfrv. fyrir nýár, sem er í þriðja sinn í röð, sem það er gert. Ég tel það mikils virði fyrir allan ríkisbúskapinn og fyrir alla reglu í honum, að fjárl. séu afgreidd í tæka tíð fyrir nýár, áður en þau eiga að taka gildi í byrjun reikningsárs. Það er að sjálfsögðu hinn mesti ósiður að bíða með það fram á næsta ár, þurfa svo að samþykkja einu sinni eða oftar bráðabirgðafjárgreiðslur með öllum þeim óþægindum, sem af því stafa. Það er í þriðja sinn í röð, sem þessi háttur verður á hafður, og hefur það ekki komið fyrir áður síðan í stríðslok. En það er von mín og trú, að Alþingi og ríkisstj. þær, sem koma hér eftir, haldi þessari reglu og keppi að því í lengstu lög að láta ekki hinn gamla óvana koma upp aftur.

Þá vil ég í annan stað þakka hv. fjvn. fyrir þá varfærni og ábyrgðartilfinningu, sem sýnd hefur verið um áætlun gjalda og tekna og að meiri hl. hennar hefur gætt þess sérstaklega, að fjárl. yrði að afgreiða án halla, með nokkrum greiðsluafgangi. Ég vænti þess svo, að frv. verði samþ. með brtt. hv. fjvn.