19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 527 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

1. mál, fjárlög 1963

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér ásamt hv. 3. þm. Vesturl. að flytja brtt. á þskj. 221. Er fyrri till. III. liður á því þskj. Till. þessi er ólík þeim till. öðrum, sem hér eru til umr., að því leyti, að hér er farið fram á til nýbyggingar þjóðvega eina heildarupphæð fyrir Vesturlandskjördæmi. Og sérstaklega vil ég taka það fram út af ummælum hæstv. fjmrh., að það er veruleg þörf fyrir þetta í Vesturlandskjördæmi, þótt hæstv. fjmrh. hafi um alllangt árabil verið þm. í hluta af því kjördæmi, og hefur þó síðan hann lét af þingmennsku í því kjördæmi verið um allmiklar vegabætur að ræða á þeim slóðum. En þó er mörgu ábótavant þar eins og annars staðar, þar sem hæstv. ráðh. lýsti. Þessari upphæð, sem við förum fram á, 21/2 millj. kr., er meiningin að verði skipt á milli hinna einstöku vega af þm. hlutaðeigandi kjördæmis. Það skal fram tekið, að jafnan hefur verið samkomulag á milli okkar þm. um skiptingu vegafjárins, og ég ætla, að svo muni einnig fara, ef þessi upphæð kemur til okkar skipta, sem ég vænti.

Það þarf vart að lýsa því hér á hv. Alþingi, hversu mikil þörfin er fyrir aukið fjármagn til nýuppbyggingar vega. Það lýsir sér bezt í því, að nú þegar á þessu ári er búið að vinna fyrir rösklega helming þess vegafjár, sem ætlað er til nýbyggingar þjóðvega á fjárl. fyrir árið 1963. Það hlýtur því einhvers staðar að vera æðiþröngt fyrir dyrum með áframhaldandi vegagerð á næsta ári.

Í Vesturlandskjördæmi hefur verið unnið fyrir sig fram fyrir verulegar fjárhæðir, svo að það er brýn nauðsyn á því að bæta úr í þeim efnum eins og mögulegt er. Vegalengdir í kjördæminu eru allmiklar, og mikið er af ólögðum vegum í byggð og einnig í óbyggðum, enda þótt stórir áfangar hafi náðst á undanförnum árum í nýbyggingu þjóðvega, mjög góðir áfangar. En fáist þessi upphæð, 21/2 millj. kr., eru líkur til þess, að hægt verði að létta verulega á þeim sýslu- og sveitarfélögum, sem verða nú að greiða miklar fjárhæðir í vexti af vegagerðarlánum, sem tekin hafa verið á þessu ári. Jafnhliða því verður, ef þessi fjárhæð fæst, mögulegt að halda áfram vegagerð líkt og verið hefur undanfarið. Á þann hátt eru líkur fyrir því, að margar þær ófærur, sem nú eru á vegum, verði úr sögunni miklu fyrr en annars mundi.

Sívaxandi bifreiðafjöldi og aukin notkun þeirra krefst betra vegaviðhalds en verið hefur og stóraukins fjármagns til að byggja nýja vegi. Ég vil benda hæstv. fjmrh. á það, að í ár hafa verið fluttar inn líklega rúmlega 2000 bifreiðar, og tæplega trúi ég öðru en hæstv. ráðh. sé það vel ljóst, að þessar bifreiðar færa ríkissjóði gífurlegar tekjur þegar á næsta ári og í framtíðinni. Það er því ekki ósanngjarnt af hálfu þm. að fara fram á, að vegafé, bæði til viðhalds þjóðvega og nýbyggingar, verði stórhækkað frá því, sem verið hefur, auk þess sem tækni tímanna krefst þess, að það sé betur staðið í ístaðinu í þessum efnum en átt hefur sér stað nú um skeið. Það þýðir ekki að vera að miða eingöngu við fjárhæðir í vegagerðum einstakra ára, heldur það ástand, sem ríkir almennt í landinu, og horfast í augu við það, sem tímarnir krefjast hverju sinni. Það er því eðlileg krafa, að við berum fram þessar till., og ég vænti þess, að framsýni hv. þm. verði svo mikil, að þeir samþykki þessa till., sem ég hef nú lýst.

Þá er önnur till. frá mér og hv. 3. þm. Vesturl. Það er till. á þskj. 221 undir V. Það er hækkun á smábrúafé um 1 millj. kr. Það er þegar búið að vinna fyrir miklu af því fé, sem veitt er á fjárl. fyrir 1963, og það fé kemur ekki til skipta aftur. Þess vegna er nauðsynlegt, að þessi fjárhæð sé hækkuð meira en lagt hefur verið til nú í þeim till., sem fyrir liggja. En litlar ár og lækir geta oft valdið miklum erfiðleikum í samgöngum, en kostar oft ekki mikið að brúa þá, þannig að 1 millj. mundi bæta mikið úr í þessum efnum á mörgum stöðum í landinu, og á þann hátt væri möguleiki á að koma til móts við þá, sem landið byggja og þurfa að nota þjóðvegakerfi þess, á miklu hagkvæmari hátt en ella væri, auk þess sem áföngum yrði náð í þessum efnum, sem mikils virði væru fyrir framtíðina. Ég vænti því þess, að hv. þm. sýni því fólki, sem landið byggir, og því fólki, sem býr í Vesturlandskjördæmi, — í einu af þeim kjördæmum, sem hafa yfir mjög miklum ræktunarlöndum og góðum landkostum að ráða auk einna af beztu fiskimiðum landsins, — þann velvilja sinn að samþykkja þær till., sem ég hef hér talað fyrir.