19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í D-deild Alþingistíðinda. (3404)

254. mál, Siglufjarðarvegur

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Ég var nú að hugsa um það, meðan hv. 11. landsk. þm. var að halda sína ræðu hérna, að það væri nokkuð vandlifað í þessu þjóðfélagi. Fyrst lýsti hann því, hve mikla baráttu það hefði kostað að fá hæstv. ríkisstj. til þess að gefa fyrirheit um það, að þessari vegalagningu, þ.e.a.s. Siglufjarðarvegi ytri, yrði lokið á sæmilega skömmum tíma, en síðan, þegar hæstv. ríkisstj. er búin að gefa fyrirheit um það, að verkið skuli unnið á tiltölulega mjög skömmum tíma, þá segir hann: Ég sé öll vandkvæði á því og tel öll vandkvæði á því, að þessi áætlun, sem gerð hefur verið um vegalagninguna, geti staðizt. — Ég veit í rauninni ekki, hvernig hægt væri að greiða fyrir málinu, ef hv. þm. ætti að verða ánægður með afgreiðsluna.

Ég vil annars þakka hæstv. samgmrh. fyrir þær upplýsingar, sem hann hefur gefið hér í sambandi við lagningu Siglufjarðarvegar ytri, þ.e. Strákavegar, og fjáröflun til þess verks. Samkv. þessum upplýsingum, sem felast í framkvæmdaáætlun hæstv. ríkisstj., á að vera tryggt, að þessu mikla mannvirki verði lokin á næstu 2–3 árum.

Ég skal að vísu játa, að mér hefur stundum fundizt sem þessu máli miðaði lítt, þótt ég hafi alltaf viðurkennt og gert mér ljóst, að það taki sinn tíma að undirbúa og ljúka slíkri risaframkvæmd sem þessi vegalagning er á okkar þjóðar mælikvarða. Og þegar á allt er litið, tel ég ekki heldur, að lagning vegarins taki óeðlilega langan tíma miðað við lagningu annarra vega á landi hér, ef sú áætlun, sem nú hefur verið lýst, stenzt, en að svo verði, efast ég ekki um og hef ekki neina ástæðu til að efast um.

Ég vil benda á í því sambandi, að til Siglufjarðarvegar ytri var fyrst veitt fé á fjárl. 1956. Þá var um tiltölulega lága fjárveitingu að ræða, 100 þús. kr. til byrjunarframkvæmda. En framkvæmdir við vegagerðina sjálfa hófust hins vegar ekki fyrr en sumarið 1957. Verður því vegalagningunni lokið á 8 árum samkv. áætluninni, og tel ég því alls ekki slælega að málinu unnið, miðað við umfang verksins og kostnað við það. Ég vil einnig benda á, að lengst af frá 1956 hafa árlegar fjárveitingar til þessa vegar aðeins numið 500–700 þús. kr., og meira að segja hefur stundum talsvert miklu af því fé verið varið til að ljúka lagningu vegar úr Fljótum og Sléttuhlíð, og má þó segja um þá vegargerð, að hún sé líka nauðsynleg, vegna þess að að hinum nýja vegi, þ.e.a.s. Siglufjarðarvegi ytri, verður hvorki komizt né frá nema fara um þessi héruð, og kæmi þá vitanlega að litlum notum, ef ekki væri tryggt, að sæmilegur vegur lægi að honum.

Ég vil svo að lokum þakka hæstv. ríkisstj. og þá sérstaklega hæstv. samgmrh, fyrir ágæta fyrirgreiðslu við þetta mikla nauðsynjamál, sem ég efast ekki um að verði að fullu metin og virt.

Út af því, sem hv. 1. þm. Norðurl. v. sagði um það, að æskilegt væri, að vegalagningunni yrði lokið á styttri tíma en hæstv. samgmrh. lýsti og framkvæmdaáætlun ríkisstj. gerir ráð fyrir, þá geri ég ráð fyrir, að þeir, sem bezt hafa vit á tæknilegum atriðum í sambandi við framkvæmd verksins, verði að segja til um hraða verksins og hafa raunar gert, eftir því sem mér skilst.

Ég ætla svo ekki að fara að karpa við hv. 11. landsk. þm. um það, hverju það hafi valdið, hver var kosinn þm. Siglf. á þessum og þessum tíma. Hann hélt um það heilmikla ræðu og gaf þar í skyn, að ég mundi hafa náð kosningu í því kjördæmi oftar en einu sinni, að því er mér skildist, með einhverjum loforðum um að beita mér fyrir framkvæmd þessa verks. Ég veit ekki til, að ég hafi neitt svikizt um að gera það, sem í mínu valdi hefur staðið til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. En eitt vil ég þó benda hv. þm. á í mesta bróðerni, og það er það, að eitt kjörtímabil var hann sjálfur í stjórnaraðstöðu, þ.e.a.s. studdi þáv. ríkisstj., og ég held, að það sé alveg áhætt fyrir hæstv. núv. ríkisstj. að leggja hiklaust út í samanburð við þá ríkisstj., sem hv. þm. studdi, um það, hvor hafi staðið sig betur í að hrinda þessu mikla nauðsynjamáli í framkvæmd.