19.12.1962
Sameinað þing: 24. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (341)

1. mál, fjárlög 1963

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék hér áðan nokkuð að okkur framsóknarmönnum fyrir ábyrgðarleysi í flutningi till. við fjárfrv. Hann segist hafa lagt það saman, að allar till. frá stjórnarandstöðunni til hækkunar muni nema yfir 36 millj. kr. og muni Framsfl. eiga bróðurpartinn af því. Ég þekki ekki þessa samlagningu hans og skal ekkert um hana ræða. En að hinu vil ég aðeins víkja, hversu fjarstæðukennt það er hjá hæstv. ráðh., að stjórnarandstæðingar megi aldrei flytja hækkunartill. umfram það, sem stjórnarsinnar segja að tekjurnar verði. Það eru stjórnarsinnarnir, sem geta ákveðið, hverjar tekjurnar verða, og svo eiga stjórnarandstæðingar ekki að flytja till. til hækkunar umfram það! Nú hefur sjálfur hæstv. ráðh. lagt fjárlfrv. fyrir þingið með ákveðinni tekjuupphæð og gjaldaupphæð. En það er búið að breyta þessum upphæðum tvisvar sinnum allverulega á stuttum tíma. Ekki hafa þær áætlanir verið réttari en þetta. Hann nefndi sjálfur þessar breytingar, bæði við 2. umr. fjárl. og síðan nú. Hvernig stendur á því, að þeir geta breytt þessum tölum, jafnvel með 2–3 daga millibili, en tili. eða áætlanir, sem aðrir gera, eru allar út í loftið. Hver ætli taki svona tal alvarlega? Það er einmitt það, sem stjórnarandstæðingar hafa gert, að þeir hafa líka áætlað tekjurnar og flytja hækkunartill. við gjöldin í samræmi við þá áætlun, og þeir hafa jafnmikinn rétt á að álita sína tekjuáætlun rétta og hæstv. ráðh.

Þá vék hæstv. ráðh. að því, að á Austurlandi hefðu yfirleitt ekki verið lagðir vegir eða byggðar brýr, og ef ég hef heyrt rétt, þá þóttist hann hafa þetta eftir hv. 1. þm. Austf., hann hafi lýst ástandinu þannig. En hvað hann valdi hér heppilegan tíma til að halda ræðuna, því að hv. 1, þm. Austf. er farinn að sofa og flestir aðrir þm. Gat hann nú ómögulega sagt þetta í kvöld nógu tímanlega? (Fjmrh.: Á að slíta umr., um leið og þessi hv, þm. fer að sofa? ) Það geri ég ekki ráð fyrir. Ég hugsa, að það séu fleiri hér á mælendaskrá, og a.m.k. hefur hæstv. ráðh. tækifæri til að tala aftur, jafnvel eins oft og hann vill. Hann er m.a. að gagnrýna till. til hækkunar á vegum. Hverjir flytja hæstu till. um hækkun til vega? Hverjir flytja till. um 70 millj. kr. lánin til vega? Hæstv. ráðh. kann að segja: Þetta eru ekki fjárlagaútgjöld, það er bara lán. En það er það, sem við höfum gert í 4 ár að flytja till. um lántöku, en ekki gjaldatill. til vega. Þetta hefur hæstv. ráðh. fellt og hans flokkur, og þá verðum við að reyna aðrar leiðir. Nú ætla ég ekki að deila á þessa till. um 70 millj. til Keflavíkurvegar, ég er algerlega samþykkur henni og mun greiða henni atkv. En ég vil, að það sé gert það sama við þá landshluta, sem enn þá verr eru settir en þessi landshluti. Og ef við hefðum fengið okkar frv. fram, sem við höfum flutt svo oft, þá þyrftum við ekki að flytja svona hækkunartill, við fjárlfrv.

Hæstv. ráðh, deilir á framsóknarmenn fyrir að hafa verið í ríkisstj. svo lengi og ekki verið búnir að koma fram þeim umbótamálum í verklegum framkvæmdum, sem við nú erum að flytja till. um. Ætli megi ekki maður manni segja, að eitthvað sé eftir að gera víða? Ég hygg, að hæstv. fjmrh. hafi haft þó nokkur völd hér í Reykjavík alllengi. Er búið að gera allt í Reykjavík, sem þarf að gera? Hvers vegna býr fólk í Reykjavík í bröggum? Ég held, að ég þurfi ekki að vera að minna hæstv. fjmrh. á fleira. Það er víst víðast hvar, sem eitthvað er eftir að gera og verður lengst af, hverjir sem eru í ríkisstj.

Þá sagði hæstv, ráðh., að framsóknarmenn hefðu viljað svipta ríkissjóð tekjum upp á nokkur hundruð millj. með því að afnema söluskattinn, og þegar þeir hefðu verið spurðir, hvað þeir ætluðu að koma með í staðinn, þá hefðu svörin verið þau, að þau svör mundu verða gefin við afgreiðslu fjárl. Þetta er rétt hjá, hæstv. ráðh., og hann segir, að svörin séu hækkunartill., en engar ráðstafanir til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Af hverju? Af því að það er búið að fella till. okkar um að afnema skattinn. Áttum við þá líka að koma með till. um tekjuöflun handa ríkissjóði til að mæta söluskatti, sem ekki var afnuminn?

Á þskj. 218 flyt ég ásamt hv. 2. þm. Vestf. og hv. 4. landsk. þm. mjög litla till., þ.e. um styrk til sjúkraflutninga, þegar slíkur kostnaður verður einstaklingum ofviða. Þetta er ekki bundið við neitt kjördæmi, ekki læknishérað eða neitt þess háttar, heldur landið í heild. Það stendur þannig á stundum, að það þarf í skyndi að fá flugvél til þess að flytja sjúkling í sjúkrahús til að bjarga honum frá bráðum bana. Þetta hefur komið fyrir og mun því miður oftar koma fyrir. Þetta er ekki hægt að gera nema með allmiklum kostnaði, sem viðkomandi menn oft og einatt ráða ekki við. Við leggjum til, að einum 100 þús. kr. verði varið í þessu skyni, til að hlaupa undir bagga, þegar svona sérstaklega stendur á. Ég man t.d. eftir einu dæmi vestur á Barðaströnd, að piltur veiktist í botnlangabólgu og botnlanginn sprakk. Það var ekki hægt að bjarga lífi þessa pilts nema með því að fá í skyndi flugvél til þess að sækja hann og koma honum til Reykjavíkur. Og af því að þetta tókst á örstuttum tíma, tókst að bjarga piltinum. En þegar slíkt kemur fyrir hjá fólki, sem engin möguleg ráð hefur á því að greiða slíkan kostnað, hvað á þá að gera? Er þá ekki betra að eiga einhverja smáupphæð til þess að grípa til? Ég treysti því, að menn séu mér sammála um, að þetta sé ekki ósanngjörn till.

Á þskj. 210 flyt ég einnig ásamt sömu hv. þm. nokkrar till, til hækkunar á fjárveitingum til vega á Vestfjörðum.

Fyrsta till. er um það, að veittar verði 200 þús. kr. til Gufudalsvegar á Barðaströnd. Það stendur svo á um þennan veg, að hann er ekki nema hálflagður á löngum kafla. Það eru aldrei svo miklir þurrkar á sumrin, að ekki sé nóg af pollum og tjörnum á þessum vegi. Hvergi er séð fyrir vatnsrásum meðfram þessum vegaköflum í þessari sveit og vegurinn því alltaf vondur eða mikill hluti hans, jafnvel svo, að hann er orðinn verri en sjálf Þingmannaheiði, þar sem aðeins er þó bráðabirgðavegur og ekki fyrirhugað að liggi vegur til frambúðar. Fyrir nokkrum árum, ég ætla fyrir 3 heldur en 4 árum, — var hætt að veita fé í þennan veg og hefur ekki verið gert síðan. Ég held, að síðasta fjárveitingin hafi verið 1958 heldur en 1959. Það var sama árið og opnaðist vegasamband við Ísafjörð og umferðin um Vestfjarðaveginn, þ. á m. þennan veg, margfaldaðist.

2. till. á þessu þskj. er um það, að veittar skuli til Rauðasandsvegar 180 þús. í staðinn fyrir 80 þús., sem er í till. fjvn. En þessar 80 þús., sem n. leggur til að verði varið í þennan veg, eiga að fara til þess að borga skuld. 100 þús. kr. hækkunin, sem við leggjum til að verði tekin upp, er til þess að lagfæra veginn í Bjarngötudal. Þetta er vegarkafli, sem liggur niður mjög bratta hlíð í sneiðingnum, niður á Rauðasandinn. En það hefur aldrei verið gengið svo frá þessum vegi, að viðunandi sé, að því leyti, að það vantar vatnsrás meðfram veginum til þess að fyrirbyggja, að vatn frjósi á veginum. Um þennan veg flytja Rauðsendingar mjólk annan hvern dag alla vetur. Þegar vatn úr hlíðinni og berginu seytlar yfir veginn, frýs og bólgnar upp, koma þarna stórir svellbólstrar, sem ná fram af vegarbrúninni. Um þetta verða bændurnir að aka á dráttarvélum eða jeppum, og er stórhættulegt, enda hefur það komið fyrir, að ökumaðurinn hefur steypzt fram af svellbunkunum með farartækið og allan flutninginn. Það er fyrst og fremst til þess að afstýra slysahættu, sem þessi till. er flutt.

3. till. er um það að veita 200 þús. kr. í Kollsvíkurveg, þ.e. milli Kollsvíkur og Breiðuvíkur. Við þm. Vestf. höfum fengið nýlega bréf frá bændunum í Kollsvík, þar sem þeir eru mjög kröfuharðir um, að veitt verði fé til þessa vegar. Þeir geta nefnilega ekki sótt guðshúsið sitt, nema þetta verði gert. Kirkjan er í Breiðuvík, en enginn vegur yfir Breiðuvíkurháls. Það er að vísu vegur aðra leið, þ.e. um Hænuvíkurháls, um Hænuvík, Sellátranes, Örlygsstaðahöfn og Hafnarfjall. Þetta er hér um bil fjórum sinnum lengra — eða 3–4 sinnum lengra — og það er yfir tvo fjallgarða að fara, auk þess ekki hægt að fara á veturna. Fólkið í Kollsvík getur því ekki notfært sér kirkjuna í Breiðuvík. Það eru þó nokkur börn í Kollsvík, og mér þykir sennilegt, að ekkert af þessum börnum hafi nokkurn tíma séð kirkjuna sína. Ég veit ekki til, að þeir sæki þessa kirkju yfirleitt, nema ef það kann að vera, að þeir fari þangað með lík, þegar þarf að jarða, — það getur verið, en þá fara þeir löngu leiðina.

4. till. á þessu þskj. eða fjórði vegurinn á þessu þskj., sem við leggjum til að verði veitt fé í, er Tálknafjarðarvegur. Það er vegurinn, sem liggur út með Tálknafirðinum að norðanverðu. Við leggjum til, að í hann verði varið 200 þús. kr. Svo stendur á, að þessi vegur liggur neðan við Sveinseyri í fjörunni, mjög lélegur og bráðabirgðavegur. En þessi vegur í fjörunni undir bökkunum á Sveinseyri er ófær, strax og fer að hausta að. Hjálpast þar hvort tveggja að: sjórinn á annan veginn og snjóskaflar á hinn veginn, að enginn kemst þá leið. Bændurnir, sem búa utar í Tálknafirði, verða að fara yfir túnið á Sveinseyri, ef þeir eiga að komast í verzlunarstaðinn sinn, og bóndinn hefur verið svo lipur og greiðvikinn við þessa bændur, að hann hefur leyft þeim að aka yfir túnið sitt, þar sem enginn vegur er nothæfur. Nú hefur hann tekið þennan kafla af túninu til ræktunar og segist ekki geta leyft þetta lengur, hversu feginn sem hann þó vildi. Ég veit ekki, hvernig þetta mál leysist á næsta ári, ef engin króna fæst til þess að leggja þennan vegarspotta, annaðhvort yfir túnið eða þá ofan við túnið.

Fimmti vegurinn, sem við leggjum til að verði veitt fé í, er Bíldudalsvegur, þ.e. Hálfdan. Hálfdan er sá fjallgarður, sem liggur á milli Arnarfjarðar og Tálknafjarðar. Að norðanverðu á Hálfdan er kominn mjög sæmilega góður vegur neðan til, en þegar kemur upp undir kjölinn og þó ekki það og alla leiðina að sunnanverðu er vegurinn gerómögulegur, svo að það er orðið nærri því eins gott að fara utan við veginn. Í þennan veg hefur ekki verið veitt fé í nokkur ár, og er óhjákvæmilegt að bæta þennan veg, þ.e. Hálfdan að sunnanverðu. Því er þessi till. flutt. Í fáum orðum sagt, hefur ekkí verið veitt fé lengi í vegi í Arnarfirði, ekki er ein einasta króna í vegi á núgildandi fjárl. í neinn veg í Arnarfirði að vestanverðu. Og við svipað eiga þeir að búa áfram, að manni sýnist.

Við flytjum till. um 100 þús. kr. í Dalahreppsveg. Það er aðeins til þess að lagfæra það allra lakasta, því þó að hreppurinn sé mjög orðinn tæmdur af fólki, þá eru þó eftir eitthvað um 6 bæir eða svo. Mjólkurflutningar fara þarna um daglega til Bíldudals, og skólabörnin þurfa að komast eftir vegi, sem hv. 4. landsk. þm. var að tala um áðan. Og 100 þús. kr. er ekki há upphæð til að lagfæra þarna eitthvað.

Sjöundi vegurinn, sem við leggjum til að veita fé í, er svokallaður Suðurfjarðavegur, sem sumir hv. þm. hafa heyrt nefndan hér í þingsölunum fyrr. Nú ætla ég að vera fáorður um þennan, veg, vegna þess að fyrir stuttu var til umr. hér í sameinuðu þingi till. til þál. um vegamál Vestfjarða og þá bar hann nokkuð á góma. Ég þarf víst ekki að endurtaka neitt af því, sem þá var sagt. Það vita allir hér, hversu geysimikla áherzlu Arnfirðingar leggja á það að fá vegasamband upp á Dynjandisheiði við nýjan veg, sem þar liggur um, og komast þannig þá leiðina í samband víð þjóðvegakerfið. Fjvn. leggur til, að í þennan veg verði varið 200 þús. kr. En samkv. því, sem vegamálastjóri hefur sagt, mun það vera til þess að leggja veg að brúnni, sem á að byggja á næsta ári á Sunnudalsá, en alls ekki byrja á neinum vegi upp heiðarsporðinn. Við getum ekki sætt okkur við það, að svo verði, og ég held, að Arnfirðingar muni ekki sætta sig við það heldur. Við flytjum þá till., að í staðinn fyrir 200 þús. kr. komi 600 þús. kr. Við vitum, að þetta er aðeins byrjunin á þessum vegi, en byrjunin verður engin, ef 200 þús. kr. eiga að standa.

Þó leggjum við til, að í Ingjaldssandsveg verði varið 150 þús. kr., en það er vegurinn frá Núpi og út á Ingjaldssand í Dýrafirði. Þessi vegur er að vísu orðinn fær út á Ingjaldssand, en alls ekki viðunandi. Viljum við, að þessi vegur sé bættur svo, að hann verði nothæfur, meðan heiðin er að öðru leyti fær vegna snjóa, en á Ingjaldssandi búa 9—10 fjölskyldur og algerlega einangraðar að öðru leyti en hafa þennan ófullgerða veg, sem nú er, því að hæpið er, að þeir geti notað sjóleiðina til Flateyrar, sem er þeirra verzlunarstaður, vegna þess, hve lendingin er viðsjárverð á Ingjaldssandi, enda er Ingjaldssandur fyrir opnu hafi.

Þá leggjum við til, að 400 þús. kr. verði varið í Ísafjarðarveg, þ.e.a.s. Breiðadalsheiði. Menn vita það sjálfsagt, að á leiðinni um Vestfirðina til Ísafjarðar eru aðallega tvær heiðar, sem eru miklir þröskuldar. Það er Þingmannaheiði og það er Breiðadalsheiði. En Breiðadalsheiði lokast fyrr en Þingmannaheiði þrátt fyrir þennan bráðabirgðaveg á Þingmannaheiði. Það er af því, að hún er hærri og snjóar fyrr þar. Það kemur varla nokkurn tíma svo snjór, að ekki lokist vegurinn á Breiðadalsheiði, enda er hún einir 610 m á hæð, ef ég man rétt. Þarna þarf að byggja upp veginn á köflunum, þar sem mest er aðkallandi, til þess að vegurinn lokist ekki eins fljótt og hann gerir, og til þess er ekki hægt að hugsa sér minni upphæð en þetta.

Þá leggjum við til, að til Hnífsdals- og Bolungarvíkurvegar verði nú varið 350 þús. kr. Í þennan veg ætla ég ekki að hafi verið nein fjárveiting lengi. Þetta er hin nafnkunna Óshlíð, sem talin er mjög hættulegur vegur, enda hafa þar orðið slys, en aðallega vegna grjóthruns úr fjallinu. En allir, sem hafa farið Óshlíð, munu finna, að það er aðkallandi, að vegurinn sjálfur sé sæmilega úr garði gerður, þótt ekki sé hægt að ráða við grjóthrunið að ofan. En þessi vegur er það ekki, því að það hefur aldrei verið borið ofan í hann, sem talizt getur. Það þarf slitlag, það þarf ofaníburð ofan á þennan veg, svo að hann sé viðunandi. Það þarf að koma vatni af honum, setja ræsi og setja vatnsrásir. En á milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar er feikilega mikil umferð, bæði fólks og vöruflutninga.

Þá leggjum við til, að í Súðavíkurveg verði varið 250 þús., og er í öllum aðalatriðum það sama að segja um þann veg og Bolungarvíkurveginn eða Óshlíðina. Í langa tíð hefur ekki verið varið fé í þennan veg, og hann hefur aldrei verið fullgerður, þar vantar einnig það sama, ofaníburð og ræsi.

Þá kem ég að Fjarðarvegi. En þetta er ekki vegur að undanteknum litlum spotta, heldur veglaust land, löng leið milli Álftafjarðar og Ögurs, — enginn vegur, strjál byggð að vísu, en þó nokkrir bæir. Það er mikið viðfangsefni, sem má ekki láta dragast lengur, að byrjað sé á fyrir alvöru með einhverju verulegu átaki að leggja þennan veg. Það er að opna vegasambandið við allt Ísafjarðardjúp til Ísafjarðar. Það er að koma Inndjúpinu öllu í vegasamband við Ísafjarðarkaupstað. Það verður ekki gert á einu ári eða tveimur. Það þarf lengri tíma til, það er mér ljóst, nema það verði gert fyrir lánsfé. En það þarf að byrja á þessum vegi með myndarlegri fjárhæð, og því leggjum við til, að nú verði varið í hann 500 þús. kr., sem er auðvitað ákaflega litið, en við erum hófsamir í okkar till. Þetta komi í staðinn fyrir 60 þús. kr., sem stendur í till. fjvn. Ég held, að vegalengdin sé eitthvað 70–50 km og það á að leggja í það 60 þús. kr.

Þá leggjum við til, að fjárveitingin í Reykjarfjarðarveg á Ströndum hækki úr 500 þús., sem er í till. fjvn., í 700 þús. Þetta er til þess að tengja Arneshrepp við vegakerfið. Flestum er sjálfsagt kunnugt um, hversu aðkallandi það er, að það taki ekki langan tíma úr þessu. Við viljum því hækka þessa fjárveitingu, svo að styttri tíma taki að koma fólkinu í Árneshreppi í vegasamband. Arneshreppur er mjög myndarlegur hreppur. Þar eru geysimikil ræktunarskilyrði, margar góðar jarðir, mikið um hlunnindi með mörgum jörðunum, mjög góð aðstaða til fiskveiða á sumum tímum, og yfirleitt er hreppurinn glæsileg byggð, en einangraður frá vegakerfi landsins. Við viljum hraða því meira en ætlazt er til með till. fjvn., að þessi myndarlega sveit komist í vegasamband.

Loks er það Strandavegur, en við leggjum til, að fjárveiting til hans hækki úr 400 þús. í 600 þús. kr. Það er fyrst og fremst v egna þess, að í Kirkjubólshreppi eru kaflar á veginum, sem lokast af snjó ákaflega fljótt og er óhjákvæmilegt að byggja upp að nýju sem allra fyrst. Þarna fara fram líka mjólkurflutningar til Hólmavikur, og kemur sér því illa, að þessi vegur skuli lokast, eins og raun ber vitni um. En auk þess þarf þessi vegur að vera fær til Þverárvirkjunar, eins og menn geta auðveldlega skilið.

Ég vil ekki lengja þessar umr. meira. Ég hef nefnt þær till. í vegamálum, sem við flytjum hér, og ég vænti, að þær mæti fullum skilningi hjá hv. þm.