20.12.1962
Sameinað þing: 25. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 536 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

1. mál, fjárlög 1963

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Á almennum þingmálafundi, sem haldinn var á Bíldudal í sumar, var þetta mál rætt ýtarlega. Á þeim fundi var mætt hreppsnefnd og oddviti hreppsins. Með því að fullt samkomulag var um, að sem fyrsti áfangi skyldu gerðar tilraunir til þess að fá nægilegt fé til að bæta veginn að Trostansfirði og sjá um, að brúaðar yrðu þær ár, sem eru á þeirri leið, en þetta er höfuðskilyrði til að geta opnað leiðina vestur á Dynjandisheiði, og að séð hefur verið á fjárl. fyrir því fé, sem þarf til þess að fullnægja þessum fyrsta áfanga, þá segi ég nei við þessari till.