17.12.1962
Efri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í B-deild Alþingistíðinda. (356)

3. mál, landsdómur

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað þetta frv. og er sammála um að mæla með því, að það verði samþ. með nokkrum breytingum, sem fluttar eru till. um á þskj. 168.

Þegar þetta frv. var lagt fyrir þessa hv. d. af hæstv. dómsmrh., gerði hann rækilega grein fyrir efni frv. og málinu í heild. Með frv. er enn fremur allýtarleg grg. um bæði skipun þessara mála, eins og hún er nú, skipun þeirra með nokkrum öðrum þjóðum og svo um þá skipun, sem ráðgerð er eftir þessu frv., og hafa hv. dm. getað kynnt sér hana. Ég sé því ekki ástæðu til þess nú að ræða hér um málið almennt, en mun snúa mér að því að gera stutta grein fyrir þeim brtt., sem n. flytur á þskj. 168. Um þær brtt. er það að segja, að þær eru allar fluttar samkv. ábendingu hæstaréttar, en honum var frv. sent til umsagnar.

1. brtt. er við 2. gr. og við a-lið gr. Í þeirri brtt. er eiginlega um að ræða tvær breytingar frá frv. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að í stað þess, að í frv, er gert ráð fyrir, að forseti lagadeildar sé dómari í landsdómi, þá er svo ákveðið í þessari brtt., að það sé prófessorinn í stjórnskipunarrétti. Frá mínu sjónarmiði er hér um að ræða atriði, sem ekki skiptir miklu máli, og það er reyndar bent á það í grg. með frv., að það gæti verið álitamál, hvort heldur ætti að vera forseti lagadeildar, prófessorinn í stjórnskipunarrétti eða jafnvel prófessorinn í refsirétti. En þessi breyting er sem samt gerð samkv. ábendingu hæstaréttar. Það þarf naumast að taka það fram, að það leiðir af öðrum ákvæðum í þessu frv., að ef prófessorinn í stjórnskipunarrétti er alþm., þá kemur hann ekki til greina, þar sem alþm. geta ekki átt sæti í landsdómi samkv. þessum lögum.

Annað atriði í þessari brtt. er það, að þar er tekið fram um skipun varadómara hinna löglærðu dómara. En í frv. var það ekki gert og hefðu þá samkv. því komið til greina reglur, sem almennt gilda um varadómara í hæstarétti og um varaforseta lagadeildar. Hins vegar hefði mátt segja, að þá væri ekki séð fyrir varamanni yfirsakadómara í Reykjavík. En það hefði að vísu ekki þurft að koma að sök, vegna þess að það er ekki skilyrði, að dómurinn sé fullskipaður, þegar hann fjallar um mál. En þessi breyting er vafalaust til bóta. Þar er tekið skýrt fram og kveðið á um það greinilega, hvernig varadómendur skuli tilnefndir.

2. brtt. er við 3. gr. og er um það, að við bætist ný mgr., sem með leyfi forseta hljóðar svo:

„Skyldir menn eða mægðir að feðgatali eða niðja eða hjón, kjörforeldri og kjörbarn, fósturforeldri og fósturbarn eða skyldir eða mægðir að fyrsta eða öðrum lið til hliðar mega ekki sitja samtímis í landsdómi.“

Þetta er eðlilegt, er í samræmi við það, sem ákveðið er í hæstaréttarlögum, en þessa var ekki getið í frv.

3. brtt. er við 6. gr. 1 þeirri breyt. felst það atriði, að samkv. frv. var gert ráð fyrir því, að ef forseti hæstaréttar forfallaðist, kysi landsdómurinn mann í hans stað sem varaforseta landsdóms, en í þessari brtt. felst það, að varaforseti hæstaréttar á einnig að vera varaforseti landsdóms. Þetta er eðlilegt. Það er ný skipun, að það skuli vera kosinn varaforseti í hæstarétti, lögboðin með hæstaréttari., sem sett voru á síðasta Alþingi.

Svo er það 4. brtt. Hún er um, að það komi ný grein á eftir 49. gr. frv. og verði 50. gr., og efni þeirrar brtt. er það að veita heimild til endurupptöku máls fyrir landsdómi, ef til þess eru sérstakar og ríkar ástæður. Heimild til þess var ekki í frv. Væntanlega verður ekki mikið af því, að mál, sem dæmd eru af landsdómi, ef einhver verða, verði endurupptekin. Og það er mín skoðun, að heimild til slíks eigi að vera mjög þröng. En á það má hins vegar fallast, að þegar alveg sérstök og sérleg atvik, sem bent er á í þessari brtt., eru fyrir hendi, þá sé rétt að opna leið til þess að fá málið upp tekið. En heimildin til endurupptöku málsins er sem sagt bundin við það, að landsdómur getur leyft, — þar er aðeins um heimild að ræða, — að mál, sem þar hefur verið dæmt, verði tekið til meðferðar að nýju, ef fram eru komin ný gögn, sem ljóst eða líklegt gera, að dómfelldi hefði verið sýkn eða dæmdur fyrir mun minna brot, ef þau gögn hefðu komið fyrir dómendur, áður en dómur gekk, eða ef ætla má, að falsgögn hafi valdið refsidómi að einhverju eða öllu leyti.

Fleiri breytingar við þetta frv. sá allshn. ekki ástæðu til að gera. Ég leyfi mér að endurtaka það, sem ég gat um, að allshn. mælir einróma með samþykkt frv. með þessum breytingum.