05.02.1963
Neðri deild: 35. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (363)

3. mál, landsdómur

Frsm. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Allshn. hefur athugað frv. til l. um landsdóm, og leggur n. til, að frv. verði samþ. eins og það kom frá Ed. til þessarar d. Einn nm., hv. 8. landsk. þm., var ekki viðstaddur á þeim fundi, sem frv. var afgreitt á.

Frv. þetta er stjfrv., flutt í Ed., og voru þar gerðar á því nokkrar breytingar varðandi skipun dómsins og endurupptöku mála fyrir dóminum. Frv. þessu er, ef að lögum verður, annars ætlað að koma í stað l. nr. 11 1905 og l. nr. 30 1914, en bæði þessi lög kveða á um skipun landsdóms og meðferð mála fyrir þeim dómi. Eru ákvæði þessara laga nú að flestu leyti orðin úrelt, og hafa reglurnar um skipun dómsins raunar alltaf verið ærið flóknar og nú orðið kannske litt framkvæmanlegar eftir þessum tvennum lögum. Samkv. frv. þessu eru reglurnar um skipun dómsins og meðferð mála fyrir honum gerðar einfaldari og miðaðar við breyttar aðstæður, frá því að 1. um dóminn voru sett. Hitt er svo annað mál, að í þróuðum lýðræðis- og þingræðislöndum hefur sjaldan til þess komið á síðustu áratugum, að mál á hendur ráðh. fyrir embættisverk þeirra hafi verið rekin fyrir hliðstæðum dómstólum og landsdómur er, og verður sjálfsagt litil breyting á þessu, a.m.k. hér á landi, þrátt fyrir setningu nýrra l. um skipun dómsins. En eðlilegt verður að telja, að um skipun dómsins og meðferð mála fyrir honum gildi vel framkvæmanlegar reglur, eins og þetta frv. kveður á um, úr því að íslenzk stjórnskipunarlög gera á annað borð ráð fyrir, að landsdómur sé til og til hans kunni að verða vísað sérstökum málum.

Ég tel svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um frv. að svo stöddu, enda gerði hæstv. dómsmrh. ýtarlega grein fyrir því í framsöguræðu sinni hér í þessari hv. d., en eins og ég áður tók fram, leggur allshn. til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed.