18.10.1962
Efri deild: 4. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 550 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

4. mál, ráðherraábyrgð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þetta frv. er náskylt hinu, sem hv. d. var að vísa til 2. umr. nú áðan. Áskorun Alþingis um endurskoðun á þessari löggjöf náði að vísu einungis til laganna um landsdóm. En mér þótti einsýnt, úr því að sú löggjöf væri endurskoðuð, þá væri einnig endurskoðuð löggjöfin um ráðherraábyrgð, einkanlega vegna þess, að sú löggjöf var einnig frá upphafi stórlega gölluð og sætti ætíð í lögfræðingahóp töluverðri gagnrýni, meira þó af formsástæðum en efnis.

Prófessor Ólafur Jóhannesson tók einnig að sér að semja frv. til laga um ráðherraábyrgð og leysti það, eins og vænta mátti, ágætlega af hendi. Þar voru þó nokkur atriði, sem ég taldi að betur mættu fara. Og við urðum þegar í stað sammála um það — enginn ágreiningur okkar á milli — að breyta frv. í þeim efnum. Er frv. því borið fram með þeim breytingum, sem dómsmrn. taldi horfa til bóta, en með fullu samþykki prófessors Ólafs.

Það má auðvitað nokkuð deila um, hver þörf sé á sérstökum lögum um ráðherraábyrgð, jafnvel þó að raunhæft yrði að koma lögformlegri ábyrgð, refsiábyrgð, fram á hendur ráðherra, því að sýnt er, að ef sérstök löggjöf gildir ekki, þá er ráðh. þó undirseldur hin almennu hegningarlög einnig um sínar embættisathafnir. 1 Danmörku, sem hefur verið fyrirmynd okkar í þessum efnum, er þrálátur ágreiningur um þörfina á sérstökum lögum um ráðherraábyrgð. Hér á landi hefur það ætíð verið talið skylt skv. stjórnarskránni, eins og hún hefur verið orðuð allt frá 1903, að hafa sérstök lög um ráðherraábyrgð, og ég tel, að svo sé enn. Og úr því að sú skylda er fyrir hendi, þá fer eins og um lögin um landsdóm, að þá er í alla staði heppilegra að hafa framkvæmanleg og vel samin lög heldur en litt framkvæmanleg og ógreinileg eða óheppileg lög.

Ég hygg, að ekki geti orðið ágreiningur um það, að þetta lagafrv. geti orðið til bóta. Í því eru ekki gerðar neinar stórvægilegar efnisbreytingar frá því, sem verið hefur. Þó að ákvæði almennu hegningarlaganna nái einnig til ráðherra, þá sé starf þeirra um sumt svo sérstaks eðlis, að eðlilegt er, að sérlöggjöf gildi um þá.

Það er sérstaklega eitt atriði, sem þar hefur reynt á og kemur til. Það er, hvaða reglur skuli gilda um ábyrgð ráðherra á verkum annarra manna og þá um hlutdeild þeirra í broti, sem annar hefur framið. Þessu er nú í þessu frv. nokkuð breytt frá því, sem í gildi er. Segja má, að gildandi ákvæði hafi verið skilin þannig, ef til vill ekki ágreiningslaust, en hinn ríkjandi skilningur hefur verið sá, að ráðherra bæri ábyrgð á stjórnarathöfn, sem annar ráðh. hefur framið, ef hann gerði ekki sérstakar ráðstafanir til þess að firra sig ábyrgðinni. Og að minnsta kosti varðandi þær ákvarðanir, sem teknar eru á ráðherrafundi eða í ríkisráði, hefur verið talið nauðsynlegt, að ráðherra þyrfti beint að segja af sér embætti til þess að firra sig ábyrgð á athöfn eða athafnaleysi, sem meðráðherra hans þó fyrst og fremst er ábyrgur fyrir og hefur ákveðið innan sinna embættistakmarka. Það er ljóst, að slík ábyrgð er meiri en almenn pólitísk ábyrgð nær, eins og hún hefur verið framkvæmd, og nær lengra en réttarvitund almennings segir til um. Þessi ákvæði eru nú gerð þrengri en verið hefur. Kemur það einkanlega fram í 3., 4. og 5. gr., að þar þarf ráðh. beint að hafa stuðlað að athöfn, til þess að hann verði talinn bera á henni slíka ábyrgð, að refsingu verði komið fram gegn honum. Eins og ég segi, þá er þetta takmarkaðri ábyrgð en talið hefur verið eftir bókstafnum að enn hafi verið í gildi. A.m.k. sem ráðh. hlýt ég að mæla með þeirri takmörkun ábyrgðarinnar, því að það eru minni líkur en ella til þess, að maður lendi í refsingu fyrir þau afbrot, sem aðrir gera, nóg er nú það, sem menn fremja sjálfir. En ég hygg einnig, að þessi breyting sé í samræmi við almennar réttarfarshugmyndir og við þá pólitísku ábyrgð, eins og hún hefur þróazt og hlýtur að þróast, a.m.k. þar sem samsteypustjórnir eru langvarandi, eins og verið hefur nær óslitið hér á landi, frá því, að ráðherrar urðu fleiri en einn.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frv. Í því eru litlar verulegar efnisbreytingar frá því, sem áður var, umfram þá breytingu, sem ég hef nú gert grein fyrir. En frv. allt er skipulegar samið og í betra horfi en gildandi löggjöf. Ég legg því til, að frv. verði vísað til 2. umr. og til allshn.