17.12.1962
Efri deild: 30. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í B-deild Alþingistíðinda. (371)

4. mál, ráðherraábyrgð

Frsm. meiri hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég geri ekki mjög miklar aths. við ræðu hv. 9. þm. Reykv. Það er sjálfsagt svo, að það mætti eitthvað betrumbæta þetta frv., sem hér liggur fyrir, með enn rækilegri athugun og með því, að fleiri menn fjölluðu um það. Sízt af öllu skal ég neita því. En eins og kom fram í ræðu hv. frsm. minni hl. og kemur reyndar fram í nál. hans, byggist till. hans um vísun málsins til ríkisstj. til nýrrar endurskoðunar ekki á því, að hann óski rækilegri athugunar á málinu eða rækilegri lagasetningar, heldur á hinu, að hann telur betur farið, að hin gömlu lög séu áfram í gildi um þetta efni, og kysi þó allra helzt, að mér skilst, að engin sérstök lög um ábyrgð ráðh. væru til.

Nú er það að sjálfsögðu svo, eins og ég drap á í hinni stuttu framsögu áðan, að mjög geta verið skiptar skoðanir um það, hvort nú á dögum sé þörf á sérstökum ráðherraábyrgðarlögum, þar sem auðvitað mundi afnám ráðherraábyrgðarlaganna ekki þýða það, að ráðh. væru ábyrgðarlausir, því að vitaskuld bera ráðh. ábyrgð, eins og hverjir aðrir embættismenn, samkv. almennum hegningarlögum. Og þar sem þingræði er orðið fast í sessi, verður a.m.k. ekki nema á alveg óvenjulegum tímum þörf fyrir sérstaka ráðherraábyrgð og landsdómsmeðferð til þess að tryggja það, en þó getur það átt sér stað. En þó að enginn sérstök ráðherraábyrgðarlög væru til, gæti auðvitað eftir sem áður eins fyrir það komið til málsóknar á hendur ráðh., og ég býst satt að segja ekki við því, að það sé svo ýkjamikill munur á efnisreglum þessa frv. og því, sem telja má með lögskýringum að felist í almennum hegningarlögum, þannig að ég býst við því, að það hefði ekki neitt ýkjamikla breytingu í för með sér um efnislega ábyrgð ráðh., þó að engin sérlög væru til um það efni. Þó verð ég að segja það sem mína skoðun, að ég tel það heppilegra, að það séu sérstök lög um ábyrgð ráðh., því að ráðh. hafa óneitanlega svo mikla sérstöðu meðal embættismanna, að það getur verið æskilegt að hafa viss ákvæði í sérstökum ráðherraábyrgðarlögum til fyllingar á ákvæðum almennra hegningarlaga. Það er í raun og veru það, sem þessi lög eru. Þau eru að verulegu leyti nánast til fyllingar á almennum hegningarlögum. Viss atriði geta þó komið til greina, t, d. í sambandi við það, ef ráðherra eða ráðherrar á óvenjulegum tímum gerðust brotlegir t.d. við þingræðisregluna þá gæti verið, að það væri ekki svo ljóst, hvort slík brot féllu undir almenn hegningarlög, að það væri betra að hafa sérlög um þetta efni, sem skæru alveg úr um það atriði.

Mér finnst, að sá ótti, sem fram kemur í nál. hv. minni hl., byggist ekki í raun og veru á því, að það séu til sérstakar efnisreglur um ábyrgð ráðh., heldur er það atriði, sem hann er í raun og veru hræddur við, saksóknarrétturinn. Það er greinilegt, að það, sem hann óttast, er, að Alþingi misbeiti því valdi, sem það hefur í sambandi við meðferð þessara mála. En nú er það svo, að sá réttur byggist á stjórnarskránni, og hvort sem menn álíta það rétt eða rangt, heppilegt eða óheppilegt, að Alþingi hafi málshöfðunarrétt út af þessum brotum, þá verður þeirri reglu á engan hátt haggað með þessum ráðherraábyrgðarlögum. Og þó að ekki væru sett ný lög um þetta efni, þó að gömlu lögin giltu áfram og þó að engin ráðherraábyrgðarlög væru til, þá væri alveg eins þessi möguleiki fyrir hendi, að Alþingi misbeitti sínu valdi til málshöfðunar að ástæðulausu.

Nú er það hins vegar svo, eins og hv. þm. drap á, að reynslan bendir ekki til þess, að hætta sé á misbeitingu í þessu efni af hálfu Alþ., og enn fremur er þess að gæta, að það er aðeins á fyrsta stigi, sem Alþingi hefur mat um það, hvort ráðh. hafi gerzt brotlegur. Að síðustu verður það landsdómur, sem um það dæmir, og ég held, að eins og gert er ráð fyrir, að hann sé skipaður, sé ekki ástæða til þess að óttast sérstaklega misbeitingu af hans hálfu. Það er að vísu rétt, eins og hv. frsm. minni hl. benti á, að í þessu frv. eru matskennd ákvæði. Og hjá því verður ekki komizt að mínum dómi í lögum um ráðherraábyrgð. Það er ómögulegt að sjá fyrir og telja upp alveg sérstaklega þau brot, sem ráðh. kann hugsanlega að gerast sekur um. Það er óhjákvæmilegt að hafa matskennd ákvæði, sem dómstóllinn, sem reynt er að skipa þannig, að réttaröryggi sé borgið, verður að hafa síðasta orðið um. Það er að vísu rétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að þess er getið í grg. með frv., að a-liður 10. gr. hans sé nýmæli, og það er sagt, að hann sé matskenndur. En sannleikurinn er nú sá, að þó að þetta sé tekið þarna skýrt fram um þetta atriði, þá er allt eins líklegt, að 4. gr. í núgildandi lögum yrði skýrð á þá lund, að hún tæki til þvílíkrar misnotkunar, sem þarna er gert ráð fyrir. Þannig að það má segja kannske, að að þessu leyti sé frv. skýrara en núgildandi lög.

Viðvíkjandi því, sem frsm. minni hl. fann að þessu frv., að það væri víðtækara, gerði eiginlega ráðherraábyrgðina víðtækari en eftir núgildandi lögum, það held ég, að sé í verulegum atriðum á misskilningi byggt. Í fyrsta lagi er þess að geta, að fyrningarfresturinn er styttur, þannig að það eru nú 3 ár í staðinn fyrir 5 ár áður. Það miðar að því að þrengja ábyrgð ráðherra, þannig að hann þurfi ekki að vera lengi í óvissu um það, hvort til nokkurrar málshöfðunar út af umdeildu atferli hans komi eða ekki. Í öðru lagi er ábyrgð ráðh. á athöfnum samráðh. og raunar undirmanna líka þrengd frá því, sem a.m.k. af sumum fræðimönnum hefur verið talið rétt vera í þessu efni.

Af því, sem ég hef hér bent á, leiðir, að ég get að sjálfsögðu ekki mælt með samþykkt þessarar rökst. dagskrár og legg til, að hún verði felld.