31.01.1963
Neðri deild: 33. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (378)

4. mál, ráðherraábyrgð

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir aðalatriðum þessa máls í sambandi við næsta mál á undan og skal ekki ítreka það, sem ég áður sagði. Ég vil einungis taka fram, að það er misskilningur, sem sumir hafa ætlað, að með þessu frv. sé veríð að auka hina lögformlegu ábyrgð ráðherra frá því, sem verið hefur. Svo er ekki. Hún er í raun og veru takmarkaðri eftir þessu frv. en eftir núgildandi lögum, þannig að talið hefur verið, að ráðherra bæri ábyrgð á því, sem samráðherrar hans gerðu, ef hann segði þá ekki af sér vegna ágreinings, sem upp hefði komið. En eftir frv. þarf í raun og veru beina aðild að óheimilli ráðstöfun annars ráðherra, til þess að hún verði talin hinum til sakar. Þetta er eðlilegri réttarregla og horfir til bóta.

Að öðru leyti tel ég, að það séu ekki ýkjamiklar nýjungar í þessu frv. Það miðar við núgildandi réttarástand, að ráðherrar séu fleiri en einn, og er lögformlega í miklu betra formi einnig að öðru leyti en þessu heldur en núgildandi löggjöf. Ég tel því tvímælalaust til bóta, að þetta frv. verði samþ.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. allshn.