21.11.1962
Neðri deild: 18. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í B-deild Alþingistíðinda. (44)

99. mál, framkvæmdalán

Eysteinn Jónsson:

Ég held, að þetta sé eitthvað farið að snúast við í huga hæstv. ráðh. Það er nú kannske ekki meira en gerist og gengur. Ég skal ekki þreyta um þetta langar kappræður, en ég vildi samt aðeins gera tilraun til að rifja upp fyrir hæstv. ráðh., hvernig þetta var. Ég held, að það hafi enginn gleymt því, að þegar stjórnin lagði fram sínar efnahagsáætlanir, var höfuðáherzlan lögð á, að það yrði að gera þessar nýju ráðstafanir og kjaraskerðingarráðstafanir vegna greiðsluhallans, sem hefði verið við útlönd, og það væri það, sem umfram allt yrði að varast, að hafa greiðsluhalla við útlönd. Hvernig var svo þessi greiðsluhalli fundinn, sem var fordæmdur á þessa lund af hæstv. ríkisstj. og hennar ráðunautum? Hann var yfir höfuð til kominn, þessi greiðsluhalli, vegna þess, að það höfðu verið tekin erlend framkvæmdalán og þeim varið til þess að reisa stórvirki í landinu, eins og Sogsvirkjunina, sementsverksmiðjuna og til skipakaupa og fjöldamargs annars. Þannig var þessi greiðsluhalli til kominn.

Og það var þessi greiðsluhallapólitík, sem þeir kölluðu, sem átti að gera það að verkum, að það þyrfti að brjóta alveg blað í efnahagsmálum landsins og leggja stórkostlegar byrðar á þjóðina. Nú segir hæstv. ráðh., að því fari á hinn bóginn alls fjarri, að með þessu hafi nokkuð verið sagt um, að hinar erlendu framkvæmdalántökur hefðu ekki verið og væru sjálfsagðar áfram.

Hvað var sagt 1960?

Þá voru þessar framkvæmdalántökur kallaðar greiðsluhalli, sem væri að íþyngja landsmönnum svo stórkostlega, að það yrði að framkvæma nýjar, stórfelldar kjaraskerðingar. En einn af aðalhagfræðingum landsins, Benjamín Eiríksson, lýsti því yfir um þessar mundir sem sinni skoðun, að Íslendingar hefðu aldrei staðið betur að vígi til að geta staðið undir sínum skuldbindingum út á við eða greiðslum af lánum heldur en einmitt þá, þó að það hefði verið tekið talsvert mikið af lánum og verið greiðsluhalli, því að í bókhaldi þessarar ríkisstj. heitir það greiðsluhalli að taka erlent lán og verja því til framkvæmda innanlands.

Og það, sem hæstv. ríkisstj. er að gera núna, er að efna til greiðsluhalla af sama tagi og hún fordæmdi áður. Ef öll önnur atriði í greiðslureikningnum stæðu jafnt, yrði greiðsluhalli, sem svarar þessu 240 millj. láni, sem nú er verið að leggja til að taka. M.ö.o.: hæstv. ríkisstj. er nú að leggja til að taka upp nákvæmlega sömu pólítík og rekin var, áður en hún tók til við viðreisnina og þegar hún fordæmdi greiðsluhallann við útlönd og erlendu lántökurnar. En svo segir hæstv. fjmrh., að það hafi aldrei verið sagt neitt í þá átt, að neitt hafi verið athugavert við þá pólitík að taka erlendu lánin — síður en svo.

Þá er varðandi það, hvernig þetta var flutt að öðru leyti varðandi byrðina af erlendu lánunum. Það var sagt alveg fullum fetum í málflutningi stjórnarliðsins þá, að það, sem þjóðin hefði úr að spila, væru gjaldeyristekjur þjóðarinnar, þ.e.a.s. það, sem hún aflaði sér í gjaldeyristekjur, að frádregnum afborgunum af erlendu lánunum, m.ö.o. að erlendar lántökur áttu ekki að koma til greina, þær áttu ekki að koma inn í dæmið, og svo var reiknað út, hvað kjaraskerðingin yrði að vera mikil, til þess að þjóðin gæti án þess að fá nokkurt erlent lánsfé inn í landið greitt niður skuldirnar.

Það þarf ekkert annað en kynna sér t.d. álit norska hagfræðingsins, sem ég vísaði til áðan, þar sem hann er fenginn til að mynda sér skoðun á því, hvort þurft hefði að leggja þessa kjaraskerðingu á. Honum er gefin sem undirstaða, að það verði að gera ráð fyrir, að af þjóðartekjunum verði að taka afborganirnar af erlendu lánunum, án þess að nokkur lán komi þar í móti. Þannig var þessu stillt upp, og þannig var þetta dæmi hugsað. En það, sem við gerðum strax, var að benda á veilurnar í þessu. Í fyrsta lagi, að þessi greiðsluhalli við útlönd, sem var talinn svona óttalegur og hafður að tylliástæðu fyrir kjaraskerðingunni, var til kominn vegna mikilla framkvæmda í landinu, sem áttu að geta gert a.m.k. ekki erfiðara en áður að standa undir erlendu lánunum.

Enn fremur bentum við á, að það væri gersamlega óheilbrigt að setja dæmið þannig upp, að Íslendingar gætu rekið þjóðarbúskap sinn þannig að taka engin erlend lán, — að Íslendingar ættu að fara að flytja út fjármagn, eins og ég orðaði það í umr., sem um þetta urðu strax á eftir.

Þá orðaði ég þetta þannig, að efnahagsáætlun ríkisstj. væri beinlínis byggð á því að pína út úr mönnum hér innanlands fjármagn til þess að flytja út úr landinu. Ég kallaði það útflutning á fjármagni, að það yrði nettólækkun á skuldunum við útlönd og hún tekin af þjóðartekjunum. Þannig lá þetta dæmi fyrir þá, og við sýndum fram á, hversu þetta væri óraunhæft.

Undanfarið hefur verið efnt til lántöku erlendis, þannig að þetta hefur ekki staðizt, og því fer fjarri, að skuldir landsins út á við hafi lækkað. Þær hafa þvert á móti hækkað, þannig að þetta hefur farið nákvæmlega eins og við sögðum strax, — var raunar fært fram sem tylliástæða fyrir óeðlilegri kjaraskerðingu, eins og við bentum á.

Nú segir hæstv. ráðh., að lausaskuldamálin skipti líka miklu í þessu sambandi. Út af því vil ég aðeins benda á, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur látið taka mikið af lánum erlendis til stutts tíma. Ég hef ekki tölur fyrir mér núna til að bera saman. En ríkisstj. hefur látið efna til mjög verulegrar skuldasöfnunar í vörukaupalánum, sem áður átti sér ekki stað, og mun sú fúlga vera mikið á fjórða hundrað millj.

Það, sem ég vildi gera með því að segja þessi fáu orð, var aðeins að sýna fram á, að stefna ríkisstj. hefur reynzt óframkvæmanleg, eins og fyrir fram var sagt og vitað í þessum efnum, vegna þess að hún var ekki byggð á sanngjörnu eða eðlilegu mati á því, hvað ætti að gera í íslenzkum þjóðarbúskap. Þessi stefna, sem sett var fram, var bara sett fram til að slá ryki í augu þjóðarinnar og leyna, hvernig hún raunverulega stóð, og til þess að reyna að fá menn til að halda, að það þyrfti að innleiða þá gífurlegu kjaraskerðingu, sem hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir. Og þá var þetta sagt, að það yrði að gera það til að lækka skuldirnar við útlönd.

Það kemur ekkert á óvart, að fara verður í þessu efni allt aðrar leiðir en gefið var í skyn, og það stendur ekki á okkur, eins og ég sagði, að vera með í því að efna til þess, að tekin séu lán erlendis til skynsamlegra framkvæmda í landinu. En það sorglega er, hversu þetta lán hrekkur skammt fyrir þeim gífurlegu þörfum, sem óleystar eru, eins og t.d. kemur í ljós, þegar farið er að bera einstakar framkvæmdir og kostnaðinn við þær, eins og hann er nú orðinn, saman við þetta fyrirhugaða lánsfé. Ég nefndi bara eina framkvæmd áðan af handahófi, það var Keflavíkurvegurinn, en ef væri tekin næsta virkjun, sem nauðsynleg er fyrir Suðvesturland, og nokkrar aðrar framkvæmdir í raforkumálum, ef þetta væri líka tekið upp og borið saman við lánið, þá sæjum við, hversu þarna er um tiltölulega lága fjárhæð að ræða og hvað vandinn er orðinn mikill.