12.02.1963
Efri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 580 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

141. mál, Iðnlánasjóður

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Það er mikil þörf á því að efla iðnlánasjóð. Eins og ljóst er af sögu hans, sem nokkuð er rakin í grg. þessa frv., hafa fjárráð hans oftast nær verið mjög litil og hann þess vegna ófær til þess að sinna því verkefni, sem honum var ætlað. Iðnaðurinn hefur ekki heldur átt annars staðar völ á hagkvæmum lánum, hvorki stofnlánum né rekstrarlánum. Þess vegna er það kunnara en frá þurfi að segja, að hjá iðnaðinum hafa verið mikil lánsfjárvandræði að undanförnu, og skal ég ekki hafa um það mörg orð, en augljóst er, hve bagalegt það er og hefur verið fyrir iðnaðinn, sem er orðinn geysiþýðingarmikill atvinnuvegur hér á landi, orðinn einn af höfuðatvinnuvegunum, og þýðing hans hefur farið sívaxandi og mun vafalaust fara sívaxandi í framtíðinni. Það gefur því auga leið, hversu þýðingarmikið það er, að reynt sé að bæta úr þeim lánsfjárvandræðum, sem þessi atvinnuvegur hefur átt við að stríða að undanförnu. Þess vegna álít ég það vel farið, að fram er komið frv. þetta um iðnlánasjóð. Með því er Alþingi gefið tækifæri til þess að gera þær ráðstafanir í þessum efnum, sem þörf er á og tiltækilegar þykja.

Framsóknarmenn vilja vinna að því með öllum skynsamlegum ráðum, að lánsfjárvandræði iðnaðarins séu leyst, eftir því sem þörf krefur og ástæður frekast leyfa. Það er þess vegna sjálfsagt að athuga þetta frv. og þær leiðir, sem þar er bent á, athuga þær gaumgæfilega og með velvilja. Þetta vildi ég aðeins láta koma fram hér við 1. umr. þessa máls, þar sem hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða í sjálfu sér, sem eru lánamál iðnaðarins. En það er þó ljóst, að hér er ekki fjallað um nema annan af þeim tveimur höfuðþáttum, sem þar koma til greina, þ.e.a.s. stofnlánin, en eftir sem áður eru óleyst og þarf að fjalla um og athuga rekstrarlán til iðnaðarins.

Eins og ég áðan sagði, vildi ég aðeins láta þessar almennu aths. koma hér fram strax, en vil á hinn bóginn taka það fram, að ég er ekki viðbúinn því á þessu stigi málsins að taka afstöðu til þessa frv. í einstökum atriðum. Það er þá fyrst tímabært, þegar það hefur verið rækilega kannað í þeirri n., sem það fær til meðferðar, og þá m.a. athugað nánar, hver afstaða iðnaðarins og iðnaðarsamtakanna er til þessa máls og hverjar óskir þau samtök hafa fram að flytja í þessu sambandi. Ég vil þó aðeins bæta því við, að ég efast mjög um, að þau úrræði, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, séu fullnægjandi til þess að leysa lánsfjárvandræði iðnaðarins. Bæði efast ég um, að það fjármagn, sem gert er ráð fyrir að sjóðurinn hafi yfir að ráða samkv. þessu frv., sé nægilegt til þess að fullnægja stofnlánaþörfinni í mjög vaxandi iðnaði, og eins hitt, sem ég aðeins drep á, að hér er ekki neitt komið að hinum þætti þessa vandamáls, þ.e.a.s. rekstrarfjárvandanum.

Í öðru lagi vil ég benda á þá sérstöku skattlagningu, sem hér er ráðgerð til iðnlánasjóðs, þar sem gert er ráð fyrir, að meginhluti þess fjár, sem sjóðurinn á að fá, sé fenginn með þeim hætti, að sérstakt gjald, skattur, sé lagt á iðnaðinn sjálfan. Ég efast mjög um ágæti þessarar leiðar. Það er að vísu rétt, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að fyrir þessari aðferð finnast nú fordæmi, þar sem eru gjöld bæði í fiskveiðasjóð og stofnlánadeild landbúnaðarins. En ég efast mjög um, að það sé heppileg aðferð og skynsamleg að hafa þennan hátt á, að vera með þessa mörgu sérskatta til hinna ýmsu sérþarfa. Við höfum einn allsherjar söluskatt, eins og kunnugt er, en svo er með þessum hætti farin að leggja á nýja skatta, í raun og veru að mér virðist söluskatta, bæði á landbúnaðarvörur, sem rennur í stofnlánadeildina, og á afurðir sjávarútvegsins, sem rennur í fiskveiðasjóð, og svo er nú enn bætt við þriðja úrræðinu, sérstöku gjaldi á iðnaðinn, sem á að renna í iðnlánasjóð. Mér finnst þessi háttur ekki vera í samræmi við þá stefnu, sem hér hefur verið talsvert höfð á orði, að það væri stefnt að því að gera skattakerfið einfaldara og óbrotnara. Manni virðist fljótt á litið, að það væri einfaldara að taka þetta sem mest í einu lagi og útdeila því síðan til þarfanna, en ekki vera með alla þessa mörgu sérstöku skatta.

Þetta vildi ég taka fram, en vildi þó um leið taka það fram, að ég held því alls ekki fram, að það sé hægt við skattlagningu að beita einni ákveðinni formúlu, heldur held ég, að það verði oft að haga sér eftir aðstæðum. En samt sem áður sýnist mér þetta heldur vafasöm aðferð. Ég vil þó ekki að svo stöddu taka neitt af skarið um þetta gjald, af því að það stendur í greinargerð og það hefur maður ekki út af fyrir sig ástæðu til að rengja, að stjórnir iðnaðarsamtakanna hafi lýst sig samþykkar þeirri tekjuöflunarleið, sem lögð er til í frv., og ég verð að játa, að það er atriði, sem hlýtur að vega mjög þungt í þessu sambandi, ef fyrirsvarsmenn þessara stétta hafa lýst sig samþykka þessu skattgjaldi. En einmitt þetta atriði finnst mér að þurfi að kanna alveg sérstaklega í þeirri n., sem málið fær til meðferðar. Og enn vil ég segja það, að ef á að hverfa að þessari aðferð, kannske í ríkara mæli en þegar er orðið, að skattleggja atvinnuvegina til þess að afla fjár í lánasjóði sína, finnst mér fyrir mitt leyti alveg óviðeigandi leið að taka þetta í slíku skattheimtuformi. Ég álít, að ef þennan hátt ætti að hafa á, væri það eina rétta og sæmilega að innheimta þetta hjá viðkomandi atvinnurekendum sem stofnfjárframlag þeirra til þessara lánasjóða og láta þá eiga þar sín stofnsjóðstillög á sérstökum reikningi, sem þeir svo gætu, þegar tilteknum skilyrðum þar um væri fullnægt, fengið greidd, t.d. þegar þeir hættu við þann atvinnuveg, sem þeir hafa fengizt við. Þetta finnst mér að ætti að koma til athugunar í sambandi við þetta mál.

Ég er ekki með þessu, þó að ég taki þetta fram eða bendi á það, að lýsa neinni blessun minni yfir þessari aðferð. En sé hún á annað borð viðhöfð, að láta atvinnuvegina þannig standa undir sinum eigin lánasjóðum og leggja þeim til fjármagnið, þá finnst mér alveg sjálfsagt, að það sé ekki lagt á þá sem skattur, heldur þannig, að þeir leggi það fram sem sín tillög, sem þeir eigi í þessum sjóðum. Hitt, að leggja þetta á sem hreinan skatt og vera að leggja þennan skattinn á þarna og hinn skattinn á hér, það er, eins og ég sagði, að ég held, ákaflega vafasöm aðferð, og það minnir á þjóðsöguna um manninn, sem var á hestbaki og hafði á eigin baki ákaflega þungan poka, og þegar sá, sem honum mætti, spurði, hvers vegna hann reiddi þetta á sjálfum sér, en hefði það ekki á hestinum, var svar hans á þá lund: Hesturinn ber ekki það, sem ég ber, — þó að hann sæti raunar á hestinum sjálfur með pokann á bakinu. En svona skattheimta virðist vera byggð á nokkuð svipuðum sjónarmiðum. En þetta hlýtur allt að koma til nánari athugunar í þeirri n., sem málið fær til meðferðar.

Að lokum vildi ég svo aðeins benda á stjórnarfyrirkomulagið á þessum sjóði, sem ég held að hljóti líka að koma til athugunar í n., og frá mínu sjónarmiði er a.m.k. athugunarefni, hvort réttlátt er eða heppilegt að hafa þann hátt á, sem þar er ráðgerður, þó að það sé að vísu ekki um beint nýja skipun á stjórn iðnlánasjóðsins að ræða. En í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að tveir af þremur stjórnarmönnum lánasjóðsins séu nefndir til af samtökum iðnaðarmannanna, þ.e.a.s. af þeim, sem lánin eiga að fá. Ég held, að það sé nokkuð vafasamt að fara út á þá braut að ætla lántakendum sjálfum meiri hluta í stjórn þeirra lánastofnana, sem veita þeim lán. Ég tel iðnaðarmennina og samtök þeirra alls góðs makleg, og er ekki neitt vantraust á þeim, þó að ég segi þetta. En ég vil aðeins benda á þetta, að mér finnst þetta ekki eðlilegt, að láta þá þannig hafa meiri hluta í þessari stjórn. Hitt er annað mál, hvort þeir ættu þar fulltrúa, ef svo væri um búið, að það væri þá ekki meiri hluti, sem þar væri um að ræða.

Ég skal svo, herra forseti, láta þetta nægja á þessu stigi málsins.

Umr. frestað.