26.02.1963
Efri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (449)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. meiri hl. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði hæstv. iðnmrh. glögga grein fyrir tilgangi þess og einnig um höfuðatriði þeirra breytinga, sem frv. felur í sér. Það er því ekki brýn nauðsyn á því að rekja sjálft efni frv. í smáatriðum og mun því ekki gert, nema sérstakt tilefni gefist til þess.

Iðnn. hefur rætt frv., og voru nm. sammála um, að ekki væri sérstök ástæða til að leita umsagna um málið, þar sem þeir aðilar, er frv. sérstaklega snerti, hefðu samkv. því, sem frá er greint í grg., samþ. að mæla með frv. og hafi efni þess verið undir þá borið, áður en frv. var fram lagt. Þeir aðilar eru stjórn iðnlánasjóðs, Félag ísl. iðnrekenda og Landssamband iðnaðarmanna. N. gat hins vegar ekki orðið sammála í afstöðu sinni til frv., eins og fram kemur á þskj. 312. Einn þeirra nm., er á fundi voru, er málið var afgreitt, hv. 2. þm. Vestf., lýsti sig m.a. andvígan þeirri tekjuöflunarleið, sem um ræðir í 5. gr. frv., því hundraðshlutagjaldi, sem þar er kveðið á um að innheimta af iðnaðinum í landinu, þ.e. öðrum iðnaði en kjöt- og fiskiðnaði, mjólkurbúum, sláturhúsum og ullariðnaði á stigi ullarþvottar. Af þessu er ljóst, að allverulegur hluti iðnaðarins er undanþeginn gjaldskyldu þeirri, sem ákveðin er með 5, gr. frv., enda hafa þeir aðilar nú aðgang, ef svo má segja, að stofnlánasjóðum landbúnaðarins og fiskiðnaðurinn að fiskveiðasjóði skv. lögunum um þessa sjóði. Þessum aðilum hefur verið séð fyrir tekjum með sama hætti eða svipuðum hætti og hér er lagt til. Jafnframt verður það að teljast eðlilegt, að samtök þeirra aðila, sem standa eiga skil á framangreindum gjöldum, 0.4% af framleiðslunni, eigi sæti í stjórn sjóðsins ásamt fulltrúa ríkisstj.

Hið umrædda 0.4% gjald, sem á að leggja á sama stofn og aðstöðugjald áðurnefndra greina iðnaðarins, er áætlað að gefi iðnlánasjóði ekki undir 7 millj. kr. í árlegar tekjur til viðbótar 2 millj. kr. framlagi ríkissjóðs. Nú þykir ljóst, að þrátt fyrir þessa árlegu tekjuaukningu sjóðsins muni ekki fullnægt allri lánaþörf þessa hluta iðnaðarins. Þess vegna er í 6. gr. frv. gert ráð fyrir lántökuheimild sjóðnum til handa. Erlend lán, sem tekin verða samkv. þessari heimild, má ekki endurlána nema með gengisákvæði, þó með tvennum hætti, eins og frá er skýrt í aths. við frv.

Í gildandi lögum um sjóðinn hefur nær eingöngu verið gert ráð fyrir, að lánað væri út á vélar og stærri verkfæri og framkvæmd útlánanna verið á þann veg. Með ákvæðum í 6. gr. frv, er tekin upp sú breyting á hlutverki sjóðsins, sem er afleiðing af 1. gr. frv., að veita má lán til byggingar verksmiðju- og iðnaðarhúsa og einnig til endurskipulagningar iðnfyrirtækja. Samkv. 2. mgr. greinarinnar er og heimilt að lána iðnfyrirtækjum til kaupa á fasteignum, en lagt er til að afnema úr gildandi lögum heimild til rekstrarlána.

Til fróðleiks skal þess að lokum getið, að útlán sjóðsins hafa frá og með árinu 1936 til 1961 verið 32.6 millj. kr.

Við endurskoðun l. nú, sem gerð var að frumkvæði hæstv. iðnmrh., var ljóst, að sjóðnum var mest nauðsyn á auknu starfsfé og þó umfram allt árlega tryggum tekjum, þannig að hægt væri að sjá nokkuð fram í tímann um útlánagetu sjóðsins. Til lausnar þessum vanda hefði að sjálfsögðu verið auðveldasta leiðin að leggja til, að tekjuaukning sjóðsins yrði tekin úr ríkissjóði með árlegu framlagi. Nú er það svo í vitund almennings, að ríkissjóður er engin gullnáma, sem hægt er að ausa úr, án þess að það komi við nokkurn mann. Þar er um að ræða sameiginlegan sjóð landsmanna allra til lögbundinna framkvæmda. Hv. stjórnarandstæðingar hafa undanfarin ár talið, að of lítið væri um opinberar framkvæmdir í flestum þeim greinum, sem til umr. hafa verið hér á hv. Alþingi. Þessi stefna þýðir óhjákvæmilega, að sömu aðilum finnst of lítið fé til ráðstöfunar úr þessum sameiginlega sjóði landsmanna, ríkissjóði. A.m.k. heyrist minna um, úr hvaða framkvæmdum ríkisins eigi að draga, þegar till. eru gerðar um ný útgjöld úr ríkissjóði. Ekki er hægt að gera tillögur um aukin útgjöld og nýjar og meiri framkvæmdir, án þess að jafnframt séu gerðar till. um auknar tekjur til þeirra framkvæmda eða samsvarandi fjármagns verði aflað með því að draga úr öðrum framkvæmdum ríkisins. Hér virðist um svo augljósar staðreyndir að ræða, að landsmenn greinir þar ekki á.

Ef Alþingi samþ. brtt. hv. stjórnarandstæðinga við lögin um stofnlánadeild landbúnaðarins og fiskveiðasjóð og nú um iðnlánasjóð, sbr. þskj. 312, að samsvarandi tekna og hundraðshlutagjald þessara starfsgreina nemur yrði tekið úr ríkissjóði, er óhjákvæmilegt að krefja sömu aðila um svör við því, hvaða skattheimtu ætti að auka eða úr hvaða framkvæmdum ætti að draga, sem á vegum ríkisins eru til öflunar þessara milljónatuga. Svör við þessum spurningum gætu orðið fróðleg til samanburðar við þær hörðu ádeilur, sem í frammi hafa verið hafðar um of miklar opinberar álögur til tekjuöflunar í ríkissjóð.

Eins og fram kom við 1. umr. þessa máls, er ekki óeðlilegt, að menn greini á um tekjuöflunarleiðir. Þörfin fyrir þær auknu tekjur, sem hér er lagt til að aflað verði, hefur ekki verið vefengd. Þar sem sams konar leið og hér er lagt til í frv. að farin verði er nú í reynslu í fiskiðnaði og landbúnaði, verður vart talið óeðlilegt, að hún verði einnig leyfð í þessum hluta iðnaðarins, og er þá sú stjórnaraðild, sem hér er lagt til að verði, eðlileg afleiðing þess fyrirkomulags.

Eins og ég tók fram í upphafi, varð iðnn. ekki sammála um afgreiðslu málsins. Minni hl. n. hefur á þskj. 312 flutt þrjár brtt. við frv. Við, sem meiri hl. skipum, leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt, eins og frá greinir á þskj. 295.