19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

141. mál, Iðnlánasjóður

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að leggja iðnlánasjóði nokkru meira fé en áður hefur verið, og er það tvímælalaust nauðsynlegt. Það er á hinn bóginn tvennt, sem mig langar til að gera að umræðuefni í sambandi við þetta frv., og hefur um hvort tveggja verið rætt áður og liggja raunar fyrir brtt. varðandi þau atriði bæði. Ég vildi leggja fáein orð í belg um þau samt.

Það er þá fyrst varðandi stjórn stofnunarinnar. Það er gert ráð fyrir því, að meiri hl. stjórnar stofnunarinnar sé tilnefndur af stjórn Landssambands iðnaðarmanna og stjórn Félags ísl. iðnrekenda, en einn skipaður án tilnefningar. Þetta þýðir, að þeir, sem eru í Félagi ísl. iðnrekenda og Landssambandi iðnaðarmanna, hafa aðstöðu til að ráða því, hverjir fá lán til iðnrekstrar. Og það er ekkert ámæli í garð þeirra, sem standa að þessum samtökum, þó að það sé sagt, að það er vægast sagt óviðkunnanlegt að ganga þannig frá löggjöf, að þeir, sem fyrir eru í atvinnurekstri, eiga að ráða því, hverjir fá lán til þess að starfa að þess konar rekstri. Það er því mjög nauðsynlegt að breyta þessu ákvæði frv., og mér finnst það eiginlega dálítið einkennilegt, að þetta skuli standa í lagafrv. Þetta er áreiðanlega ekki heppilegt fyrirkomulag og tíðkast heldur ekki, þar sem aðrar atvinnugreinar eiga hlut að máli. Ég held, að engum mundi t.d. detta í hug að fela samtökum útvegsmanna meirihlutavald um það, hverjir fengju lán til þess að kaupa fiskiskip, að þeim samtökum gersamlega ólöstuðum, eða t.d. bændasamtökunum í landinu ákvörðunarvald um það, hverjir fengju lán til landbúnaðar. Þetta er áreiðanlega ekki rétt stefna og miklu réttari og eðlilegri stefna, að stjórn þessarar stofnunar sé nokkuð hliðstætt sett saman og tíðkast um aðrar stofnlánadeildir, aðrar stofnlánastofnanir í landinu.

Hv. 3. minni hl. fer eins konar miðlunarveg í þessu og leggur til, að meiri hl. stjórnarinnar verði þingkjörinn, en þeir, sem starfa að iðnrekstri, hafi tvo fulltrúa, og leggur þá til, að það séu þrír aðilar, sem komi til greina í sambandi við tilnefningu fulltrúanna tveggja, þ.e.a.s. Landssamband iðnaðarmanna og stjórn Félags ísl. iðnrekenda og Samband ísl. samvinnufélaga. Þarna er ríkisvaldinu ætlaður meiri hl. í stjórn stofnunarinnar, eins og virðist vera alveg eðlilegt og sjálfsagt. En á hinn bóginn er þessum samtökum ætlaður minni hl., þ.e.a.s. tveir fulltrúar. Og þá er í till. hv. minni hl. bætt úr þeim furðulegu rangindum, sem eru í frv., sem sé þeim, að Sambandi ísl. samvinnufélaga er ekki ætluð nein íhlutun um stjórn stofnunarinnar, enda þótt iðnaðarsöluskatturinn, sem á að leggja á, verði að sjálfsögðu alveg eins lagður á framleiðslu samvinnufélaganna, iðnaðarframleiðslu þeirra, eins og aðra iðnaðarframleiðslu í landinu.

En það er eins og vant er, það er um rangindi að ræða í garð samvinnufélaganna. Þeim er engin íhlutun ætluð um stjórn stofnunarinnar, og var þó sjálfsagt, að samvinnufélögin hefðu fulltrúa fyrir sinn iðnað eins og hinir, fyrst stjórnin á annað borð lagði til, að þessi samtök hefðu fulltrúa í stjórninni.

Það er stórfurðulegt, að hæstv. ríkisstj. skuli treysta sér til þess að leggja fram uppástungu um rangindi eins og þessi. Hvaða rök eru fyrir því, að samvinnufélögin í landinu, sem reka stórfelldan iðnað, hafi enga íhlutun um þessi mál? Það væri mjög fróðlegt að heyra rökin fyrir því, hvers vegna samvinnufélögin í landinu eiga enga íhlutun að hafa um þessi mál, fyrst iðnrekstrinum yfirleitt er ætlað að hafa íhlutun um þau. Það kom auðvitað ekki til, að samvinnufélögin hefðu hér nokkra íhlutun um, ef stjórn sjóðsins hefði ekki verið skipuð af samtökunum. En fyrst hæstv. ríkisstj. vill hafa það svo, hvernig dettur henni þá í hug að útiloka samvinnuiðnaðinn frá þessari íhlutun? Það væri fróðlegt að heyra rökin fyrir þessu, eins og ég sagði áðan.

Þá er annar þáttur í þessu máli, sem nokkuð hefur verið ræddur hér, og hann langar mig einnig til að drepa á. Og það er þetta: Það á að afla tekna í þennan iðnlánasjóð með nýjum söluskatti. En skatturinn, sem upp á er stungið í 5. gr., 0.4% gjald af iðnaðinum í landinu, þ.e.a.s. af iðnaðarvörunum, þessi skattur er innheimtur af iðnaðarvörunum, því að það er greinilega tekið fram í greininni, að það á að innheimta hann á sama hátt og aðstöðugjaldið, þ.e.a.s. þetta er söluskattur. Þetta er ekki skattur á fyrirtækin, þetta er söluskattur. Frsm. var að lýsa hér einhverju yfir áðan um, að það kæmi fram í grg., að iðnrekendum væri ætlað að greiða þetta gjald. Samt er augljóst, að fyrst á að fara með þetta gjald eftir lagagreininni eins og aðstöðugjaldið, þá kemur þetta gjald inn í vöruverðið, alveg eins og aðstöðugjaldið, alveg eins og veltuútsvarið nýja. Fyrirtækin greiða ekki nýja veltuútsvarið af sínum eigin nettóhagnaði. Aðstöðugjaldið kemur inn í vöruverðið, og það leiðir alveg af sjálfu sér, hvað sem stendur í grg., þegar farið verður að verðleggja vöruna, enda stendur í lagagreininni, að það eigi að fara með þetta eins og aðstöðugjaldið, þ.e.a.s. veltuútsvarið, og það kemur inn í vöruverðið.

Að því leyti sem verðmyndunin er frjáls í iðnaðinum, kemur þetta vitaskuld strax inn í verðlagið eins og annar kostnaður, sem á er lagður. Að því leyti sem verðlagsyfirvöld fjalla um verðlagningu iðnaðarvara, yrði kannske byrjað með því fyrst að káka við að hafa þetta utan við verðlagninguna, en fljótlega mundi það að sjáifsögðu koma inn í verðlagninguna og inn í verðlagið, þar sem ekkert ákvæði væri til í 1., sem bannaði það.

Það er því algerlega augljóst mál, að hér er um nýjan söluskatt að ræða, og þá kemur spurningin: Er nokkur ástæða til þess að vera að leggja á nýjan söluskatt, setja upp nýtt söluskattskerfí við hliðina á því, sem fyrir er, til að innheimta söluskatt af iðnaðarvörum og leggja í þennan sjóð? Það er vitanlega engin ástæða til slíks. Ríkissjóður innheimtir skatta upp á tæpa tvo milljarða króna, og það virðist ekki vera neitt óeðlilegt við að ætla iðnaðinum eitthvað af þeirri óhemjufúlgu sem framlag ríkisins til iðnlánasjóðsins, eins og hv. minni hl. n. leggur til.

Það er auðvitað engin skynsemi í því að fara að kosta til þess sérstaklega að leggja á þennan nýja söluskatt aðeins út af þeirri fjárhæð, sem á að leggja til iðnlánasjóðsins. Það er vitanlega alveg sjálfsagt að taka það framlag, sem Almenningur á að láta til iðnlánasjóðsins, gegnum ríkistekjurnar, ríkissjóður leggi fram fé til sjóðsins.

Hér er verið að leggja á nýjan skatt til viðbótar þeim, sem fyrir eru og ríkisstj. hefur beitt sér fyrir. Skal ég hlífa mönnum við því núna að lesa lista yfir þá skatta, sem bætt hefur verið við til ríkissjóðs á síðustu árum, þótt full ástæða væri til þess, og mun ég gera það síðar, ef mér þykir ástæða til. En hitt vil ég benda á, að það er svo sem síður en svo, að það sé nokkurt einsdæmi, að ríkisstj. bæti sérsköttum við þær álögur, sem hún hefur beitt sér fyrir til ríkissjóðsins. Það virðist vera stefna hæstv. ríkisstj. að bæta við nýjum sköttum og nýjum álögum í flestum stjfrv., og skal ég færa þessum orðum mínum stað.

Í fyrsta lagi vil ég telja upp þennan nýja söluskatt, 0.4% á iðnaðarvörurnar, sem á að lögleiða með þessu frv.

Þá vil ég einnig benda á, að hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir stórkostlegri hækkun á útflutningsgjöldum á sjávarafurðir, eins og öllum er kunnugt. Og það var aðeins fyrir harðfylgi stjórnarandstöðunnar og samtaka íslenzkra útvegsmanna, að þessar nýju álögur á sjávarútveginn fengust til bráðabirgða settar inn í greiðslur til útvegsins sjálfs vegna tryggingariðgjalda, aðeins til bráðabirgða lét stjórnin undan og samþykkti að láta þessa stórhækkun, sem varð á útflutningsgjöldunum til sjávarútvegsins, renna inn í tryggingariðgjöld bátanna og skipanna.

Þá hefur ríkisstj. beitt sér fyrir því, eins og kunnugt er, að sérstakur launaskattur verði lagður á bændur og renni til stofnlánadeildar landbúnaðarins. En þessi skattur er þeirrar náttúru, eftir því sem stjórnin hefur gengið frá honum, að það er bannað með öllu að láta hann ganga inn í verðlag landbúnaðarafurðanna. Þetta er persónulegur skattur, beinn skattur, tekjuskattur á bændurna sjálfa, þessi 2 % , sem lögð hafa verið á þá. Og slíkt ákvæði, að ekki megi taka toll eða skatt inn í vöruverð, á sér enga hliðstæðu í neinni löggjöf. Það eru aðeins baendurnir, sem búa við það, að það er bannað með lögum, að þessi 2% skattur gangi inn í landbúnaðarverðlagið. Það skal vera tekjuskattur, persónulegur skattur á bændurna, á þær tekjur, sem þeim er ætlað að hafa út úr búunum.

Til viðbótar þessu hefur svo hæstv. ríkisstj. beitt sér fyrir almennum söluskatti á landbúnaðarafurðir, sem einnig á að renna í stofnlánadeild landbúnaðarins, 0.7%, ef ég man rétt. Það er að vísu ekki bannað að láta hann ganga inn í verðlagið, það er venjulegur söluskattur, venjulegur tollur á neytendurna, sem á að renna í stofnlánadeildina.

Það er óþarfi að taka fram, að Framsfl. heldur uppi harðri baráttu fyrir því, að þessi launaskattur, einstæði launaskattur á bændurna verði afnuminn og einnig söluskatturinn á landbúnaðarafurðirnar og ríkið leggi fé í staðinn til stofnlánadeildanna af þeim óhemjufúlgum, sem ríkið leggur á landsmenn, og er fullt samræmi í þeirri afstöðu framsóknarmanna til þessara skatta og afstöðunni til þess að leggja nú nýjan söluskatt á iðnaðarvörur. Við erum á móti því, eins og við beittum okkur á móti álagningu launaskattsins á bændur og álagningu söluskattsins á landbúnaðarafurðirnar. Það var einnig í fullu samræmi við þessa stefnu okkar, að við tókum þátt í því að knýja hæstv. ríkisstj. og stjórnarmeirihl. til að skila sjávarútveginum aftur beint inn í reksturinn, þ.e.a.s. inn í iðgjaldakostnaðinn, hækkun útflutningsgjalds af sjávarafurðum. Undan því þorði stjórnarliðið ekki annað en láta, og það hafðist. A hinn bóginn hefur enn ekki unnizt sigur í skattamálinu á bændur, en þeirri baráttu verður haldið áfram og barizt á móti því að leggja nú sérstakan söluskatt á iðnaðarvörur í stað þess, að ríkissjóður leggi iðniánasjóði nokkurt fé.

Nú hef ég talið hér upp fjóra aukaskatta: nýjan söluskatt á iðnaðarvörur, stórkostlega hækkun á útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sérstakan launaskatt á bændur og sérstakan söluskatt á landbúnaðarafurðir. En menn skulu ekki halda, að hér með sé allt talið af aukapinklunum, sem hæstv. ríkisstj. er að bögglast við að hengja á þjóðina þessi missirin. Í frv., sem hér liggur fyrir hv. Alþingi um rannsóknarstarfsemi ríkisins, er gert ráð fyrir að leggja nýtt gjald á sementsframleiðsluna í landinu, söluskatt á sement, sem framleitt er innanlands, til þess að styðja rannsóknir. Enn fremur er í sama frv. gert ráð fyrir nýju aðflutningsgjaldi, eins konar aðflutningssöluskatti eða hvað á að kalla það, á timbur og járn. Þá er enn fremur í þessu sama frv. um rannsóknaráð ríkisins gert ráð fyrir að leggja nýjan skatt á iðnaðinn, sem nemur 2% af öllu útborguðu kaupi verkafólks og fagmanna.

Ég nefni þetta til dæmis um þá stefnu, sem fylgt er, að bæta sífellt ofan á þær álögur, sem hæstv. ríkisstj, og meiri hl. hafa beitt sér fyrir í ríkissjóðinn, sem eru þó svo stórkostlegar, að þær eiga sér engan líka í sögu landsins, — alls engan. Það er ekkert, sem áður hefur gerzt, sem kemst í hálfkvisti við það, sem nú hefur átt sér stað í þeim efnum. Og þrátt fyrir þessar gífurlegu álögur er svo að segja í hverju frv., sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir, eitt eða fleiri ákvæði um enn nýjar álögur, nýja skatta, nýja tolla, nýja söluskatta.

Í því sambandi vil ég svo að lokum nefna eitt dæmið enn, en væri þó vafalaust hægt að nefna fleiri, því að ég hef ekki rannsakað þetta af neinni nákvæmni, nánast tekið það, sem ég mundi eftir á stundinni, og það er, að jafnvel í frv. um ríkisábyrgðir er nýr skattur. Ríkisábyrgðirnar eru skattlagðar til ríkissjóðs með 1—11/2 % af fjárhæð ábyrgðarinnar. M.a. er þar t.d. innheimt 1% af öllum ríkisábyrgðum vegna íbúðabygginga, og svo að segja hver einasti maður, hver einustu ung hjón, sem brjótast í því að koma sér upp íbúð, verða þar að borga nýjan skatt ofan á allt annað. Þetta getur numið þúsundum króna fyrir fólk, sem er að brjótast í því að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Skattaloppan er alls staðar. Og því er svo hægt að bæta við í þessu dæmi, að ríkið mun aldrei hafa tapað neinu á ábyrgðum sínum fyrir byggingarsamvinnufélög.

Hvernig halda menn svo, að skattakerfið verði með þessu áframhaldi? Þetta er ríkisstj., sem sagðist ætla að beita sér fyrir því að gera skattakerfið einfaldara á allan hátt í framkvæmd. Það er sú sama ríkisstj., sem stingur upp á því að setja upp nýtt kerfi til að innheimta 0.4% söluskatt á iðnaðarvörur, annað kerfi til þess að innheimta 2% gjald af öllu útborguðu kaupi verkafólks og fagmanna í iðnaðinum, ofan á önnur dæmi, sem ég nú hef nefnt.

Ég vil leyfa mér að mótmæla þessari stefnu hæstv. ríkisstj., og m.a. í því skyni að reyna að brjóta þá stefnu á bak aftur er flutt af hálfu Framsfl. till. um að fella út úr þessu frv. ákvæðið um sérstakan söluskatt á iðnaðarvörur til þess að standa undir framlaginu til iðnlánasjóðsins. Við álitum sjálfsagt, að þetta framlag sé greitt af ríkisfé.