19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. meiri hl. (Jónas G. Rafnar):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. — Það er sannarlega ánægjulegt, að þetta frv. hefur fengið yfirleitt góðar undirtektir hér á hv. Alþingi, og bendir það til þess, að menn eru almennt farnir að hafa meiri skilning en áður á þörf iðnaðarins á að fá einhverja sambærilega stofnun eins og landbúnaður og sjávarútvegur hafa nú í dag.

Það eru aðallega tvö atriði, sem deilt hefur verið um, þ.e. sú tekjuöflun, sem frv. bendir á, og svo einnig stjórnarfyrirkomulag sjóðsins.

Ég held, að það sé alveg ljóst, að ef iðnlánasjóður á að geta gegnt hlutverki sínu, þurfi hann að hafa fastar árlegar tekjur, og ríkisframlagið, 2 millj, á ári, hefur hvergi nærri hrokkið til þess að fullnægja þessum þörfum. Það var því raunar ekki um nema tvær leiðir að ræða í þessu sambandi, annaðhvort að taka upp eitthvert svipað fyrirkomulag og gilt hefur um fiskveiðasjóð og nú um stofnlánadeild landbúnaðarins eða þá leggja auknar byrðar á ríkissjóðinn. Það er enginn vafi á því, að ef sú leið hefði verið farin, sem hv. fulltrúi Framsfl. í iðnn. leggur til, að ganga út frá því, að ríkissjóður legði 15 millj. kr. á ári til iðnlánasjóðsins, þá hefði það leitt til þess, að sams konar krafa eða kröfur hefðu einnig komið frá fiskveiðasjóði eða stofnlánadeild landbúnaðarins. Það er því raunar ekki um það að ræða, hvort ríkið hefði átt að taka upp á sín fjárlög 15 millj., heldur milljónatugi, og það gefur auga leið, að ef slíkt hefði átt að gera, þá hefði að sjálfsögðu orðið að tryggja nýjar tekjur og þá væntanlega finna einhvern nýjan skattstofn. Ég tel því, að sú leið, sem frv. fer í sambandi við tekjuöflunina, sé heppilegust, ekki sízt vegna þess, að bæði iðnrekendur og Landssamband iðnaðarmanna hafa tjáð sig samþykka þeirri leið.

Ég skal viðurkenna, að það má sannarlega deila um það, hvers konar stjórnarfyrirkomulag eigi að gilda varðandi sjóðinn. En ég hygg, að það hafi ráðið, þegar frv. var samið, að til margra ára höfðu Landssamband iðnaðarmanna og Félag ísl. iðnrekenda átt þarna sína fulltrúa í sjóðsstjórninni og síðan þriðji maðurinn verið skipaður af ráðh. Það mætti segja mér, að þetta fyrirkomulag hafi gefizt vel, og því var ekki talin ástæða til að breyta þar til um. Einnig má í því sambandi benda á það, að einmitt með nýja gjaldinu hafa þessi samtök iðnaðarmanna og iðnrekenda tekið á sig vissar kvaðir, og það má segja, að það sé þá ekki ósanngjarnt, að þessi samtök hafi sömu aðstöðu til þess að ráða sjóðnum og þau hafa haft nú til margra ára áður.