19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (470)

141. mál, Iðnlánasjóður

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er eitt atriði, sem ég vildi gjarnan gera að umtalsefni, og kann þó að vera, að það sé byggt á einhverjum misskilningi hjá mér, í sambandi við þetta mál og ekki sízt í sambandi við það, að í 6. gr. er heimilað að taka á ábyrgð ríkisins allt að 100 millj. kr. lán til þess að lána hér út. Hvar liggja takmörkin, sem ætlazt er til að iðnlánasjóður megi lána út á, hvað snertir gerð iðnaðarfyrirtækjanna? Kemur fiskiðnaðurinn undir þetta, eða kemur hann ekki undir það? Ástandið er þannig núna hvað snertir stofnlánadeild bæði sjávarútvegsins og eins fiskveiðasjóð, að þrátt fyrir það, að í báðum þessum lögum séu ákvæði um, hvað megi lána til ýmissa fiskiðjufyrirtækja, og hins vegar, hvað megi lána út á báta, þá fást yfirleitt ekki veruleg lán út á fiskiðjufyrirtækin, en hins vegar endalaust út á bátana. Það þykir alveg sjálfsagður hlutur, og er ekki nema gott um það að segja, að til þess að byggja báta eða kaupa þá geti menn fengið lán, en þegar kemur að því, að það eigi að fara að koma upp fiskiðjufyrirtækjum, þá er a.m.k. venjulegast svo að segja neitað um lán í þessu sambandi. Nú eru fiskiðnaður og síldariðnaður auðvitað iðnaður, og ég hef ekki getað rekizt á neitt í þessum lögum, sem mundi banna samkv. l. að lána út á slíkt. Að vísu skal ég geta þess, að það er venjulega í öllum hagskýrslum og yfirlitum bankanna og öllu slíku einn endalaus ruglingur í þessu öllu saman, þannig að Ísland fylgir ekki þarna venjulegum fyrirmælum. Auðvitað er iðnaður hér á landi miklu, miklu sterkari en venjulega er talið og kemur í ljós, vegna þess að í t.d. megininu af skýrslum bankanna er fiskiðnaðurinn tekinn með sjávarútveginum, sem er alls ekki rétt.

Þegar við erum að tala um iðnað hér heima á Íslandi, verðum við að gera okkur ljóst, hvaða iðnaður það er fyrst og fremst, sem við viljum efla í landinu. Og ef við ætlum að hugsa það raunhæft upp á samkeppni við aðra aðila, þá er það fyrst og fremst einn iðnaður og það er fiskiðnaður til útflutnings. Við skulum muna eftir, hvernig núv. iðnaður í landinu, sá, sem fyrst og fremst framleiðir fyrir innanlandsmarkaðinn, — það er að vísu ekki nema hluti af honum, — en sá, sem framleiðir fyrir innanlandsneyzlumarkaðinn, er að mjög miklu leyti vaxinn upp einmitt í þeirri gífurlegu tollvernd og vernd innflutningshaftanna, sem hér var lengi vel og er enn og hefur vaxið á síðustu árum í skjóli gengislækkananna og þar með raunverulega gífurlegra verndartollahækkana.

Ef við erum þess vegna að tala um að styrkja iðnað Íslendinga, þá hlýtur það, ef nokkurt vit er í hugsuninni, að eiga við matvælaiðnað líka, matvælaiðnað til útflutnings, og það er a.m.k. nauðsynlegt, að menn geri sér það alveg ljóst, að hverju menn eru að stefna í þessum efnum, hvort t.d. á að halda því fram, að fiskveiðasjóður eigi að veita slíkt lán, af því að honum beri það. En hann gerir það ekki og hefur ekki gert það á undanförnum árum. Og ástandið hefur verið þannig með þennan nauðsynlegasta iðnað Íslendinga, að það hafa ekki fengizt lán út á þetta, þannig að hér hafa staðið hús, sem hafa verið byggð fyrir þennan iðnað, í 15–20 ár, án þess að það hafi getað fengizt lán til að fá almennilegar vélar í þau. Það er þess vegna, um leið og tekin er ákvörðun um, að það skuli heimilað upp á ríkisábyrgð að taka 100 millj. kr. og lána út hér innanlands, þá held ég, að það sé nauðsynlegt, að menn reyni að gera sér ofur lítið ljóst, í hvað menn ætla að lána þetta og í hvað er praktískast að lána þetta. Á að taka þetta lán bara til þess, að einhverjir menn úr Landssambandi iðnaðarmanna eða Félagi ísl. iðnrekenda geti úthlutað þessu eins og þeim þóknast? Er meiningin að taka 100 millj. kr. lán erlendis og láta einhverja og einhverja menn í Reykjavík útdeila því, eða á að vera einhver hugsun og vit og samræmdar aðgerðir í þessu sambandi fyrir þjóðarbúið? Eða á ríkið ekkert að skipta sér af þessu?

Hvað er það, sem þörf er að gera fyrst og fremst hér á Íslandi nú í sambandi við iðnað? Það er að skapa iðnbyltingu í matvælaiðnaðinum. Hér vöðum við í slíkum auðæfum nú á hverju árí, að það er eins og við vitum ekkert, hvað við ætlum við þetta að gera. Við veiðum hér nú meira sakir nýrrar tækni í veiði af beztu síld, sem til er, og köstum 9/10 hlutum af henni í bræðslu, sama sem eyðileggjum hana, en gætum unnið úr þessu einhver fínustu matvæli veraldarinnar, matvæli, sem hvað kaloríuinnihald snertir eru jafngóð og svínakjöt og betri en allt annað kjöt hvað kaloríur snertir, þ. e. kílóið. En til þessa geta menn ekki fengið lán eða eiga a.m.k. mjög erfitt með það, og það eru engin ósköp hins vegar, sem þarf til þess að gerbylta um í þessum efnum.

Alþingi hafði framtak um það fyrir nokkrum árum, að á Siglufirði var byggð af hálfu ríkisstofnana niðurlagningarverksmiðja, sem framleiðir alveg ágæta vöru, að því er ég býst við að flestum sé kunnugt, hefur að vísu enn sem komið er framleitt mest fyrir innanlandsmarkað, en auðsjáanlega svo góða vöru, að það er hægt að bjóða hana erlendis hvar sem er, um leið og menn vilja hafa slíka verzlunarpólitík, að menn kæri sig um að koma slíkri vöru út erlendis. Það er hægt að selja fyrir tugi og hundruð millj. kr. af þessari vöru, ef menn bara vilja hafa slíka verzlunarpóltík, að menn komi henni út. Ég man ekki betur en þessi verksmiðja — hún er að vísu ekkert mjög stór — hafi kostað eitthvað 21/2 eða 3 millj., og ég fyrir mitt leyti álit, að það, sem þyrfti að gera í svo og svo miklu af sjávarplássum Íslands, sé að koma svona verksmiðjum upp, líka hér syðra, og samræma með því okkar verzlunarpólitík, þannig að við flytjum þetta út í stórum stíl. Með 100 millj. kr. erlendu fé til að verja í að umbylta íslenzkum iðnaði þyrfti ekki nema part af því til þess að koma upp einum 10-15 slíkum niðurlagningarverksmiðjum, til þess að vinna miklu, miklu meira verðmæti úr síldinni, til þess upp undir það að tvítugfalda verðmætið á móts við það, sem við fáum fyrir það, þegar því er hent í bræðslu. Á iðnlánasjóður að aðstoða við slíka iðnbyltingu í matvælaiðnaðinum, eða á hann ekki að gera það? Ég veit, að bæði á Akureyri og í Reykjavík berjast fyrirtæki við mikla erfiðleika einmitt í sambandi við það, að þau fá ekki lán í þessa hluti, ekki nægileg lán a.m.k. Þetta er að einhverju leyti slíkum fyrirtækjum að kenna. Ef þeirra forstjórar eru ekki færir um að reka þau, þá mætti a.m.k. lána öðrum þetta. En hvað eftir annað hefur það gengið þannig, að slík fyrirtæki a.m.k. kvarta yfir því, að þau fái ekki lán, ýmist til þess að geta komið upp eða rekið svona fyrirtæki.

Ég held þess vegna, að það væri gott að gera sér það ljóst í sambandi við iðnlánasjóð, hvernig er bezt varið því fé, sem ákveðið er að setja í þetta. Og ég vildi mega leggja fram þá spurningu: Mundi vera hægt að nota slíkt fé að einhverju leyti til slíkrar iðnbyltingar eins og ég hef I;alað um í matvælaiðnaði Íslendinga? Í öðru lagi, svo framarlega sem það er rétt, að hægt sé að nota svona lán til slíks, þá vildi ég leggja fram þá spurningu: Hverjir eru bezt fallnir til þess að stjórna slíkum iðnlánasjóði? Halda menn, með þeim sérhagsmunum, sem við allir vitum að gætir og er ekki nema eðlilegt að gæti, t.d. hjá Landssambandi iðnaðarmanna eða hjá Félagi ísl. iðnrekenda, að þessum samböndum algerlega ólöstuðum, — halda menn, að stjórnendur þessara samtaka taki fyrst og fremst tillit til meðlimanna í þessum samtökum núna eða taki fyrst og fremst tillit til þess, hvað þjóðinni er fyrir beztu upp á framtíðarþróun? Jú, það kann að vera, að einhverjir af þeim séu mjög framsýnir menn, en ekki er vist, að þeir séu nú þar í meiri hl. Ég held þess vegna, að það sé lífsspursmál, eigi að vinna eitthvað á þessu sviði og losa okkur út úr því barbaríi, sem við erum í hvað snertir meðferðina á okkar auði hér heima, okkar fiski og síld, þá þurfi fyrst og fremst að tryggja þarna menn, sem hugsi um heildarhagsmuni þjóðarinnar í þessu sambandi, hugsi um þróun iðnaðarins, hugsi um þá iðnbyltingu, sem við þurfum að skapa, og þá held ég, eins og hv. 2. landsk. þm. hefur lagt til, að stjórn slíks lánveitingasjóðs eigi að vera skipuð af Alþingi. Þrátt fyrir allt, sem sagt er um stjórnmálamenn og stjórn og hverjir eru í ríkisstj. á hverjum tíma og allt saman slíkt, þá er þó helzt von af hálfu þeirra manna, sem kjörnir eru í stjórn svona sjóðs af hálfu Alþingis, að það væri ekki tekið tillit eingöngu til sérhagsmuna einhverra iðnaðarmanna eða iðnrekenda í slíku sambandi, heldur til heildarhagsmuna þjóðarinnar og framtíðarmöguleika hennar.

Mér þætti þess vegna ákaflega vænt um að fá upplýsingar um það einmitt frá hv. n., hvernig útlán úr þessum sjóði séu hugsuð í þessu sambandi, og þætti mjög vænt um, að það gæti komið fram nú, þannig að við gætum athugað það mál við þessa umræðu.