28.02.1963
Neðri deild: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (483)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. 1. minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. og 2. minni hl. allshn., var frv. það, sem hér liggur fyrir, um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf, sem flutt er af hæstv. samgmrh. til staðfestingar á brbl., útgefnum 2. maí 1962, rætt á nokkrum fundum í allshn. Á fundi í n. 11. des. höfðu verið boðaðir fulltrúar úr Verkfræðingafélagi Íslands til skrafs og ráðagerða við n. um frv. og málið í heild. Þessir aðilar gáfu allar umbeðnar upplýsingar. Rétt er að geta þess, að fyrir fundinum lá þá frá hendi verkfræðinganna hin nýja gjaldskrá um þóknun fyrir verkfræðistörf, en n. sem slik hafði ekki fengið gjaldskrána í sínar hendur. 13. des. höfðu svo verið boðaðir á fund og mætt með n. ráðuneytisstjóri og deildarstjóri viðkomandi ráðuneytis. Á þeim fundi munu þeir hafa að einhverju leyti skýrt frá aðdraganda setningar brbl. og svarað fsp., sem fram voru þá bornar. Á þeim fundi gat ég því miður ekki mætt vegna óviðráðanlegra orsaka og veit því ekki, hvað þar fór fram, annað en það, sem segir í bókun fundargerðarinnar, en fátt mun það þó hafa verið, sem máli skipti, þó að hins vegar ýmis atriði í frv. hafi skýrzt frekar en áður var.

Það verður að teljast alveg furðuleg ráðstöfun af hendi hæstv. ríkisstj. og þess ráðh., sem fer með þetta mál og þetta mál heyrir undir, að kasta stórmáli inn í þingið án þess, að gerð sé viðunandi grg. um málið. Í aths., sem frv. fylgir, segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Um frv. þetta, sem lagt er fyrir Alþingi samkv. 2&. gr. stjórnarskrárinnar, vísast til fskj. hér á eftir.“ Og hvað segir svo þetta fskj.? Eins og venja mun vera, þegar flutt eru frv. til staðfestingar brbl., er fskj. litið annað en brbl. og skýringar á þeim, þó mjög takmarkaðar. Engar aðrar skýringar eru gefnar en þær, sem eru í forsendum fyrir brbl.

Í rökstuðningi þeim, sem fylgir l., er þess getið m.a., að samkv. gjaldskrá Verkfræðingafélagsins sé m.a. lagt til, að tímakaup hækki allt að 320%:, auk þess sem þóknun fyrir ákvæðistörf sé ætlað að hækka allverulega. Ekki er gerð hin minnsta tilraun til þess að rökstyðja þessa fullyrðingu, heldur aðeins sagt, að slík hækkun á kaupi verkfræðinganna mundi óhjákvæmilega valda stórkostlegri röskun á launamálum, bæði hjá ríki og öðrum aðilum, og auk þess óeðlilegum kostnaðarauka við margvísleg rannsóknarstörf og framkvæmdir. Í samræmi við þennan rökstuðning fyrir frv. telur svo hæstv. ríkisstj., að brýna nauðsyn beri til, að komið verði í veg fyrir, að nefnd gjaldskrá komi til framkvæmda, og því skuli lögin sett.

Það skal tekið fram og undirstrikað, að á þeim fundi, sem ég mætti í nefndinni, lá gjaldskráin aldrei fyrir hjá n. Hins vegar fengum við að sjá gjaldskrána, hjá fulltrúum Verkfræðingafélagsins, sem mættu á fundi í n., eins og ég hef áður bent á, en þar sem þetta er mjög langt mál og á máli verkfræðinga með miklum útreikningum, er reglugerðin mjög flókin að mínum dómi, og gefst því ekki neinn tími til að athuga reglugerðina að neinu ráði. Það verður að teljast frekar óvanalegt að afgreiða mál frá nefnd, án þess að rannsökuð séu rök beggja aðila. Vitanlega bar hæstv. ríkisstj. að afhenda n. gjaldskrá Verkfræðingafélagsins. Mér er ekki kunnugt um, hvort formaður allshn. óskaði eftir að fá gjaldskrána. Ég spurðist fyrir um það á fundi í n., hvort gjaldskráin lægi fyrir. Því var svarað til, að n. hefði engin gjaldskrá borizt. Mátti jafnvel skilja það sem svo, að ekki væri hægt að fá gjaldskrána.

2. nóv. 1962 samþykkti allshn. á fundi sínum að óska umsagnar Verkfræðingafélags Íslands um frv. til l. um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf. Bréf barst n, frá félaginu 1. des. 1962 ásamt afriti af bréfi til Alþingis, dags. 2. nóv. 1962, og fundarályktun og grg. frá 4. maí frá Verkfræðingafélagi Íslands vegna brbl. frá 2. maí 1962. Siðar mættu svo, eins og ég hef áður bent á, formaður félagsins og þrír stjórnarmeðlimir á fundi allshn. Á þeim fundi skýrðu fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands sjónarmið sín og félagsins allrækilega, og tel ég, að n. hafi fengið þar ýmsar allmerkilegar upplýsingar sem áður höfðu ekki legið fyrir. Ég hef bent á þá staðreynd, að n. hafði mjög takmarkaða möguleika til þess að kynna sér málið eins rækilega og æskilegt hefði verið, m.a. af því, að gjaldskráin lá ekki fyrir. Æskilegast hefði vitanlega verið að fara nákvæmlega yfir alla gjaldskrána og gera á henni samanburð við eldri gjaldskrá. Ef n. hefði ekki treyst sér til þess að gera þennan samanburð ein, var vitanlega ekkert hægara og eðlilegra en að fá verkfræðing, sem var kunnugur málinu, til að vinna með n. og afla þeirra upplýsinga, sem með þurfti. Ekkert slíkt var gert.

Við nánari athugun á málinu virðist mér koma í ljós, að fullyrðingar hæstv. ráðh. um hættu þá, sem hann telur að reglugerðin mundi hafa í för með sér, ef hún næði gildi, séu allmikið ýktar, svo að ekki sé meira sagt. Í bréfi, dags. 2. nóv. 1962, frá Verkfræðingafélagi Íslands, er sent var Alþingi, segir svo, með leyfi hæstv. forseta, — bréfið er dags. 2. nóv. 1962:

„Hér með leyfum vér oss að senda hinu háa Alþingi fundarályktun og grg. Verkfræðingafélags Íslands í tilefni af setningu brbl. hinn 2. maí 1962, um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf, en þau hafa nú verið lögð fyrir Alþingi.

Í ályktun félagsins er setningu brbl. harðlega mótmælt. Bent er á, að forsendur þeirra séu ekki réttar, og víttar rangfærslur þær, sem þar eru settar fram.

Enn fremur telur félagið setningu laganna furðulega móðgun við íslenzka verkfræðinga og vanmat á hæfni þeirra, þar sem sambærileg erlend verkfræðiþjónusta er keypt hérlendis á þreföldu því verði, er hin nýja gjaldskrá félagsins gerir ráð fyrir.

Félagið varar alvarlega við þeirri braut, sem farið er inn á með setningu 1., og bendir á, að það skilningsleysi á mikilvægi verkfræðiþjónustu, sem brbl. bera vitni um, muni leiða af sér afturkipp í tækniþróun hér á landi þjóðinni til ómetanlegs tjóns.

Í grg. eru leidd rök að þessum sjónarmiðum lið fyrir lið.

Í framhaldi af þessu leyfum vér oss að leggja á það sérstaka áherzlu, að gjaldskráin frá 1955, er lögfest var með brbl., var orðin úrelt og að hin nýja gjaldskrá, sem taka átti gildi hinn 1. maí s.1., hafði þá verið í undirbúningi hálft annað ár og var sniðin eftir nýjustu gjaldskrám verkfræðinga á Norðurlöndum og víðar. Var þannig sérstaklega til hinnar nýju gjaldskrár vandað. Með henni eru hagsmunir og réttur viðskiptamanna verkfræðinga mun betur tryggður en áður var, auk þess sem þóknun samkv. henni er í mörgum tilvikum allmiklu lægri en eftir gjaldskránni frá 1955, einkum í sambandi við þóknun fyrir störf við íbúðarbyggingar.

Vér viljum enn fremur benda á, að gjaldskráin tekur eingöngu til útseldrar vinnu verkfræðinga, og mótmælum því að gefnu tilefni, að hið opinbera noti gjaldskrána í viðskiptum sinum við verkfræðinga í launþegastétt.

Hinn 20. okt. s.l. var numin úr gildi gjaldskrá fyrir útselda vinnu á bifreiðaviðgerðarverkstæðum, vegna þess að hún var orðin úrelt og ekki hæf til notkunar lengur. Með sömu rökum leyfum vér oss að fara þess eindregið á leit við hið háa Alþingi, að það nemi úr gildi umrædd brbl., svo að heilbrigð verðlagning verkfræðistarfa geti átt sér stað. Virðist næsta fráleitt að lögfesta úrelta gjaldskrá fyrir eina stétt, á sama tíma og önnur stétt og almenningur er réttilega losaður við aðra úrelta gjaldskrá.

Vér leyfum oss að treysta því, að hið háa Alþingi taki þessa málaleitan vora til vinsamlegrar fyrirgreiðslu.

Allra virðingarfyllst,

Sigurður Thoroddsen, form.

Hinrik Guðmundsson, frkvstj.“

Eins og bréfið ber með sér, ber allmikið á milli skoðana hæstv. ráðh, á reglugerðinni og fulltrúa Verkfræðingafélags Íslands. Það er ekki eitt, heldur allt, sem á milli ber. Allar fullyrðingar hæstv. ráðh. eru hraktar lið fyrir lið. Þó er það gert enn þá nákvæmar í fundarályktun og grg. Verkfræðingafélags Íslands frá 4. maí 1962, sem ég mun síðar koma inn á að nokkru.

Það er vitanlega oft þannig, að þegar tveir aðilar deila um sama mál og báðir setja fram sín sjónarmíð, getur verið vandkvæðum bundið fyrir þriðja aðila að kveða upp úrskurð um réttmæti skoðana hinna deilandi aðila. Án þess að ég vilji á neinn hátt halla á hvorugan aðilann, vil ég þó halda því fram, að margt af því, sem fram kemur í bréfi og álitsgerð Verkfræðingafélagsins, sé það vel rökstutt, að það verði ekki hrakið með neinum frambærilegum rökum. Það er vitanlega hægt í öllum umr. að neita rökum og staðreyndum, en það eru vitanlega engin rök. Það má vel vera, að hæstv. ráðh. hafi í skúffu sinni einhver frambærileg rök á móti staðhæfingu Verkfræðingafélagsins. Slik rök hafa a.m.k. ekki, svo að mér sé vitanlegt, komið enn þá fram. a.m.k. kom hv. 4. þm. Norðurl. v., frsm. meiri hl., ekki fram með nein frambærileg rök fyrir frv.

Meiri hl. allshn. leggur til, að aftan við 1. gr. komi ný mgr., svo hljóðandi:

„Ákvæði þessarar gr. skulu gilda, þar til nýir samningar um kaup og kjör verkfræðinga, sem starfa hjá ríkisstofnunum, hafa tekið gildi.“

Það liggur nú í hlutarins eðli, að verði gerðir nýir samningar við áðurnefnda verkfræðinga, sem kynnu að verða hærri eða þá lægri en frv. gerir ráð fyrir, hlýtur ákvæðið um þóknun til verkfræðinga, sem frv. gerir ráð fyrir, að verða dauður bókstafur. Þessi viðbót, þ.e. mgr. meiri hl., er því harla lítils virði og léleg úrbót á frv. frá því, sem það var og er.

2. minni hl. allshn., hv. 4. þm. Sunnl., hefur lagt fram sérálit. Leggur hann til, að frv. verði fellt með rökst. dagskrá. Í þessu nál. er bent á nokkur veigamikil atriði, sem mæla móti frv., svo sem að erlendir verkfræðingar, sem hér kynnu að starfa, falli ekki undir lögin, og að á sama tíma sem heft sé frjálsræði verkfræðinga, hafi ýmsir aðrir, sem líkt standi á um, frjálsar hendur til að gefa út gjaldskrá fyrir sin störf. Að öðru leyti mun ég ekki ræða um nál. 2. minni hl.

Þá vil ég lítillega ræða um fundarályktun og grg. frá Verkfræðingafélagi Íslands vegna brbl. frá 2. maí 1962. Fundarályktunin er það löng, að ég sé mér ekki fært að lesa hana alla upp, en tek aðeins úr henni aðalatriðin. Fundarályktunin byrjar á mjög ákveðnum mótmælum á móti brbl. Þó tel ég rétt að lesa aðaltill. til skýringarauka fyrir þá hv. alþm., sem hafa ekki séð ályktunina. Hljóðar till. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur í Verkfræðingafélagi Íslands, haldinn í l. kennslustofu háskólans föstudaginn 4. maí 1962, mótmælir harðlega brbl. frá 2. maí þ. á. um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf og krefst þess, að þau séu numin úr gildi.

Fundurinn mótmælir forsendum laganna sem röngum og vitir rangfærslur þær, sem þar eru í frammi hafðar.

Fundurinn telur setningu þessara laga furðulega móðgun við íslenzka verkfræðinga og vanmat á hæfni þeirra, þar sem vitað er, að íslenzka ríkið kaupir erlenda verkfræðiþjónustu fyrir þrefalt það verð, sem hin nýja gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands gerir ráð fyrir.

Fundurinn varar alvarlega við þeirri braut, sem hér er haldið inn á. Kunnátta íslenzkra verkfræðinga er gjaldgeng, hvar sem er, og óhugsandi er því með öllu, að til langframa verði unnt að hafa verðlag á íslenzkri verkfræðiþjónustu langt fyrir neðan það, sem tíðkast annars staðar.

Bendir fundurinn á, að það skilningsleysi stjórnarvalda á mikilvægi verkfræðiþjónustu, sem brbl. þessi bera vitni um, muni smám saman leiða af sér afturkipp eða stöðnun í tækniþróun hér á landi, þjóðinni til óbætanlegs tjóns.“

Þetta var aðaltill., og henni fylgir alllöng grg., sem ég hef áður getið um.

Í grg. segir m.a., að í forsendum brbl. komi fram svo margs konar skekkjur, að furðu sæti. Telur félagið vítavert, að ráðh. skuli í lagaforsendum þannig fara með rangfærslur, sem til þess séu fallnar að skaða verkfræðingastétt landsins. Þá sé ruglað saman þóknun og launum og í því sambandi bent á gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 19. apríl 1955. Þá er það og fullyrt, að hin nýja gjaldskrá hafi engin áhrif á launagreiðslur þeirra verkfræðinga, sem vinna hjá ríkinu, vegna þess að gjaldskráin sé ætluð fyrir ráðgefandi verkfræðinga einungis, en ekki verkfræðinga á mánaðarkaupi, en launamál þeirra heyri undir Stéttarfélag verkfræðinga og séu því gjaldskránni óviðkomandi. Þá er og bent á, að ríkið hafi nú sem stendur erlenda verkfræðinga í þjónustu sinni við rannsóknarstörf. Miðað við verðlag á verkfræðiþjónustu í heimalandi þeirra, muni ríkið þurfa að greiða fyrir þessa þjónustu tvöfalda til þrefalda þá upphæð, sem hún hefði kostað samkv. nýju gjaldskránni, ef íslenzkir verkfræðingar hefðu annazt hana.

Ekki er furða, ef hér er rétt skýrt frá, að íslenzkir verkfræðingar og aðrir sérfræðingar íslenzkir leiti til annarra landa eftir atvinnu, ef svona hrapallega er gert upp á milli íslenzkra aðila og erlendra, enda hefur á því borið undanfarin ár, að íslenzkir menntamenn hafa mjög sótt út fyrir landsteinana til atvinnu í nágrannalöndunum, og verður það að teljast mjög alvarlegt ástand, ef áframhald kynni að verða á slíkri þróun.

Í grg. er fullyrt, að ráðuneytið hafi ekki getað gert raunhæfan samanburð á nýju gjaldskránni og hinni eldri á þeim tíma, sem það hafði þá nýju undir höndum. Ég skal ekkert segja um það, hvort hér er rétt með farið. En sé hér rétt með farið, er hér um mjög alvarlega ásökun að ræða á hæstv. ráðh. Ráðuneytinu var af hálfu félagsins boðið upp á viðræður um hina nýju gjaldskrá, en ekkert svar barst við því tilboði.

Næst kemur svo alllangur kafli um breytingar á nýju gjaldskránni. Í ýmsum algengum verkefnum, sem unnin eru í ákvæðisvinnu, hefur orðið um 25 % hækkun, eftir því sem sagt er í þessari reglugerð samkv. nýju gjaldskránni, í sumum tilfellum engin hækkun, heldur jafnvel um lækkun að ræða. Gamli tímakaupstaxtinn var eftir hækkun 1960 153 kr. á klst., þegar sú gjaldskrá skyldi taka gildi. Rétt er að taka fram, að þeirri gjaldskrá mun hafa verið mótmælt, en að dómi manna, sem telja sig hafa þar vit á, er dregið mjög í vafa, að hægt hafi verið með neinum rökum að mótmæla þeirri gjaldskrá, og hún mundi hafa getað tekið gildi. Samkv. nýju gjaldskránni yrði tímagjaldstaxtinn breytilegur, eða frá 120 kr. upp í 330, miðað við sérþekkingu og hæfni. Hæsti taxtinn skyldi aðeins gilda fyrir fáa menn og einungis við einstök verkefni, þar sem mikla sérþekkingu þurfti til.

Í grg. Verkfræðingafélagsins er gerður allfróðlegur samanburður á kaupi sænskra verkfræðinga og íslenzkra. Þar er sagt, að kaup sænskra verkfræðinga sé 860 ísl. kr. á tímann. Það má vei vera, að hæstv. ráðh. hafi verið ókunnugt um kaup sænskra verkfræðinga, um það skal ég ekkert segja, og þar af leiðandi hafi hann ekki getað haft það til samanburðar um gjaldskrá, þegar hann var að fara yfir gjaldskrá Verkfræðingafélagsins. Hitt hlýtur þó hæstv. ráðh. að hafa verið ljóst, hvað amerískum verkfræðingum, er hér höfðu unnið að rannsóknarstörfum, var greitt fyrir störf sín hér, en Verkfræðingafélagið telur íslenzka verkfræðinga þó fullfæra að inna af hendi, ef til þeirra hefði verið leitað. Eftir skýrslu Verkfræðingafélagsins var amerískum verkfræðingum, sem hér unnu að rannsóknarstörfum, greitt á dag 25 dollarar eða 1075 kr. á klst. Mér finnst hér vera um allmyndarlega greiðslu að ræða, og er þá ekki að furða, þegar þessar staðreyndir liggja fyrir, ef réttar eru, þó að íslenzkir verkfræðingar létu sér detta það í hug að fara fram á einhverja töluverða hækkun. Nú vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh.: Eru þessar upplýsingar Verkfræðingafélagsins réttar, eða eru þær rangar?

Um áhrif brbl, segir svo að lokum í grg. Verkfræðingafélags Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Að lokum viljum við benda á, að það skilningsleysi valdhafanna á gildi verkfræðiþjónustu, sem lengi hefur verið landlægt hér á landi og þessi brbl. bera órækt vitni um, kann að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðina, þegar til lengdar lætur. Hvarvetna er mikil eftirspurn eftir tæknimenntuðu vinnuafli og skortur á því. Lífskjör þjóða eru sífellt að verða meira og meira undir því komin, að þær fylgist með tækniþróuninni og hafi nægum tæknimenntuðum mönnum á að skipa til þess að dragast ekki aftur úr á því sviði. Slik afstaða til verkfræðinga er hér kemur fram er ekki líkleg leið til að tryggja þann hraða í tækniþróun þjóðarinnar, sem óhjákvæmilegur er, ef lífskjör hennar eiga að batna á komandi árum.“

Ég hef hér að nokkru rætt um frv. og aðaltilgang þess. Enn fremur hef ég rætt um álit Verkfræðingafélags Íslands á frv. og bent á það helzta, sem félagið hefur á móti frv. Þau rök, sem þar eru sett fram, eru að mínum dómi mjög athyglisverð og styðja eindregið þá skoðun mína, sem fram kemur í nál. mínu, að fella beri frv. Til viðbótar rökum verkfræðinganna kemur svo það, að ég tel ófært og í alla staði ólýðræðislegt að leysa kaupdeilur með löggjöf, hvort sem slíkt er gert með setningu brbl. eða með lögum settum af Alþingi, hver sem í hlut á. Það er viðtekin regla í öllum lýðræðisþjóðfélögum og þá ekki sízt í okkar þjóðfélagi, að allar kaupdeilur beri að leysa eftir þeim reglum og starfsháttum, sem verkalýðshreyfingin hefur sett sér og farið eftir frá fyrstu hendi, og þá vitanlega innan þess ramma, sem vinnulöggjöfin setur. Að leysa vinnudeilur með setningu brbl. er hreint gerræði og hrein og bein misnotkun þess mikla valds, sem ríkisstj. og einstakir ráðh, hafa á milli þinga. Með því að leysa kaupdeilur með útgáfu brbl. er á hinn freklegasta hátt gengið á rétt viðkomandi aðila, þar sem þeim er þar með meinað að ná rétti sinum eftir þeim starfsreglum, sem vanalega eru viðhafðar, þegar um kaupdeilur er að ræða. Það er þetta gerræði og þetta valdboð, er verkfræðingarnir voru beittir með setningu brbl. frá 2. maí 1962, sem ég vil mótmæla alveg sérstaklega, og get því í einu og öllu tekið undir hin skorinorðu mótmæli Verkfræðingafélagsins frá 4. maí 1962 um þetta atriði.

Það verður að teljast mikill vafi á því, hvort rétt eða satt er að orði komizt í grg. fyrir brbl., að brýna nauðsyn hafi borið til að gefa út brbl. vegna hinnar nýútgefnu gjaldskrár Verkfræðingafélags Íslands.

Eins og fram kemur í nál. mínu á þskj. 314, hef ég enga sérstaka afstöðu tekið til gjaldskrár Verkfræðingafélags Íslands. Eins og ég hef áður bent á, lá gjaldskráin ekki fyrir hjá n., og fyrir því gafst ekki tækifæri til þess að kynna sér hana að neinu ráði, enda mjög flókin. Ég vil þó undirstrika það, sem fram kemur í grg. Verkfræðingafélagsins og áður hefur verið bent á, að rn. hefur ekki haft tíma til að gera raunhæfan samanburð á nýju gjaldskránni og hinni eldri á þeim stutta tíma, sem það hafði hina nýju gjaldskrá undir höndum, áður en brbl. voru gefin út. Þetta út af fyrir sig er náttúrlega ákaflega merkileg yfirlýsing, ef hún er á rökum reist, að það skuli geta skeð hjá okkur, að gefin séu út brbl., án þess að viðkomandi ráðh. kynni sér málið eftir öllum þeim hugsanlegu leiðum, sem tiltækilegar eru. Ég fullyrði ekkert um það, hvort þessi fullyrðing er rétt, en þetta stendur í þessu skjali, og ég óska eftir því, að ráðh. upplýsi þá um það, ef hér er hallað réttu máli.

Mótmæli mín á móti nefndum lögum byggjast fyrst og fremst og aðallega á því, að ég er algerlega mótfallinn þeim starfsaðferðum, sem þar er beitt. Ég er andvígur þeirri stefnu, sem fram kemur hjá hæstv. ríkisstj. með útgáfu brbl. 2. maí 1962 til lausnar verkfræðingadeilunni. Ég tel slíka aðferð ólýðræðislega og í alla staði óforsvaranlegt af hvaða ríkisstj. sem er að viðhafa slíkar starfsaðferðir til lausnar vinnudeilu. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur reyndar áður viðhaft slík vinnubrögð, sbr. flugmannaverkfallið. Þá voru gefin út brbl. til lausnar þeirri deilu, og hlaut hæstv. ríkisstj. frekar lítinn heiður þar fyrir. Í júní s.l. gaf svo hæstv. sjútvmrh. út hin illræmdu brbl. í sambandi við deilu sjómanna og útvegsmanna um kjör á síldveiðum, einmitt á þeim tíma, þegar allt benti til þess, að sú deila væri að leysast, og þar með voru kjör sjómanna á síldveiðum stórlega lækkuð frá því, sem áður hafði verið. Þar sem það mál er ekki hér á dagskrá, mun ég ekki ræða þau lög frekar. En ég bendi aðeins á þessi tvö dæmi til að sýna fram á, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur hvað eftir annað beitt ráðherravaldi sínu til að knésetja þá aðila, sem átt hafa í deilum um kaup sitt og kjör. Slikir starfshættir segja alveg örugglega til um það, hvers fulltrúa hæstv. ríkisstj. telur sig vera, og þarf ekki fleiri orð um það að hafa.

Með tilliti til þess, sem ég hef nú sagt, og með tilliti til þess, að íslenzk verkalýðshreyfing hefur frá fyrstu og fram á þennan dag talið sig algerlega mótfallna því, að kaupdeilur væru leystar með valdboðum ofan frá, svo sem með brbl. eða með lögum settum af Alþ., hef ég lagt til, að frv. til l. um hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf verði fellt.