28.02.1963
Neðri deild: 47. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. meiri hl. (Einar Ingimundarson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeim umr., sem orðið hafa hér um það frv., sem hér er til umr. Það hefur nokkuð verið minnzt á gjaldskrá Verkfræðingafélagsins, sem brbl. voru sett til þess að fyrirbyggja að gengi í gildi. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að þessi gjaldskrá var lögð fram í allshn. af fulltrúum Verkfræðingafélags Íslands á þeim fundi, sem þeir mættu á hjá n., en ég minnist þess ekki, að það hafi nokkur nm. beðið mig um að útvega sér þessa gjaldskrá til afnota. Hins vegar eins og ég segi, mun hún hafa legið frammi á einum fundi í n., þegar fulltrúar Verkfræðingafélags Íslands mættu þar.

Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um ræðu hv. 11. landsk. þm. (GJóh). Mér virtist á hans ræðu, að hann tæki algerlega afstöðu með öðrum aðilanum. Hann minntist t.d. ekki á þær upplýsingar, sem við allshn.-menn fengum hjá tveimur starfsmönnum samgmrn., viðkomandi því, sem mestu máli skipti hér. Hvorugur frsm., 1. eða 2, minni hl., hvorki hv. 11. landsk.hv. 4. þm. Sunnl., minntist heldur á það, að fyrirsvarsmenn verkfræðinga, sem kvaddir voru til fundar við allshn. á sinum tíma, voru margspurðir um það á þessum fundum, hvort gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands hefði engin áhrif á þær greiðslur, sem þeir verkfræðingar, sem vinna í þjónustu ríkisins, hefðu tekið við fyrir sin störf, eftir að þeir sögðu upp samningum 1. júlí 1961. Þeir minntust ekki á, að fulltrúar verkfræðinga hefðu verið spurðir um þetta. En ég man ekki betur en við hefðum aldrei fengið nein svör við þessum spurningum. Og vegna þess hneigist ég að því, sem fullyrt er í forsendum með brbl., sem hér eru til umr., að það sé rétt, sem þar segir, að greiðslur fyrir þau störf, sem unnin hafa verið í þágu ríkisins, hafi frá 1. júli 1961 eða frá því að samningum um kaup og kjör verkfræðinga var sagt upp, miðazt við gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands. Sú gjaldskrá, sem enn þá gildir, er frá 1955, og hefðu þessi brbl. ekki verið sett, mundi hin nýja gjaldskrá að sjálfsögðu hafa tekið gildi og greiðslur til verkfræðinganna hækkað þá í samræmi við ákvæði hinnar nýju gjaldskrár.

Þá sagði hv. 11. landsk. þm., að ég hefði enga tilraun gert til þess að réttlæta útgáfu brbl. Ég veit ekki, hvers vegna það hefur gersamlega farið fram hjá honum, sem ég sagði, en ég ætla að leyfa mér að lesa hér upp það, sem ég sagði hér í minni fyrri ræðu, með leyfi hæstv. forseta, — ég sagði þetta:

„Margir kunna nú e.t.v. að spyrja, hvað komi málinu við í deilu ríkisvaldsins við verkfræðinga hjá ríkisstofnunum um kaup og kjör þeirra hin nýja gjaldskrá, er gilda skyldi um laun og kostnað við starfsemi þeirra verkfræðinga, sem starfa sjálfstætt. Þegar betur er að gætt, mun þetta þó mjög blandast saman, vegna þess að frá því að verkfræðingar frá ríkisstofnunum sögðu upp samningum um kaup og kjör í júlí 1961, hafa greiðslur fyrir flest verkfræðistörf, sem unnin hafa verið á vegum ríkisins, síðan aflýst var verkfalli verkfræðinga haustið 1961, miðazt við gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 1955, og má ætla, að ef hin nýja gjaldskrá hefði tekið gildi, hefðu þessar greiðslur til verkfræðinga hjá ríkisstofnunum hækkað svo mjög í samræmi við ákvæði hinnar nýju gjaldskrár, að þær hefðu orðið, a.m.k. að því er varðar tímakaup, hærri en það mánaðarkaup, sem Stéttarfélag verkfræðinga krafðist fyrir hönd verkfræðinga hjá ríkisstofnunum, þegar samningunum var sagt upp í júlí 1961.” Síðan bætti ég við: „Hefði, þegar svo var komið, verið til lítils eða neita lengur að ganga að kröfum Stéttarfélags verkfræðinga óbreyttum.“

Ég skal ekkert segja um það, hvort hv. 11. landsk. telur þetta vera rök út af fyrir sig, en a.m.k. þóttist ég hafa gert tilraun til þess að skýra, hvers vegna brbl. hefðu verið gefin út, með því, sem ég las óbreytt upp úr minni fyrri ræðu nú.