12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 642 í B-deild Alþingistíðinda. (494)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Þetta frv. var rætt allýtarlega við 2. umr. málsins. Ég skal hvorki reyna að hefja þær umr. að nýju né lengja umr. um þetta mál. En ég vildi aðeins freista þess, hvort nokkur möguleiki væri á að koma fram nokkurri endurbót á þessu frv. nú, eins og það lítur út.

Í 1. gr. frv., 3. málsgr., stendur: „Ákvæði þessarar gr. skulu gilda, þar til nýir samningar um kaup og kjör verkfræðinga, sem starfa hjá ríkisstofnunum, hafa tekið gildi.” Ég er ákaflega hræddur um, að allir þdm. hafi ekki gert sér fullkomlega ljóst, hvað þetta raunverulega þýðir. Það er vitanlegt, að 1. júlí í síðasta lagi verður kveðið á um, hver verði kaup og kjör þeirra manna, sem starfa hjá íslenzka ríkinu. Og það hafa kannske sumir haldið, að verkfræðingarnir, sem eru í stéttarfélagi þeirra, mundu koma þá þarna undir. Svo er ekki. Þessi setning, eins og hún er nú orðuð, mundi raunverulega þýða það, að ríkisstj. hefur allt vald í þessum málum og ákvæði þessarar 1. gr. gilda, þangað til samið hefur verið. Það er hægt að halda þessum brbl. gildandi, þangað til verkfræðingarnir hafa kannske beygt sig einhvern veginn fyrir ríkisstj. Þetta er það óréttláta í þessu efni, og ég á bágt með að trúa því, að það hafi verið meining meiri hl. í þessari hv. deild að ganga svona frá lögunum. Ég vil þess vegna freista þess að leggja hér fram till. ásamt hv. 4. þm. Sunnl. um, að þarna verði gerð sú breyting á, að í stað orðanna „nýir samningar“ og til loka setningarinnar komi: 1. ágúst 1963. Þá mundi þessi síðasta málsgr. 1. gr. orðast svo: „Ákvæði þessarar greinar skulu gilda þar til 1. ágúst 1963.” M.ö.o.: þá félli þessi gr. og þar með raunverulega lögin úr gildi. Það þýddi, að eftir að 1. júlí væri endanlega búið á einn eða annan hátt að ganga frá samningunum við ríkisstarfsmenn, þá hefur ríkisstj. júlímánuð til þess að semja við verkfræðingana og reyna að koma þessu á heiðarlegan grundvöll, þannig að það sé ekki gert út um þetta með brbl, og slíku og beitt eins konar lagasetningu gagnvart þeim, heldur séu teknir upp samningar við þá og lokið samningum við þá eins og aðra, sem vilja vera starfsmenn ríkisins.

Ég vil svo leyfa mér að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir þessari till., af því að hún er skrifleg og of seint fram komin.