26.02.1963
Neðri deild: 46. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

130. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 307, mælir n. með samþykkt þess frv., sem hér liggur fyrir, um breyt. á l. um atvinnu við siglingar, með þeirri breyt., að heimildin til þess að halda námskeið fyrir hið minna fiskimannapróf framlengist til ársloka 1965, í stað 1967, eins og frv. gerir ráð fyrir. N. gengur út frá því, að þáltill. á þskj. 34 um endurskoðun 1. um Stýrimannaskóla Íslands o.fl., sem hv. allshn. Sþ. hefur nú mælt með, sbr. nál. á þskj. 297, nál fram að ganga, og væntir, að af samþykkt þeirrar till. leiði það, að gagnger endurskoðun á l. um sjómannafræðslu fari fram á næstunni. Þess vegna áleit n. nægilegt að heimila námskeiðin samkv. frv. til ársloka 1965.

Eins og fram kemur í nál. sjútvn., er n. þeirrar skoðunar, að ekki megi draga úr þeim kröfum, sem gerðar eru til staðgóðrar menntunar og þekkingar yfirmanna á fiskiskipum og farskipum. Á herðum þessara manna hvílir mikil ábyrgð, og öryggi skipshafna og skipa er oft undir því einu komið, að stjórnendur skipanna séu starfi sínu vaxnir, og öll þau margbrotnu tæki, sem nú er farið að nota í stórum og smáum skipum, krefjast meiri kunnáttu skipstjórnarmanna en áður. Þetta sjónarmið telur n. að eigi fyrst og fremst að hafa í huga við væntanlega endurskoðun l. um sjómannafræðslu að því er skipstjórnarmenn varðar. Hinu er svo ekki að neita, að þau námskeið, sem frv. þetta fjallar um, hafa komið að verulegu gagni, þó að segja megi, að þau geti ekki talizt fullkominn skóli. Þetta sést m.a. af ummælum skólastjóra stýrimannaskólans, sem vitnað er til í nál. sjútvn. á þskj. 307, en hann bendir á, að sú æskilega þróun virðist vera að skapast, að æ fleiri taki próf á slíkum námskeiðum sem áfanga til fiskimannaprófs frá stýrimannaskölanum, en það próf veitir réttindi til skipstjórnar á fiskiskipum af hverri stærð sem er í innan- og utanlandssiglingum.

Sú þróun, sem nú er að verða í skipakaupum okkar, að því er snertir stærð fiskiskipa, gerir það einmitt nauðsynlegt, að sem flestir skipstjórnarmenn ljúki fiskimannaprófi. Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að vekja athygli á ábendingu, sem fram kemur í umsögn Fiskifélags Íslands um þetta frv., en umsögnin barst eftir að sjútvn. hafði gengið frá nál. sínu. Í umsögninni segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Á undanförnum árum hefur sú meginbreyting orðið á stærðarskiptingu vélbátaflotans, að mjög hefur fjölgað hinum stærri skipum, og er fjöldi þeirra skipa, sem nú eru byggð, yfir 120 rúmlestir. Með fjölgun þessara skipa eykst að sjálfsögðu þörfin fyrir menn með réttindi yfir 120 rúmlestir, en raunin hefur orðið sú, að oft verður að grípa til undanþáguveitinga til þess að tryggja vel hæfa skipstjórnar- og fiskimenn á hina stærri báta. Á árunum 1947–1951 var gripið til þess ráðs til að bæta úr sams konar ástandi, sem þá hafði skapazt, að halda sérstök námskeið fyrir þá, sem höfðu hin minni réttindi, sem þá höfðu miðazt við 75 rúmlestir, svo að þeim gæfist tækifæri til að afla sér aukinnar menntunar við sitt hæfi og öðlast jafnframt réttindi til að stjórna fiskiskipum af hvaða stærð sem væri. Vér teljum, að nú hafi skapazt það ástand, að rétt væri að gera nú sams konar ráðstafanir, og vísast um þetta til bráðabirgðaákvæðis l. um atvinnu við siglingar, nr. 66 17. júlí 1946.“

Ég tel fyrir mitt leyti rétt, að þessi ábending Fiskifélagsins komi til athugunar í sambandi við endurskoðun l. um sjómannafræðslu. En eitt vil ég þó benda .á í þessu sambandi. Flestar aðrar stéttir verða að taka út sína skólagöngu, áður en þær hverfa að lífsstarfinu.

Er það ekki að fara dálítið aftan að siðunum að ætla að skóla sjómenn, sem margir hverjir hafa lokið hálfri starfsævinni eða meira, og sjálfsagt flestir staðið sig með prýði í störfum. Ég varpa þessu fram til umhugsunar, en ekki af því, að ég sé endilega mótfallinn till. Fiskifélags Íslands um viðbótarnámskeið fyrir þá, sem nú hafa 120 rúmlesta réttindi. Ég held nefnilega, að þörfin, bæði nú og fyrr, fyrir slik námskeið sýni það, svo að ekki verður um villzt, að við þyrftum að koma betra skipulagi á sjómannafræðsluna en nú er, skipulagi, sem tryggði okkur vel menntaða skipstjórnendur frá byrjun starfsævinnar, og að slíku skipulagi ætti að stefna við endurskoðun 1. um sjómannafræðslu. En hvað sem þessu líður, þá mæli ég með því frv., sem hér liggur fyrir, fyrir hönd sjútvn. og legg til, að það verði samþ. með þeirri breyt., sem n. hefur orðið sammála um.