07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 687 í B-deild Alþingistíðinda. (566)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Frsm. minni hl. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. mínu á þskj. 190 um þetta mál, þá mæli ég með því, að frv. nái fram að ganga með nokkrum breyt., sem ég hef borið fram till. um og prentaðar eru aftan við nál. á þskj. 190.

Þessar breyt. eru í því fólgnar, að ég vil láta hækka styrkinn til byggingar íbúðarhúsa á nýbýlum og til endurbyggingar á íbúðarhúsum á jörðum, sem hafa ónothæf íbúðarhús. Ég vil láta hækka þennan styrk úr 40 þús. kr., sem hann er núna í 1., í 60 þús. kr. Þetta er þriðjungshækkun, og ég geri till. um, að varið verði til þessara framkvæmda úr ríkissjóði 3 millj. kr. á ári í stað þeirra 2 millj. kr., sem l. ákveða. Hv. meiri hl, landbn. gerir till. um að hækka þetta í 50 þús. kr. á hvert hús, og þykir mér það of skammt gengið í hækkunarátt. Í till. meiri hlutans er ekki gert ráð fyrir auknu framlagi úr ríkissjóði til samræmis við hækkunartill., og fæ ég ekki skilíð það á annan hátt en þann, að meiri hl. búist við samdrætti í stofnun nýbýla á næstu árum, því að 2 millj. kr. gera ekki með 50 þús. kr. styrk nema að fullnægja 40 styrkveitingum. Vera má, að þetta kunni illu heilli að reynast svo, að nýbýlastofnendum fækki frá því, sem verið hefur að undanförnu, en ég hef ekki viljað gera ráð fyrir því í mínum brtt., heldur miðað við svipaða nýbýlastofnun árlega og verið hefur að undanförnu.

Till. mín um þetta er gerð með tilliti til þess í fyrsta lagi að örva menn til að hefja landnám og reisa nýjar bújarðir á áður ónumdu landi, og í öðru lagi miðast hún við það, að ríkið leggi af mörkum til þessa svo þýðingarmikla starfs svo ríflegan stuðning, að einhverju dálitlu muni fyrir þá, sem ætla að gera það að lífsstarfi sinu að rækta og nema og byggja landið, hvort sem þeir gera það heldur á þann hátt að stofna nýbýli eða reisa úr rústum þær jarðir, sem orðið hafa aftur úr eða hafa af einhverjum orsökum farið í eyði. Slíkt þjóðnytjastarf er þess vert, að því sé stuðningur veittur. Þess vegna hef ég einnig gert um það brtt. á þskj. 190, að jarðræktarframlagið á nýbýlum og jörðum, sem hafa innan við 15 hektara tún, verði 65% af kostnaðarverði við ræktunina framvegis í stað 50%, eins og verið hefur og gert er ráð fyrir í frv. að verði áfram í lögum.

Í 3. brtt. minnt er ríkissjóður skyldaður til þess að leggja fram það fé, sem til þarf næstu 8 ár, svo að hægt sé að framkvæma þetta. Ég held, að um það séu ekki skiptar skoðanir, að búskapur íslenzkra bænda verði að byggjast á ræktuðu landi, en sá áhættusami rányrkjubúskapur, sem hér hefur verið stundaður frá landnámstíð, verði að hverfa. Og þá held ég líka, að menn greini yfirleitt ekki á um það, að 15 hektarar séu algert lágmark, eins og stendur, þess ræktaða lands, sem mögulegt sé að lifa af. Þeir, sem ætla sér að lifa af landbúnaði og ekki geta komizt upp fyrir 15 hektara með túnið sitt, hljóta að verða aftur úr og hverfa brátt úr leik sviði búskaparins. Mér finnst, að það verði að stækka búin og það sem fyrst. Það er talið, að meðallandsbúið, eins og það er núna, framfleytist á 15 hekturum af ræktuðu landi eða af vel ræktuðu túni. Ég held, að það þurfi að hraða stækkuninni, svo að litlu jarðirnar fari ekki í eyði; og ég álít, að hið opinbera verði að vera rausnarlegt í stuðningi sínum við að efla einstaklingsbúskap okkar Íslendinga. Ég tel, að okkur muni ekki henta annað form á rekstri landbúnaðar en einstaklingsrekstur, sem styðst jöfnum höndum við samvinnufélög bænda og vinsamlegt ríkisvald.

Mér finnst, að eins og nú er sé ríkisvaldið of smátækt í stuðningi við landbúnaðinn. Í því sambandi vil ég benda á, að af áætluðum heildartekjum fjárlagafrv. má telja, að 55 millj. fari beint til jarðræktar og bygginga í sveitum. Það eru jarðræktarframlög áætluð um 14 millj. og til framræslu 12 millj. og framlög samkv. stofnlánadeildarl. 29 millj. kr. Þetta virðist mér vera um 21/2 % af heildarupphæð fjárl. Það er smá upphæð af hálfu hins opinbera til þess að hjálpa til við hið þýðingarmikla starf að rækta og byggja landið og skila því í hendur næstu kynslóðar betra en það er nú. Mér finnst þetta vera of smá upphæð í þessum tilgangi.

Brtt. þær, sem ég hef fram borið, eru aðeins tilraun í þá átt að örva stuðning við þá, sem vilja hefja landnám í sveitum, og við aðra, sem eiga í vök að verjast og má ekki á milli sjá, hvort þeir hrekjast af hólmi eða sigra í búskaparbaráttunni.

Ég er þess að vísu minnugur, að allar umbótatill. okkar framsóknarmanna voru fyrir fáum árum, eða í fyrra, felldar hér á hv. Alþ., þegar stofnlánadeildarlögin voru til meðferðar. Nú hefur hins vegar ein þeirra till., sem við þá bárum fram hér í hv. Nd., um það að færa markið úr 10 hekturum upp í 15, sem njóti sérstaks styrks, verið tekin upp, og er það aðalefni þessa frv. Auðvitað fagna ég þeirri breytingu og skilningi á þessu máli, sem í því birtist. En ég tel, að einnig þurfi til að koma skilningur á því, að rétta þurfi lengra fram örvandi hönd. Mínar till. gefa hv. alþm. tækfæri til að rétta nútímalandnámsmönnum í íslenzkum sveitum örvandi hendur, og því mæli ég með því, að þær verði samþ., um leið og ég mæli með því, að frv. verði að öðru leyti samþ. og nái fram að ganga.